Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 16:25:35 (3393)

1999-02-09 16:25:35# 123. lþ. 61.13 fundur 149. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[16:25]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég ætla ekki að bæta miklu við um frv. þetta. Ég fjallaði um það áður, þegar það var lagt fram á síðasta þingi. Einu sinni í viku að meðaltali hringir í mig kjósandi sem hefur lent í að þurfa að greiða kröfu sem hann ábyrgðist. Þar er ekki um tíuþúsundkalla eða hundrað\-þúsundkalla að ræða heldur oft og tíðum milljónir. Þetta hefur valdið persónulegum harmleikjum, alveg óskaplegum harmleikjum. Fólk hefur skrifað undir vegna sálfræðilegs og félagslegs þrýstings frá maka sínum, sem síðan hefur fallið frá. Börn sem hafa haft gott samband t.d. við afa og ömmu eða eitthvað slíkt fá þau til að skrifa undir. Menn verða fyrir þrýstingi frá vinum sínum og félögum. Það er þrýst á að leysa vandamálin með því að skrifa undir lítið og ómerkilegt plagg.

Hið sorglega við öll þessi dæmi er að fólkið hefur ekki einu sinni eytt peningunum sem það verður að greiða. Það er, held ég, skárra að standa í vanskilum með peninga sem menn hafa þó eytt og notið en að þurfa að borga hundruð þúsunda eða milljónir sem fólkið sjálft hefur ekki eytt, hefur ekki farið í ferðalag fyrir, keypt jeppa fyrir eða nokkurn skapaðan hlut heldur eingöngu skrifað undir. Það er mjög sorglegt.

Öll lagasetning í þessa veru er forsjárhyggja. Með henni segjum við: Maðurinn á ekki að standa við það sem hann skrifar undir. Hann er ekki fjárráða. Ég held samt sem áður, vegna þess hve þetta er algengt og mikið notað, að það sé nauðsynlegt.

Einhver gæti spurt: Af hverju þetta er svona? Af hverju er fjármálamarkaðurinn eins og fram kom hjá hæstv. viðskrh.? Af hverju er þetta svo mikið notað hér á landi? Ég held að það sé vegna þess að fjármálamarkaðurinn hefur verið á framfæri hins opinbera. Hann hann hefur ekki verið rekinn eins og annars staðar þar sem fyrirtæki eða fjármálastofnanir skoða rekstur fyrirtækja fremur en veð. Hér hafa menn einblínt á veð, steinsteypu og ábyrgðarmenn. Það er óeðlilegt.

Nokkrar leiðir eru til þess að vinna bug á þessum vanda. Ein er bann, að banna ábyrgðir einstaklinga. Það væri hið sama og að taka fjárráðin af þjóðinni og gengur engan veginn upp. Svo má gera annað, sem hér er lagt til, að skylda fjármálastofnanir til að upplýsa þann sem skrifar upp á um afleiðingar þess. Jafnframt yrði stofnuninni gert að veita upplýsingar um stöðu skuldarans og því er ég mjög hlynntur.

Ýmislegt í þessu frv. er ég ekki alveg sáttur við og áskil mér rétt til að skoða það mjög nákvæmlega þar sem ég sit í þeirri hv. nefnd sem um þetta mál mun fjalla. Í nefndinni mun ég einnig óska þess að kannað verði hvaða áhrif það samkomulag sem hæstv. viðskrh. gat um hefur haft á þessi mál. Ef reyndin er sú að þetta hafi lagast, þá tel ég ekki ástæðu til að setja lög um þetta. En mér segir svo hugur að ástandið hafi ekki lagast nægilega mikið og því þurfi að setja um þetta einhvers konar lög. Ég held að með hliðsjón af þeim óskaplegu harmleikjum sem ég hef heyrt af, þar sem fólk hefur misst íbúðir sínar, hjónabönd hafa rofnað og fólk farið á vonarvöl vegna óráðsíu annarra sé brýnt að taka upp einhvers konar lagasetningu og upplýsa fólk um þær afleiðingar sem slíkir uppáskriftir geta haft. Ég tel eðlilegt að hafa þannig vit fyrir fólki, að það sé upplýst í stað þess að banna því að gangast í ábyrgð. Ég styð frv. og mun skoða það mjög nákvæmlega í nefndinni. Ég mun leggja til að gerðar verði á því þær breytingar sem nauðsynlegar eru og sérstaklega verði skoðað hvernig samkomulagið, milli fjármálastofnana og ráðuneytisins um að sporna við þessu, hefur gengið. Ef það hefur breytt einhverju, þá er þetta frv. hugsanlega óþarft.