Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 18:01:33 (3404)

1999-02-09 18:01:33# 123. lþ. 61.18 fundur 252. mál: #A happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna# (peningavinningar) frv., 253. mál: #A vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga# (peningavinningar) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[18:01]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Þau tvö frumvörp sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson mælti fyrir lúta að miklu sanngirnismáli að mínum dómi. Það er sanngirnismál að þeir sem á annað borð hafa leyfi til að reka happdrætti á Íslandi sitji við sama borð. Það er einu sinni svo að þessi tvö happdrætti ein þurfa að búa við það að greiða vinninga sína í vöruúttektum og það sjá auðvitað allir að þau sitja ekki við sama borð og þau happdrætti sem geta greitt vinningana í peningum. Fólk vill fá vinninga sína í beinhörðum peningum, ég tala ekki um ef það eru stórir vinningar. Það er óþægilegt fyrir fólk að þurfa að vera að koma stórum vinningum í vörukaup og þetta hefur valdið þessum happdrættum verulegum óþægindum. Það sést á veltu þessara tveggja happdrætta annars vegar og svo Háskólahappdrættisins og allra lotteríanna hins vegar, að þessi tvö happdrætti eru algjörlega út undan í sölunni.

Ég er með í höndunum svar dómsmrh. við fyrirspurn sem ég lagði fyrir hann um heildarsölu happdrættanna á árunum 1995 og 1996. Sjálfsagt hafa þessar tölur eitthvað breyst síðan en þetta svar segir þó allt sem segja þarf um þær stærðir sem um er að ræða. Þar kemur fram að þessi tvö vöruhappdrætti, þ.e. SÍBS og DAS, hafa haft í heildarveltu tæpan hálfan milljarð. Vöruhappdrætti SÍBS seldi á því ári fyrir 225 milljónir og skilaði 32 milljónum í hagnað. Happdrætti DAS seldi fyrir 210 milljónir og skilaði 24 milljónum í hagnað. Samtals eru þetta um 450 milljónir í veltu. Ef við kíkjum svo á þau happdrætti sem máttu greiða vinninga sína í peningum sjáum við að heildarsala Happdrættis Háskóla Íslands var einn milljarður 810 þús. kr., og þar var hagnaður um 320 milljónir. Íslenskar getraunir seldu fyrir 417 milljónir og skiluðu 6 milljónum í hagnað. Íslensk getspá seldi fyrir einn milljarð 162 þús. kr. og skilaði 357 milljónum í hagnað. Af þessu sést að þessi peningahappdrætti og getraunir hafa velt um 4,5 milljörðum á þessu ári, en vöruhappdrættin innan við hálfum milljarði. Við þetta bætist svo að söfnunarkassarnir hafa verið með gríðarlega veltu. Mér sýnist á þessu svari að kassarnir hafi velt milli 9 og 10 milljörðum. Að vísu fóru 90% af því í vinninga en það sem kom inn eftir að vinningar höfðu verið greiddir út voru 993 milljónir kr. Kassarnir skiluðu 640 milljónum í tekjur.

Það er því augljóst að fólk tekur frekar þátt í þeim happdrættum þar sem hægt er að fá vinningana í beinhörðum peningum. Mér finnst alveg út í hött að þessi tvö happdrætti skuli þurfa að búa við þessi gömlu lög um að þurfa að greiða vinninga sína út með öðrum hætti. Og náttúrlega ekki síst vegna þess að þessi happdrætti eru bæði rekin til merkra mannúðarmála, annars vegar DAS með sína öflugu starfsemi í áratugi fyrir aldraða og þá ekki síður SÍBS, sem hefur um áratuga skeið haldið uppi starfsemi fyrir fólk sem á við veikindi að stríða, starfsemi sem er til mikillar fyrirmyndar og við eigum auðvitað að reyna að styðja við á allan mögulegan hátt. Það er til fyrirmyndar þegar slík samtök reka jafnöfluga starfsemi upp á eigin spýtur og happdrættið gerir það að verkum að samfélagið þarf ekki að leggja í þetta eins mikið og ella þyrfti. Þess vegna held ég að við eigum að greiða fyrir því að þessi ágætu happdrætti sitji við sama borð og aðrir. Ég trúi því að þegar þetta mál kemur til efh.- og viðskn. muni það fá þar greiða framgöngu og ég vona að það geti orðið að lögum fyrir þinglok. Að vísu er stutt til stefnu en mér sýnist þetta vera það augljóst mál að það eigi ekki að þurfa langa meðferð í nefnd.

Það kemur fram í greinargerðinni að óheimilt sé án sérstakrar lagaheimildar að setja á stofn peningahappdrætti eða önnur þvílík happaspil --- þetta eru lög sem eru orðin yfir 70 ára gömul --- og það þurfi sérstaka lagasetningu ef menn ætla að reka slík happdrætti. Út á það ganga þessi ágætu frumvörp og ég er þeim mjög meðmæltur og vona að þau fái góðan og skjótan framgang.