Laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:32:42 (3433)

1999-02-10 14:32:42# 123. lþ. 63.3 fundur 467. mál: #A laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:32]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn sem sannarlega er þörf á að ræða í kjölfar umræðu utan dagskrár um daginn um fjármál sveitarfélaga. Því miður gat ég ekki tekið þátt í þeirri umræðu en hef lesið hana og kynnt mér m.a. ummæli hæstv. félmrh. í umræddum Deigluþætti.

Það er alveg ljóst fyrir mér og held ég fyrir flestum landsmönnum að sveitarfélögin þurfa meira fé til að hækka laun kennara hvort sem það verður gert með viðurkenningu á því að koma þurfi viðbótarfé frá ríki í kjölfar yfirfærslu grunnskólans eða með því að auka möguleika sveitarfélaga til aukinna tekna. Ég fagna því að flutningur grunnskólans til sveitarfélaga hefur opnað nýja möguleika fyrir kennara í kjarabaráttu sinni. Það er eðlilega samkeppni á milli sveitarfélaga um kennara og ég held að þetta hafi vakið foreldra og alla landsmenn til umhugsunar um hvílík undirstaða það er að hvert sveitarfélag hafi góða kennara. Ég er mjög ánægð með að samningar eru hjá sveitarfélögunum. Þar eru mikil sóknarfæri og nauðsynleg fyrir kennara í þeirri stöðu sem mál þeirra eru nú vegna þess að yfirvinnumöguleikar eru mun minni.

Ég segi eins og fleiri hér, menntamál eru undirstaðan og þar eru laun og góð grunnmenntun algert grundvallaratriði.