Aðstaða fyrir ferðafólk í skóglendum ríkisins

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:57:12 (3442)

1999-02-10 14:57:12# 123. lþ. 63.4 fundur 461. mál: #A aðstaða fyrir ferðafólk í skóglendum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:57]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Út af hlutverki Skógræktar ríkisins og Náttúruverndar ríkisins í sambandi við ferðaþjónustuna, sem hv. 4. þm. Austurl. kom inn á, vildi ég taka fram að ég tel mikilvægt að þessar stofnanir eigi gott samstarf við ferðamálayfirvöld og ferðaþjónustuna almennt til að aðgengi ferðafólks sé sem best að þessum svæðum. Ég veit að forráðamenn þessara stofnana vilja það. Skógrækt ríkisins hefur lagt á það áherslu að opna skógana. Þeir hafa beinlínis gert átak til að auðvelda þar aðgengi.

Í sambandi við uppbyggingu á þessum svæðum, eins og hv. 4. þm. Austurl. sagði hér, að standa ætti myndarlega að uppbyggingunni, þá hafa fjármunir til þessara stofnana verið það takmarkaðir að þurft hefur að forgangsraða verkefnunum. Auðvitað þarf að spyrja hver aðkoma ferðamálayfirvalda að þessum málum ætti að vera. Á það aðeins að vera hlutverk landbrn., umhvrn. og yfirvalda á því sviði? Hér þyrfti að samræma sjónarmiðin.

Varðandi spurningar hv. fyrirspyrjanda, hv. 5. þm. Suðurl., um samstarf við heimaaðila, ítreka ég það sem ég tæpti á í svari mínu áðan, að mikilvægt sé að Skógræktin sé í góðu samstarfi við heimaaðila eftir því sem mögulegt er. Það hefur verið mikið. Ég þekki það vel, t.d. norður í Fnjóskadal, á Vaglaskógarsvæðinu, hve þýðingarmikið það hefur verið fyrir atvinnulíf og byggð þar.

Áherslurnar hafa færst mjög í þá átt, sem ég gerði einnig grein fyrir, að hlutverk Skógræktar ríkisins er að breytast. Hún er að verða meiri ráðgjafar-, leiðbeiningar- og þjónustustofnun en framkvæmdaraðili. Verkefnin sjálf eru síður á vegum Skógræktarinnar.

Varðandi þá hugmynd að komið verði á samstarfsráði, vil ég benda á að í dag eða á morgun verður dreift frv. um þessi mál, þ.e. um lög um skógrækt og skógvernd, eins og það heitir. Þá er kjörið tækifæri til að skoða hvernig þetta gæti verið, ef menn vilja finna slíku lagastoð.