Markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 16:49:09 (3396)

1999-02-09 16:49:09# 123. lþ. 61.14 fundur 160. mál: #A markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis# þál., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[16:49]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. Stefán Guðmundsson gat um mælti hann fyrir þessari tillögu á síðasta þingi og hún fór þá til landbn., fékk ekki lokaafgreiðslu þar og er endurflutt núna.

Ég vil í fáum orðum taka undir efni tillögunnar. Mér finnst hún skynsamleg og ég held að ef við ætlum að ná árangri í útflutningi á dilkakjöti sé þetta besta leiðin sem hér er lögð til, þ.e. að semja við þau öflugu sölufyrirtæki sem framsögumaður taldi upp, eins og Íslenskar sjávarafurðir, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda. Þessi fyrirtæki hafa óneitanlega komið sér upp mikilli þekkingu á mörkuðunum og náð á margan hátt mjög góðum árangri og ég er sannfærður um að þetta er vænlegasta leiðin til þess að ná árangri í útflutningi á dilkakjöti.

Ég minnist þess að ég kom í Kaupfélagið á Hornafirði fyrir tveimur eða þremur árum þar sem fjöldi manns var að pakka dilkakjöti til neyslu á Belgíumarkað. Forsvarsmenn þess fyrirtækis sögðu okkur frá því að sú sala hefði orðið þannig til að það barst í tal við sölustjóra hjá Íslenskum sjávarafurðum í Belgíu, sem var að selja fyrir þá fisk, að það þyrfti að koma kjötinu á markað. Það var hann sem tók að sér að eigin frumkvæði að markaðssetja þetta kjöt með þeim árangri að verulegur útflutningur hefur verið á þessu ágæta kjöti á Belgíumarkað síðan. Þess vegna finnst mér og hef trú á því að þetta sé besta leiðin ef við ætlum á annað borð að huga að útflutningi á dilkakjöti.

Það kemur fram í greinargerð og kom fram í ágætri ræðu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar að mikill samdráttur hefur orðið hjá sauðfjárbændum á undanförnum árum. Eins og hann nefndi hefur dilkakjötsframleiðslan dregist saman um 1.300 tonn á síðustu sjö árum. Á árunum 1991--1996 lækkuðu launagreiðslur sauðfjárbúa um heil 35% á sama tíma og ráðstöfunartekjur einstaklinga á landinu öllu voru að hækka um 5%. Þetta er óneitanlega sú stétt sem hefur átt hvað erfiðast í landinu á undanförnum árum. Gríðarlegur samdráttur hefur orðið í sölu á kjötinu sem hér er vitnað til og menn hafa horft til útflutnings sem lausnar á þessu vandamáli en því miður ekki náð viðunandi árangri á því sviði vegna þess kannski fyrst og fremst að það þarf gríðarlegt fjármagn í auglýsingar og markaðsstarfsemi ef við ætlum að ná árangri í sölu á erlendum mörkuðum. Við höfum einfaldlega ekki yfir þessu fé að ráða. Þess vegna er ég sammála flutningsmönnum í því að vænlegasta leiðin til þess að reyna að ná árangri í útflutningi á dilkakjöti er sú sem hér er lögð til og styð því þessa tillögu.