Aðstaða fyrir ferðafólk í skóglendum ríkisins

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:43:32 (3438)

1999-02-10 14:43:32# 123. lþ. 63.4 fundur 461. mál: #A aðstaða fyrir ferðafólk í skóglendum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:43]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkru fékk ég í hendur bréf þar sem fjallað er um stefnu og markmið Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal. Bréf þetta er dagsett á Egilsstöðum 16. nóvember 1998 og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Markmið Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal sem annars staðar eru:

að vernda það skóglendi sem fyrir er,

að auka umfang skóglendis með nytjaskógrækt í ýmsum tilgangi, svo sem til uppgræðslu og jarðvegsverndar, til viðarframleiðslu og til bindingar koltvísýrings,

að hirða um skóginn til að hann gefi af sér verðmætar afurðir,

að auðvelda almenningi aðgang að skóglendum, m.a. með því að skapa aðstöðu fyrir ferðafólk,

að stunda skógræktarrannsóknir.``

Síðan segir í niðurlagi bréfsins:

,,Þessi markmið fara oft vel saman og því tölum við um fjölnytjaskógrækt. Ekki liggur fyrir nákvæm langtímaáætlun um hvar skuli gera hvað og hvenær í löndum Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal en öll ofangreind markmið eiga þar við. Það er stefna Skógræktar ríkisins að halda áfram að vinna að þessum markmiðum eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.``

Virðulegi forseti. Það er einkum fjórða atriði þessara markmiðslýsinga Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal sem ég vildi gera að umtalsefni þar sem þessi markmiðslýsing er í fullu samræmi við það sem gerist annars staðar eins og kemur fram í upphafi bréfsins en það er ,,að auðvelda almenningi aðgang að skóglendum, m.a. með því að skapa aðstöðu fyrir ferðafólk.``

Ekkert kemur fram í bréfinu sem bendir til þess að Skógrækt ríkisins muni hafa samráð við heimamenn, við bændur eða þá aðila sem stunda ferðaþjónustu til að ná fram þessum markmiðum sínum þannig að Skógrækt ríkisins sé til sóma og til að auðvelda aðgang almennings en ekki síður til að skapa öflugt samstarf þeirra sem hafa verið að skipuleggja ferðaþjónustu í nágrenni við skóglendur ríkisins.

[14:45]

Verulega hefur færst í aukana að bændur, sem áður stunduðu hefðbundinn búskap, stundi nú vel skipulagða þjónustu við ferðamenn. Og nágrenni slíkrar þjónustu við skóglendi ríkisins eykur vissulega aðsókn almennings. Bændur njóta þess því jafnframt. Hins vegar virðist skorta á að Skógrækt ríkisins hafi samráð við þá aðila sem stunda ferðaþjónustu í tengslum við þessa uppbyggingu. Þess vegna hef ég leyft mér að bera upp eftirfarandi fsp. til hæstv. ráðherra:

,,Um hvers konar aðstöðu er að ræða í markmiðslýsingu Skógræktar ríkisins um skóglendur í Þjórsárdal, sem og annars staðar, þar sem segir ,,að auðvelda eigi almenningi aðgang að skóglendum, m.a. með því að skapa aðstöðu fyrir ferðafólk`` og hver mun sjá um viðhald og rekstur, ef einhver er?

Er um að ræða að Skógrækt ríkisins eigi og reki þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn? Ef svo er, þá hvar og hver er kostnaðurinn við reksturinn?

Er um að ræða samninga við einkaaðila um þjónustu við ferðamenn í skóglendum á vegum ríkisins? Ef svo er, í hve mörgum tilvikum og hvar hafa slíkir samningar verið gerðir og við hverja?``

Síðan er hér fjórða spurningin á þskj. Þetta er frekar ítarlegt og kannski ekki nægjanlegt tillit tekið til þess tíma sem hæstv. ráðherra hefur til að svara.