Útboð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 13:45:08 (3412)

1999-02-10 13:45:08# 123. lþ. 63.1 fundur 313. mál: #A útboð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[13:45]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Á árinu 1997 fór fram vinna þar sem leitast var við að endurskoða ýmsa þætti í rekstri og fjárhag Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Niðurstaða þeirrar vinnu var að bjóða út ýmsa rekstrarþætti flugstöðvarinnar í því skyni að auka tekjumöguleika hennar og tryggja fjárhagslegan grundvöll stöðvarinnar.

Skemmst er frá því að segja að þetta heppnaðist ákaflega vel gagnstætt hrakspám, svo sem úr þessum ræðustóli, ýmissa þingmanna, m.a. þingmanna Alþfl. Gagnstætt þessum hrakspám fjölgaði störfum, í kjölfar þessa útboðs og vegna breytts rekstrarfyrirkomulags, í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og jafnframt batnaði tekjugrundvöllur stöðvarinnar. Þannig kemur fram í svari hæstv. utanrrh. við tveimur fyrirspurnum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og Hjálmars Árnasonar að bæði hafi tekjur aukist verulega, um 245 milljónir kr. á fyrstu níu mánuðum ársins 1998 eða 70% milli ára, og störfum í flugstöðinni fjölgað um 108.

Með öðrum orðum er augljóst að þetta hefur tekist afskaplega vel og breytingin á rekstrarfyrirkomulaginu hefur leitt til þess að starfsemin hefur aukist og vaxið. Í sjálfu sér þarf engum að koma það á óvart. Viðskiptum og verslun er einfaldlega betur komið fyrir í höndum einstaklinga en ríkisins. Því er eðlilegt að svo sé á þessu sviði eins og á öðrum sviðum þjóðfélagsins.

Þegar þessi ákvörðun var tekin var hins vegar einnig ákveðið að undanskilja tiltekna þætti innan flugstöðvarinnar frá því að vera boðnir út. Þar á meðal er bankastarfsemi, sem Landsbankinn sér um í flugstöðinni. Enn fremur gilti það um annað, t.d. um starfsemi Fríhafnarinnar sem áfram er í höndum ríkisins. Í vinnunni sem fram fór á árinu 1997 var hins vegar hvatt mjög til að lengra yrði gengið í þessum efnum. Í ljósi hinnar góðu reynslu af einkavæðingu starfseminnar er ekki óeðlilegt að spurningar vakni um hvort ekki sé eðlilegt að ganga lengra í að nýta kosti einkarekstursins, til þess að tryggja betur starfsemi flugstöðvarinnar, fjölga störfum í landinu og bæta rekstrarlegan og fjárhagslegan grundvöll flugstöðvarinnar.

Á sínum tíma var m.a. ákveðið að bjóða ekki út bankastarfsemina á þeim grundvelli, eins og þá kom fram í viðtali við forsvarsmenn flugstöðvarinnar í Morgunblaðinu, að í gildi væru leigusamningar við Landsbankann sem rynnu út um áramótin 1997/1998. Þess vegna var ekki talið tilefni til þess að bjóða þetta út. Nú eru aðstæðurnar aðrar og þess vegna hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að leggja eftirfarandi fsp. til hæstv. utanrrh. á þskj. 378:

,,Er ætlunin að bjóða út fleiri hluta starfseminnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, svo sem bankaþjónustu og rekstrarþætti Fríhafnarinnar, í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af breytingum á rekstri verslunar og þjónustu í flugstöðinni?``