Laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:37:18 (3436)

1999-02-10 14:37:18# 123. lþ. 63.3 fundur 467. mál: #A laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:37]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það er nú ekki ónýtt fyrir ráðherrann í Framsfl. að vera búinn að fá þennan fótgönguliða frá Vestfjörðum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en ég verð að segja að mér fundust þau rýr í roðinu. Hæstv. ráðherra fjallaði um launapakka sveitarfélaganna eða til grunnskólakennslunnar brúttó og deildi svo í með höfðatölunni og verð ég að segja, herra forseti, að það eru ekki beinlínis nákvæmnisvísindi. Ég held að hæstv. ráðherra verði að reyna að gera betur ef hann ætlar að láta taka mark á sér.

Auðvitað eru laun almenns verkafólks á Íslandi óþolandi lág og það er til skammar hversu seint hefur gengið í þessu ríka þjóðfélagi að lyfta þeim. En það breytir ekki hinu að það þekkja allir þær aðstæður sem verið hafa í skólahaldi í landinu, flótta kennara úr greininni og ómannaðar stöður í tugum og hundruðum talið út um allt land. Það er ekki hægt að fjalla um þessa hluti eins og menn hafi verið á tunglinu og viti ekkert af þessum aðstæðum. Menn hljóta að þurfa að skoða kjarabaráttu grunnskólakennara í þessu ljósi. Annað er ekki raunhæft. Hún er náttúrlega nátengd baráttu fjölmargra umönnunar- og uppeldisstétta sem á undanförnum missirum og árum hafa reynt að bæta kjör sín þar sem flótti hefur verið úr viðkomandi greinum, stöður hafa verið ómannaðar o.s.frv. Menn verða að horfa á það eins og það er að kennarar verða ekki neyddir til starfa. Þeir hafa þann rétt að segja upp störfum sínum og hverfa til annarra og þeir gera það örugglega ekki að gamni sínu að fara í önnur störf en þau sem þeir hafa menntað sig til. Höfum það í hyggju.

Það liggur líka fyrir að miklar væntingar voru byggðar inn í flutning grunnskólans til sveitarfélaganna um bætt kjör kennara og efasemdarmenn um þann flutning voru barðir niður með því að þetta væri aðferð til þess að bæta kjör kennara.

Hæstv. ráðherra svaraði engu spurningu minni um hvað varðar stöðu sveitarfélaganna og samningsréttinn og það sem mátti skilja í máli hans að væri skortur á siðferðisþreki hjá sveitarfélögunum til að standa af sér þrýsting. Ég vona að hæstv. ráðherra svari því þá í seinni umferð.

Niðurstaðan er sú, herra forseti, að hæstv. ráðherrar tala í kross, skamma sveitarfélögin fyrir ábyrgðarleysi í fjármálum og fyrir að láta undan kröfum kennara í öðru orðinu en benda svo á að þau fullnýta ekki tekjustofna sína í hinu. Hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. hafa talað algerlega út og suður. Mér finnst, herra forseti, að hæstv. ráðherrar og forsvarsmenn ríkisstjórnar eigi ekki að komast upp með það að gera út með þessum hætti á hlutina eins og ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa gert og ég minni þar á ræðuhöld bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. á ráðstefnu sveitarfélaganna um fjármál, í nefndum sjónvarpsþáttum og hér í umræðum á Alþingi og svo skæting hæstv. forsrh. í garð sömu aðila.