Peking-áætlunin

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:07:14 (3423)

1999-02-10 14:07:14# 123. lþ. 63.2 fundur 450. mál: #A Peking-áætlunin# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:07]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Íslensk stjórnvöld samþykktu fyrir sitt leyti eins og fram hefur komið framkvæmdaáætlun ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna frá Peking um málefni kvenna. En Peking-áætlunin hefur ekki stöðu alþjóðasáttmála eða samnings heldur hefur hún stöðu yfirlýsingar. Með samþykkt hennar lítur ríkisstjórnin svo á að hún hafi einsett sér að framfylgja áætluninni. Á það hefur verið lögð áhersla allt frá samþykkt áætlunarinnar.

Margt er að finna í þessari áætlun sem getur komið að gagni í jafnréttis- og kvenfrelsisbaráttu um allan heim. Leiðarljósið er að sjónarmið jafnréttis verði fléttað inn í alla þætti stefnumörkunar, ákvarðana og aðgerða og rík áhersla er lögð á að konur fái notið mannréttinda í hvívetna sem fullgildir samfélagsþegar. Bent er á það að jafnrétti verði ekki náð með stjórnvaldsaðgerðum einum saman en þó séu líkur á því að slíkar aðgerðir séu nauðsynleg forsenda fyrir jöfnum rétti og jafnri stöðu kynjanna. Nauðsynlegt er að allir leggist á eitt til þess að jafnrétti geti orðið að veruleika.

Sett eru markmið í áætluninni og verkefni skilgreind og lagðar til aðgerðir til úrbóta. Í hverju tilviki eru tilgreindir þeir aðilar sem að aðgerðunum þurfi að koma.

Félmrn. hefur talið það eitt mikilvægasta verkefni sitt að kynna framkvæmdaáætlunina sem flestum. Efnt var til samstarfs á milli allra ráðuneyta og Jafnréttisráðs að velja þær greinar út áætluninni sem helst áttu við hér á landi. Nefnd ráðuneytanna kallaði síðan eftir aðstoð hagsmunasamtaka sem höfðu látið sig varða undirbúning Peking-ráðstefnunnar um val á greinum í íslensku útgáfuna og felldi inn í hana allar greinar áætlunarinnar sem óskað var eftir af þessum áætlunum.

Eins og sást hjá hv. fyrirspyrjanda gáfum við áætlunina út í þessu formi, í 2.000 einstökum og dreifðum henni. Einungis eru eftir innan við 50 eintök í ráðuneytinu svo að hún hefur farið töluvert víða og við reynum að flétta hana inn í annað sem við erum að gera eins og í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Hún tekur mið af mörgum þeim atriðum sem þarna er getið um. Eins er frv. til jafnréttislaga sem er vonandi að koma á borð þingmanna markað af þessum hugsanagangi.

Þrátt fyrir allar hrakspár fjölmiðla um ráðstefnuna að hún mundi ekki skila konum neinu og það væri því ekki ráð að íslensk stjórnvöld væru að leggja fé og mannafla til að tala þar sínu máli hafa þær kenningar afsannast þó vissulega sé ekki búið að framfylgja áætluninni í hvívetna enda er þetta langtímaverkefni. Íslensk stjórnvöld höfðu nefnilega ásamt stjórnvöldum annars staðar á Norðurlöndum mjög mikil áhrif á endanlega stöðu ráðstefnunnar. E.t.v. Ísland og Noregur mest því að aðrar Norðurlandaþjóðir voru bundnar af samstarfi sínu innan Evrópubandalagsins og höfðu þau ekki frjálsar hendur eins og við Íslendingar og Norðmenn. Þessi áætlun kemur íslenskum konum og íslensku samfélagi auðsjáanlega vel að notum og sú hugsun sem liggur á bak við áætlunina og þau atriði sem þar eru tilgreind.

Ég vænti þess að sú hugsun sem þar er sett fram eigi eftir að marka störf okkar í framtíðinni.