Laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:29:58 (3431)

1999-02-10 14:29:58# 123. lþ. 63.3 fundur 467. mál: #A laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:29]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta er umræða sem við ættum að taka öðruvísi á en í andateppustíl. Vegna orða ráðherrans ætla ég að leyfa mér að segja að það vita allir hvers vegna það gerist að heilar starfsstéttir segja upp, hvort heldur er í skólunum eða á sjúkrahúsunum eða í erfiðum umönnunarstörfum. Launamálin og ekki síst launamál kvenna eru stærstu verkefni sem við blasa núna og það eru þau mál sem helst er lögð áhersla á þegar stjórnmálamenn fara um sveitir og ræða við fólk almennt um stöðuna í landinu.

Það er alvarlegt að hlusta á þessar setningar sem málshefjandi hafði eftir ráðherranum, að bíta á jaxlinn gagnvart kröfum, vegna þess að mjög erfitt er að manna skólana með réttindafólki og það er líka afskaplega erfitt að manna leikskólana með réttindafólki og er alvarleg staða uppi þar. Á sama tíma segja allir flokkar og hv. Alþingi Íslendinga að menntamál eigi að hafa forgang og höfuðáhersla eigi að vera á menntaða kennara til að mennta börnin okkar.