Félagsleg aðstoð

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 17:30:52 (3401)

1999-02-09 17:30:52# 123. lþ. 61.16 fundur 162. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[17:30]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, er á vissan hátt tengt því frv. sem ég mælti fyrir áðan og er eins og það mál búið að liggja inni á hv. þingi frá því á haustdögum. Þar er einnig fjallað um aðbúnað eða kjör sem foreldrum og fjölskyldum ungra fíkniefnaneytenda er boðið upp á. Það segir í greinargerð með frv., með leyfi forseta:

,,Á undanförnum árum hefur neysla ólöglegra fíkniefna aukist stöðugt og fjöldi einstaklinga ánetjast eiturlyfjum, bæði börn og fullorðnir. Þörfin fyrir meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur er mikil. Meðferðarúrræðum hefur vissulega fjölgað en þau fullnægja þó hvergi nærri þörfinni. Sérstaklega á þetta við hvað varðar meðferðarheimili fyrir börn og ungmenni. Foreldrar ungra fíkniefnaneytenda sem starfa í foreldrasamtökum Vímulausrar æsku hafa ítrekað bent á þá nauðsyn sem er fyrir aukna og fjölbreyttari meðferð fyrir börn og ungmenni. Ekki er aðeins um að ræða að fjölga þurfi meðferðarheimilum heldur, og ekki síður, er nauðsyn á möguleikum á langvarandi meðferð fyrir þessa ungu einstaklinga og stuðningsfjölskyldu þeirra. Þátttaka foreldra í meðferð barns eða unglings er nauðsynleg. Neysla fíkniefna hefur oftar en ekki staðið yfir í langan tíma áður en til meðferðar kemur. Oft líður nokkur tími þar til vandamálið verður ljóst og síðan getur biðtími orðið langur þar til pláss fæst á meðferðarheimili. Í mörgum tilvikum er sá tími sem ætlaður er til meðferðar hjá fagfólki á meðferðarheimilum of stuttur og foreldrar þurfa að fylgja meðferðinni eftir, halda henni áfram eftir að ungi sjúklingurinn kemur heim. Því er ljóst að mikið álag hvílir á foreldrum ungra fíkniefnaneytenda sem þurfa á stöðugri umönnun og eftirfylgni að halda ef takast á að sigrast á sjúkdómnum og aðstoða börnin og ungmennin við að komast á rétta braut á lífinu. Langt er síðan áfengissýki og eiturlyfjafíkn urðu viðurkennd sem sjúkdómur og nú er varið töluverðum fjármunum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna til þeirra stofnana sem veita meðferð við þeim sjúkdómi. Mikið vantar þó á að nægjanlega vel sé að verki staðið, sérstaklega hvað varðar úrræði fyrir yngstu sjúklingana. Því þarf oft að annast þá í heimahúsi um lengri eða skemmri tíma. Heimilt er samkvæmt lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, að greiða bætur til foreldra barna sem þurfa mikla umönnun vegna veikinda eða fötlunar. Ekki er um háar greiðslur að ræða en þó viðurkenningu á því að þessir foreldrar hafa mjög takmarkaða möguleika á því að stunda vinnu utan heimilis og tekjumöguleikar skerðast samfara því að útgjöld aukast vegna veikinda barnsins.

Með frumvarpi þessu er lagt til að foreldrar eða framfærendur þeirra barna að 18 ára aldri sem ánetjast hafa neyslu vímuefna eigi rétt á umönnunargreiðslum vegna veikinda barna sinna. Með því er verið að bæta möguleika þessara foreldra til þess að aðstoða börn sín við að vinna bug á þessum alvarlega sjúkdómi.``

Lagt er til að ráðherra setji í reglugerð nánari útfærslu á framkvæmd þessa ákvæðis.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á áðan beindi ég þeirri fsp. til hæstv. ráðherra fyrir nokkrum dögum hvort ríkið eða hæstv. ráðherra væri tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að þeir foreldrar ungra fíkniefnaneytenda, sem væru í meðferð á heimili langt frá heimabyggð sinni, sem tækju þátt í meðferð barnsins fengju greiðslu ferðastyrks. Hæstv. ráðherra tók ekki undir það að öðru leyti en því að hún sagði að þessar reglur væru í endurskoðun en þarna væri ekki um heilbrigðisvandamál að ræða heldur félagslegt vandamál.

Hér er um að ræða frv. til laga sem gerir ráð fyrir því að foreldrar ungra fíkniefnaneytenda eigi rétt á svokölluðum umönnunargreiðslum ef foreldri eða framfærandi barns stundar umönnun barns í heimahúsi. Eins og fram kemur í greinargerðinni er það mjög oft þannig að foreldrar sem verða fyrir því að barn þeirra fer að neyta fíkniefna þurfa mjög oft, og oftar en ekki, að hætta í vinnu og dvelja heima með barnið sitt í langan tíma áður en það fær pláss á meðferðarstofnun. Biðlistar hafa að undanförnu verið að lengjast verulega á meðferðarstofnunum fyrir börn og ungmenni og þetta vandamál er sýnu alvarlegra þar sem ekki er gert ráð fyrir uppbyggingu meðferðarheimila fyrir börn á aldrinum 16--18 ára. Þar er þörfin hvað mest. Á meðan barn fær hvergi inni á meðferðarheimili eða hjúkrunarstofnun til þess að fást við veikindi sín hlúa foreldrar að barninu í heimahúsi.

Það er einnig þannig, eins og við þekkjum, að þeir foreldrar sem eiga börn í vímuefnaneyslu vita oft ekki langtímum saman hvar barnið er statt, hvort það er á götunni eða hvað hefur orðið um það og foreldrar bíða heima milli vonar og ótta og verður ekki svefnsamt. Þetta hefur áhrif á alla fjölskylduna meira og minna, hvort sem um er að ræða foreldra eða systkini, þegar unglingur eða barn ánetjast fíkniefnum.

Það líf sem þessar fjölskyldur búa við er með öllu ólýsanlegt. Ekki er hægt, virðulegi forseti, að gera í ræðustól á Alþingi grein fyrir þeim erfiðleikum og álagi sem fjölskyldur þessara einstaklinga eiga við að etja á meðan á neyslunni stendur, en jafnvel ekki síður eftir að meðferð lýkur, meðan á meðferð stendur og þegar meðferð lýkur og einstaklingurinn kemur heim og það þarf að fara að byggja upp. Ekki bara einstaklinginn sem var í neyslu heldur alla fjölskylduna.

En þó svo að við segjum gjarnan á hátíðlegum stundum að við höfum fyrir nokkuð löngu viðurkennt áfengis- og vímuefnaneyslu sem heilbrigðisvandamál og veikindi er það í tilviki eins og því sem ég nefndi áðan í orði en ekki á borði. Þeir foreldar, sem verða að dveljast langtímum á heimili sínu án vinnu vegna þess að þeir þurfa að hugsa um fársjúkan einstakling, eiga ekki rétt á greiðslu umönnunarbóta eins og foreldrar eða framfærendur barna sem eiga við önnur alvarleg, langvarandi veikindi að stríða.

Ég tel þetta mikið réttindamál og nauðsynlega breytingu sem getur auðveldað foreldrum og aðstandendum ungra barna, unglinga og ungmenna sem ánetjast fíkniefnum, eiga við alvarleg fíkniefnavandamál að stríða, að fást við þetta vandamál, ekki bara með einstaklingnum heldur öðrum fjölskyldumeðlimum. Það kom mér satt að segja á óvart þegar ég uppgötvaði að um þessa fyrirgreiðslu væri ekki að ræða til foreldra ungra fíkniefnaneytenda frekar en aðra fyrirgreiðslu sem ég hef nefnt og tekið upp á undanförnum dögum.

Virðulegi forseti. Ég reikna með því að þessu frv. eigi að vísa til félmn. þar sem um lög um félagslega aðstoð er að ræða en ég óska jafnframt eftir því að þessi tvö frumvörp, annars vegar breytingar á lögum um almannatryggingar og hins vegar breytingar á lögum um félagslega aðstoð, verði engu að síður tekin og skoðuð saman. Þarna er í báðum tilvikum um réttindamál að ræða fyrir ungmenni sem eiga við alvarleg og langvarandi veikindi að stríða. Í þessum tilvikum eru það veikindi sem teljast e.t.v. ekki líkamleg heldur fyrst og fremst andleg en eru engu að síður jafnalvarleg og geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir þá einstaklinga sem hlut eiga að máli og fjölskyldur þeirra. Ég óska eftir því, virðulegur forseti, að málin verði skoðuð í samhengi.