Laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:22:42 (3428)

1999-02-10 14:22:42# 123. lþ. 63.3 fundur 467. mál: #A laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:22]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það hvort laun grunnskólakennara séu of há, of lág eða mátuleg. Ég veit hins vegar að gengið er út frá því í samningum ríkis og sveitarfélaga að launapakki sveitarfélaganna sem ríkið viðurkennir er 7,8 milljarðar. Ef við gerum ráð fyrir því að um 20% af honum fari í launatengd gjöld og annað og grunnskólakennararnir og skólastjórnendur í landinu séu 3.300, þá er þetta um 2 millj. á haus ef jafnt væri skipt. Ég tek það fram að inni í þessari tölu eru líklega einir 200 eða hátt í 200 grunnskólastjórar. Þessi meðaltalstala eru ekki kennaralaun eingöngu. Þetta gerir þá 163 þús. kr. að meðaltali á haus. Fyrir utan þetta kemur staðaruppbót og sérkjarasamningar í einstökum sveitarfélögum.

Ég vakti athygli á því að launabreytingar hjá grunnskólakennurum hafa verið allt aðrar en á almennum markaði. Grunnskólakennararnir segjast hafa verið sveltir hjá ríkinu. Ég athugaði það líka hver launaþróun þeirra hefði verið miðað við aðra opinbera starfsmenn allt frá 1990. Frá 1990 og fram til yfirfærslunnar 1. ágúst 1996 hækkuðu laun grunnskólakennara 1% minna en var að meðaltali hjá opinberum starfsmönnum. En vel að merkja, þeir höfðu í farteskinu umsamda launahækkun frá verkfallinu 1995 sem ekki var komið til framkvæmda þá.

Frá yfirfærslunni og til næstu áramóta munu grunnskólakennarar hækka samkvæmt almennum kjarasamningi um 33%. Á meðan hækkar ASÍ um 19%, leikskólakennarar um 27%. Þetta eru allt saman frjálsir samningar og ekki er ástæða til að gagnrýna þá. En hitt finnst mér gagnrýni vert þegar gerðir samningar eru ekki haldnir. Í sumum sveitarfélögum hafa kennarar beitt hópuppsögnum til knýja fram meiri hækkanir en samið hafði verið um og það var það sem ég var að gagnrýna. Þannig hafa kennarar í mörgum sveitarfélögum fengið 10% eða þar yfir til viðbótar við 33% sem um var samið. Grunnskólakennarar eru svo sem ekkert einir um þessar vinnuaðferðir, sem ég tel vera mjög ámælisverðar því gerða samninga eiga menn að halda og það veit ég að hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, formaður hins heiðarlega græna vinstra framboðs, er mér sammála um.

Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur eru hópuppsagnir til að knýja fram kjarabreytingar á samningstíma óheimilar. Í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna eru ekki jafnafdráttarlaus ákvæði um hópuppsagnir. Þau lög heyra undir hæstv. fjmrh. og fyrirspyrjandi ætti að beina spurningu til hans um breytingar á þeim lögum. Ég hef ekki forustu um það.

Samkvæmt beiðni kennaranna var samið á einu bretti við grunnskólakennara af launanefnd sveitarfélaga. Það var ósk kennarasamtakanna að svo yrði gert og þeir samningar tókust og voru samþykktir af báðum aðilum. Ég tel að þessi samstaða hafi riðlast núna og sum sveitarfélög hafi verið knúið til yfirborgana sem sum þeirra ráða við en önnur ekki.