Peking-áætlunin

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:13:54 (3425)

1999-02-10 14:13:54# 123. lþ. 63.2 fundur 450. mál: #A Peking-áætlunin# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:13]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu er mikilvægt að Íslendingar komi að þessum málum þar sem þeir geta og styðji ekki síst fátækar þjóðir til þess að koma framkvæmdaáætluninni í gagnið. Það skiptir ekki síður máli og kannski mestu máli að við fylgjum henni eftir því að fordæmin sem til eru í heiminum, þau ríki sem ganga á undan með góðu fordæmi og sýna hvað er hægt, skipta mjög miklu máli. Við þekkjum það vel frá Norðurlöndunum hvað þau eru og hafa verið mikils virði sem fordæmi, t.d. hvað varðar velferðarkerfið.

Ég skildi svar hæstv. félmrh. þannig að fyrst og fremst hefði verið unnið að kynningu á framkvæmdaáætluninni. En það er þannig vaxið að það þurfa miklu fleiri en félmrn. eitt að koma að því að hrinda áætluninni í framkvæmd. Þar þurfa öll ráðuneytin að koma að, fjölmiðlar, félagasamtök og fleiri að fylgja þessari áætlun eftir svo ég minnist ekki á vinnumarkaðinn því að það er margt sem að honum snýr.

Ég vil sérstaklega nefna það og finnst ástæða til að við ræðum það nánar þegar frv. til jafnréttislaga kemur til umræðu en það er hlutverk íslenskra fjölmiðla. Mér finnst að menn séu ofur viðkvæmir fyrir því að gagnrýna fjölmiðla og gera til þeirra kröfur. Það er kafli um þá í þessari framkvæmdaráætlun en eftir því sem ég best fæ séð er ekkert vikið að þeim í frv. til jafnréttislaga. Ég ætla ekki að fara að ræða það hér en vil taka undir það sem kom fram hjá hæstv. félmrh. að því miður er rödd Norðurlandanna orðin miklu veikari í þessum málum sem ýmsum öðrum. Mér fannst sjálfri nöturlegt í Kína að upplifa að rödd Svíþjóðar hafði þagnað, rödd sem hefur verið ákaflega sterk í jafnréttisumræðunni, þar talaði bara Evrópusambandið. En sem betur fer tóku Norðmenn og Íslendingar þar hlutverk sitt mjög alvarlega að tala fyrir hönd hins norræna módels ef svo má segja.