Almannatryggingar

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 17:10:33 (3400)

1999-02-09 17:10:33# 123. lþ. 61.15 fundur 161. mál: #A almannatryggingar# (sálfræðiþjónusta) frv., Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[17:10]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að nefna að það er einkar sérstakt að það mál, sem var verið að ræða áðan, 14. mál á dagskránni í dag, 15. mál og 16. mál, voru lögð fram á haustdögum. Síðasta mál sem var rætt er 160. mál eða þskj. 160. Það er þskj. 163 sem hér er til umræðu og næst á eftir er mál sem er þskj. 164.

Ég verð að segja að það kemur manni alltaf og ævinlega á óvart að það skuli ár eftir ár endurtaka sig að mál sem hv. þingmenn leggja fram skuli mörg hver bíða afgreiðslu vikum og mánuðum saman án þess að komast til umræðu í nefndum þingsins.

Ástæða þess að ég tek þetta upp er m.a. sú, virðulegi forseti, að verið er að ræða breytingu á þingsköpum og mér þætti eðlilegt að þar væru settar inn, miðað við þá reynslu sem ég hef af tæplega tólf ára starfi, einhverjar reglur um það hver væri lágmarks- eða hámarkstími þar til mál væri tekið á dagskrá og afgreitt til nefndar.

Það er einnig umhugsunarvert að mál sem ég er að fara að mæla fyrir, sem er frv. til breytinga á lögum um almannatryggingar, hefur legið hér m.a. svo lengi vegna þess að ég vænti þess að þegar það yrði rætt yrði hæstv. heilbr.- og trmrh. við. En nú er mér kunnugt um að ráðherrann hæstv. er í leyfi í u.þ.b. hálfan mánuð þannig að ég sá mér ekki fært annað en að þiggja það að málið væri sett á dagskrá í dag þó að ég sé afar ósátt við það að hæstv. ráðherra skuli ekki vera viðstaddur mál sem mér finnst mjög brýnt að umræða eigi sér stað um á þinginu. Út af fyrir sig er umhugsunarvert að hv. þingmenn skuli ekki vera tilbúnir til þess að taka þátt í umræðum miðað við fjarvistir en reyndar er langt liðið á vinnudaginn.

En þetta frv. sem er á þskj. 163, 161. mál, er frv. til laga um breytingar á lögum nr. 117 síðan 1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Frv. sama efnis var lagt fram á 121. löggjafarþingi en fékkst ekki afgreitt frá heilbr.- og trn. Nefndinni barst fjöldi umsagna og frumvarpið lagt fram á 122. löggjafarþingi með nokkrum breytingum sem gerðar voru með hliðsjón af ábendingum sem þar komu fram. Nú er það lagt fram í þriðja sinn óbreytt frá síðasta þingi.

Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á löggjöf um almannatryggingar að sérfræðiþjónusta fyrir börn og ungmenni utan sjúkrastofnana og skólakerfisins á sviði sálfræði og félagsráðgjafar verði að hluta greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Gert er ráð fyrir því að þiggjendur þjónustunnar greiði fyrir ákveðinn hluta hennar, t.d. fasta upphæð fyrir hvert viðtal. Hér er einungis átt við viðurkennda sérfræðiþjónustu. Gert er ráð fyrir að einungis verði greitt fyrir þjónustu réttindafólks á sviði félagsráðgjafar og sálfræði, sbr. lög nr. 40/1976 og lög nr. 95/1990. Einnig verður að gera þá kröfu að einungis verði greitt fyrir þjónustu þeirra sem hafa ákveðna lágmarksreynslu á þessu sviði og má þá m.a. horfa til reglna um veitingu sérfræðileyfa í sálfræði og setja skilyrði um framhaldsmenntun.

[17:15]

Ýmislegt bendir til þess að vaxandi þörf sé fyrir slíka sérfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni. Hún er og á að vera fastur liður í starfsemi skólanna. Börn og ungmenni sem dvelja á sjúkrastofnunum geta átt kost á sérfræðiþjónustu án þess að þurfa að greiða fyrir hana. Hins vegar skortir mikið á að nægjanlegur fjöldi sérfræðinga á sviði sálfræði- og félagsráðgjafar starfi á heilbrigðisstofnunum svo hægt sé að sinna þessari þjónustu eins og þyrfti. Við breytingu á grunnskólalögum var dregið verulega úr þessari sérfræðiþjónustu innan skólanna. Hlutverk sérfræðinga á sviði sálfræði og félagsráðgjafar við skóla er nú að mestu leyti greiningarstarf en börnum er síðan vísað annað til meðferðar og því er staðreynd að fjöldi barna og ungmenna þarf á þessari sérfræðiþjónustu að halda utan skóla og sjúkrastofnana.

Komið hafa fram ábendingar frá skólaskrifstofum víða um land um að við breytingu sem gerð var á grunnskólalögunum sé ekki lengur gert ráð fyrir að veita meðferðarþjónustu innan skólakerfisins. Með þessu er verið að færa hana út fyrir skólakerfið og kostnaðinn yfir á foreldra. Þá er einnig ljóst að á landsbyggðinni er þjónusta sálfræðinga og félagsráðgjafa ekki til staðar utan skólakerfisins eða sjúkrastofnana nema í undantekningartilvikum. Kostnaðurinn sem leggst á fjölskyldu getur því verið mjög mikill þegar við bætist ferðakostnaður. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að börnum, sem lengi hafa átt við erfiða líkamlega sjúkdóma að stríða, standi til boða sérfræðiþjónusta sem greidd verði að fullu eða að hluta úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Félagið hefur einnig bent á að ekki aðeins barnið eða unglingurinn, sem hefur átt við alvarleg veikindi að stríða, þurfi á sérfræðiþjónustu að halda heldur einnig og ekki síður fjölskylda barnsins. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna hefur ráðið sálfræðing til þess að sinna þessari þjónustu og margar fjölskyldur krabbameinsveikra barna nýta sér hana. Félagið hefur þannig reynt að bregðast við vanda þessara fjölskyldna. Til lengri tíma litið getur félagið þó ekki staðið alfarið undir þjónustunni, enda verður ekki séð að þjóðfélagið geti velt þessu verkefni yfir á félagasamtök.

Börn og ungmenni, sem hafa mátt þola hvers konar ofbeldi, þurfa oft um langan tíma á þjónustu sérfræðinga að halda, sem og þau börn og ungmenni sem hafa leiðst út í neyslu fíkniefna. Fleiri ástæður mætti að sjálfsögðu nefna, þörfin fyrir sérfræðiþjónustu við börn og ungmenni eykst stöðugt.

Í reglugerð skv. 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins skal eins og unnt er skilgreina þá sem rétt skulu eiga á þessari þjónustu. Einnig skal í reglugerðinni kveða á um hvernig staðið verði að umsóknum um hana. Þjónusta sálfræðinga og/eða félagsráðgjafa utan skóla eða heilbrigðisstofnana skal aðeins greidd af Tryggingastofnun ríkisins ef sjúklingur framvísar sérstakri umsókn heilsugæslulæknis eða sérfræðings á sviði sálfræði eða félagsráðgjafar sem starfar innan skólakerfisins.

Sveitarfélög hafa í ákveðnum tilvikum tekið þátt í kostnaði við sérfræðiþjónustu sálfræðinga og félagsráðgjafa fyrir börn og ungmenni en fá sveitarfélög veita fullkomna þjónustu að þessu leyti. Mjög margar fjölskyldur búa við svo bágan efnahag að þær geta ekki mætt kostnaðinum sem fylgir því að fjölskyldumeðlimur þurfi í lengri eða skemmri tíma að ganga til sálfræðings eða félagsráðgjafa. Við slíkt verður ekki unað, sérstaklega ekki þegar um er að ræða börn eða ungmenni, og því er þetta frumvarp flutt.

Virðulegi forseti. Fyrir tveimur árum, þegar frv. svipaðrar gerðar var fyrst lagt fram, komu fjöldamargar umsagnir um það til heilbr.- og trn. Þær voru allar jákvæðar. Alls staðar var talað um að mikil þörf væri á því að koma þessu í fastan farveg, sérstaklega hvað varðar þjónustu við börn upp að 18 ára aldri. Mönnum þótti heldur stórt skref að taka þjónustu sálfræðinga og félagsráðgjafa inn í heilbrigðiskerfið að fullu og í gegnum tryggingakerfið fyrir alla þjóðfélagsþegna. Þess í stað vildu menn einskorða fyrsta skrefið í þessa átt við meðferð barna og ungmenna.

Þrátt fyrir fjölmargar jákvæðar umsagnir og vilja flutningsmanns til að breyta frv. í þá veru sem hér er gert, í fullu samræmi við umsagnirnar, þá var meiri hluti hv. heilbr.- og trn. ekki tilbúinn til að afgreiða málið. Þar var talið að frv. fylgdi kostnaður sem legðist á samfélagið sem ekki væri gert ráð fyrir á fjárlögum. Hins vegar var vilji til að binda kostnaðinn við tilraunaverkefni þar sem um væri að ræða 40--50 millj. kr. framlag á ári á meðan við værum að meta þá þörf sem er fyrir hendi því hún er alls ekki þekkt. Innan heilbrigðiskerfisins og heilbrrn. vantar skrár um hversu mikil þörf er fyrir sálfræðiþjónustu og þjónustu félagsráðgjafa fyrir börn og ungmenni, hvað þá yfir alla þá þjóðfélagsþegna sem þurfa á þessari þjónustu að halda.

Á undanförnum vikum hafa verið sendar út ávísanir á mjög dýr verkefni, rétt eftir að fjárlög voru samþykkt. Ríkisstjórnin hefur undirritað samninga eða viljayfirlýsingar til að fara í ákveðin verkefni sem kosta ekki tugi milljóna heldur jafnvel milljarða króna, eins og til að reisa fimm menningarhús vítt og breitt um landið. Í pólitískri umræðu hef ég oft sagt að útdeiling fjármagns ríkisins sé fyrst og fremst spurning um forgangsröðun. Við höfum á undanförnum árum æðioft tekið fyrir á Alþingi vandamál barna og ungmenna, vandamál fjölskyldna þeirra barna sem hafa orðið fyrir einelti, barna sem hafa orðið fyrir ofbeldi hvers konar og þá kannski fyrst og fremst kynferðisofbeldi. Við höfum einnig fjallað um vanda þeirra barna sem ánetjast hafa fíkniefnum en sá vandi hefur vaxið verulega á undanförnum árum. Í ríkissjónvarpinu í gær eða fyrradag var sagt frá biðlistum vegna meðferðar fyrir börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi þar sem um miklu fleiri börn væri að ræða en menn höfðu áður reiknað með að þyrftu aðstoð vegna þess.

Í dag er í flestum tilvikum um ákveðna þjónustu að ræða fyrir börn í hverjum grunnskóla þar sem alvarlegustu tilvikin eru tekin og meðhöndluð innan skólakerfisins. Í öðrum tilvikum, þar sem aðeins er um greiningu að ræða, er vandanum vísað til sérfræðinga sem starfa í heilbrigðiskerfinu. Kostnaður við hvern tíma hjá sálfræðingi eða félagsráðgjafa getur numið allt að 3--4 þús. kr. Þessi sérfræðiþjónusta er sjaldnast til staðar í því magni sem hún þyrfti að vera á landsbyggðinni.

Ég verð að segja að meðan lögð er áhersla á uppbyggingu menningarhúsa sem hluta af byggðaráðstöfunum til að efla búsetu fólks vítt og breitt um landið, er ekki síður nauðsynlegt að til staðar sé öflug heilbrigðisþjónusta og þjónusta sálfræðinga og félagsráðgjafa, ekki síst fyrir börn og ungmenni. Eins og ég nefndi áðan höfum við rætt mikið um þann mikla vanda sem fylgt hefur aukinni neyslu vímuefna og því að aldur þeirra sem neyta vímuefna færist stöðugt neðar. Vandamálið er kannski stærst og mest í Reykjavík, enda er hér mesti fjöldinn. Samkvæmt skýrslum sem við höfum séð á undanförnum tveimur árum er þó vart til sá þéttbýliskjarni á landinu að ekki hafi þurft, einu sinni eða oftar, að taka á vegna neyslu vímuefna þar sem börn eða ungmenni eiga hlut að máli.

Fyrir örfáum dögum síðan var ég með fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. þar sem ég spurði spurði hvort ríkisstjórnin stefndi að því að tekinn yrði eðlilegur þáttur í ferðakostnaði foreldra sem færu að heimsækja börn og ungmenni sem væru í meðferð vegna vímuefnavanda. Þá komu þau svör frá hæstv. ráðherra, sem auðvitað var viðbúið, að þetta væri ekki heilbrigðisvandamál. Hún taldi barn sem hefur ánetjast fíkniefnum heyra undir félmrn. og barnaverndaryfirvöld. Í öðru orðinu viðurkennum við aukna vímuefnaneyslu sem heilbrigðisvandamál, dvelji menn á stofnun vegna þess telst það heilbrigðisvandamál, en um leið og barn er komið í áframhaldandi meðferð á stofnunum, sem flestar eru staðsettar úti á landi og um langvarandi meðferð að ræða þar sem oft er óskað eftir þátttöku foreldra, þá er ekki lengur um heilbrigðismál að ræða heldur félagslegt og foreldrar fá þá ekki styrk vegna ferða.

Þegar meðferð á slíku heimili lýkur, eftir mánuði eða jafnvel lengri tíma, kemur ungmennið heim. Þá er ljóst að oftar en ekki þarf það, foreldrar þess og systkini á áframhaldandi aðstoð félagsráðgjafa eða sálfræðings að halda til að vinna sig út úr þeim mikla vanda sem skapaðist á meðan unglingurinn var í neyslu. En þá kemur aftur upp þetta vandamál, þ.e. að þessi þjónusta er ekki greidd í gegnum tryggingakerfið. Þetta er mjög dýr þjónusta. Sveitarfélögin veita hugsanlega aðstoð varðandi fyrstu tíu tímana en ekki lengur. Margir foreldrar sem ég hef unnið með og eiga börn í fíkniefnaneyslu hafa sagt mér að þetta hafi hreinlega orðið fjölskyldunni ofviða ásamt ýmsum öðrum kostnaði sem fylgir því að eiga barn sem á við svo alvarleg veikindi að stríða.

Hið sama gildir um börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi eða einelti. Þau þurfa oftar en ekki langtímameðferð, ekki tíu eða tuttugu tíma, heldur eins til tveggja ára meðferð og jafnframt foreldrar og systkini. Meðferðinni hefur gjarnan verið hætt þegar mönnum er vísað frá þeim stofnunum sem bjóða þjónustu án gjaldtöku og hefur það komið í veg fyrir að fullur bati náist. Þetta á ekki síst við þau börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Þar tekur meðferð tvö eða þrjú ár og jafnvel lengri tíma.

Það er með ólíkindum, miðað við hina miklu umræðu á undanförnum árum, um þessi vandamál sem snerta börn og ungmenni, okkur öll og framtíð þessara einstaklinga, hvort þeim tekst að komast út í þjóðfélagið aftur, stunda eðlilega vinnu og öðlast eðlilegt heimilis- og fjölskyldulíf seinna á ævinni, að skulum við enn vera í þeim sporum að stórir þættir í meðferð og uppbyggingu þeirra sem orðið hafa fyrir jafnhrikalegri lífsreynslu skuli vera í þeim lamasessi sem raun ber vitni.

Ég hef stundum minnst á að eitt sveitarfélag hafi haft sérstöðu að þessu leyti og ég býst við að svo sé enn, þ.e. hafi verið með starfandi félagsráðgjafa og sálfræðing sem tóku á móti börnunum án þess að þeim væri vísað þangað. Þau gátu sjálf leitað sér aðstoðar með því að koma á skrifstofu viðkomandi sveitarfélags og óska eftir viðtali. Á Sauðárkróki voru starfandi, alla vega um tíma, bæði félagsráðgjafi og sálfræðingur. Börn og unglingar gátu komið þar inn án tilvísunar, jafnvel án þess að foreldrar hefðu frumkvæðið, og leitað sér aðstoðar. Ég er sannfærð um það, eftir þau samtöl sem ég átti við starfsmenn þessa sveitarfélags, að þarna náðist verulegur árangur. Þar var jafnvel hægt að taka á vandamáli strax í upphafi og koma þá í veg fyrir að það yrði eins alvarlegt og oft vill verða í þessum tilvikum, hvort sem um er að ræða einelti, ofbeldi eða vímuefnaneyslu.

Hér áðan voru hv. flutningsmenn tillögu sem verið var að mæla fyrir, um markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis, svo heppnir að hv. formaður nefndarinnar sem fjallar um markaðsátakið var staddur í salnum. Sá hét því að þó stuttur tími væri til þingloka mundi hann beita sér fyrir skjótri afgreiðslu þess máls. Markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis er vissulega verðugt verkefni og þess virði að ræða það hér. Hins vegar, virðulegi forseti, tel ég ekki síður mikils virði að taka á málefnum sem snerta börn okkar, mál sem geta varðað framtíð þeirra og átt stóran þátt í að hjálpa þeim sem í dag eiga um sárt að binda til að komast aftur á réttan kjöl og takast á við lífið. Þess vegna, virðulegi forseti, hef ég í þriðja sinn lagt fram frv. um breytingar á lögum um almannatryggingar. Með þeim breytingum yrði sérfræðiþjónusta við börn og unglinga, 18 ára og yngri, á sviði sálfræði og félagsráðgjafar sem veitt er utan sjúkrastofnana og skólakerfis greidd af sjúkratryggingum samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra mundi setja að fengnum tillögum tryggingaráðs.

Ég óska þess, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. sent til hv. heilbr.- og trn. og 2. umr.