Peking-áætlunin

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:12:18 (3424)

1999-02-10 14:12:18# 123. lþ. 63.2 fundur 450. mál: #A Peking-áætlunin# fsp. (til munnl.) frá félmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:12]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. félmrh. fyrir svörin. Það er einu sinni þannig að það þarf verulegan stuðning frá stjórnvöldum til þess að eitthvað gerist í þessum málum. Því miður verð ég að segja að það hefur ekki verið reyndin í þessu máli. Ég vil sérstaklega nefna í því sambandi framhald af kvennaráðstefnu í Valmiera þar sem tilfinnanlega skorti á fjármuni til þess að geta fylgt þeim tengslum eftir. Í framhaldi af því hefur hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og ég flutt tillögu um stuðning við kvennahreyfinguna til frjálsra félagasamtaka til þess að vinna að samstarfsverkefnum á þessu sviði.

Það er einkum eitt atriði í svari hæstv. ráðherra sem ég vil gera að umræðuefni. Það er að samningurinn um Peking-áætlunina hafi stöðu yfirlýsingar en ekki þjóðréttarsamnings. Í því sambandi vil ég geta þess að ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum þegar ég var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og fann fyrir því að þar sem var verið að vinna að framkvæmd áætlunarinnar voru Íslendingar ekki einu sinni með í þeirri nefnd. Ég get því ekki séð að íslensk stjórnvöld hafi unnið að því, þar sem þau hafa möguleika eins og hjá Sameinuðu þjóðunum, að koma áætluninni í framkvæmd.