Náttúrugripasafn Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:01:03 (3443)

1999-02-10 15:01:03# 123. lþ. 63.5 fundur 429. mál: #A Náttúrugripasafn Íslands# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÁE
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:01]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. umhvrh. um Náttúrugripasafn Íslands.

Það er, herra forseti, til vansa hvernig staðið hefur verið að málum Náttúrugripasafnsins. Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um það að myndarlegt náttúrugripasafn er hlutur sem tilheyrir sérhverri menningarþjóð og þjóð sem getur ekki haft þessa hluti í góðu lagi getur vart talist slík.

Náttúrugripasafnið er mjög merkileg stofnun og má rekja sögu þess yfir 100 ár og allt til Kaupmannahafnar í upphafi náttúruvísinda hérlendis með formlegum hætti, m.a. með stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags.

Safnið sjálft hefur verið á hrakhólum í áratugi og má nefna að árið 1960 var safninu lokað, pakkað í kassa og geymt þannig í sjö ár. Síðan var því komið fyrir í bráðabirgðahúsnæði við Hlemm 1967 og hefur verið þar síðan og í óbreyttu ástandi frá 1989.

Á 100 ára afmæli Hins íslenska náttúrufræðifélags kom fram stefnumörkun frá þáv. menntmrh., Svavari Gestssyni, þar sem kynntar voru áætlanir um að hafist yrði handa um að reisa myndarlegt náttúrugripasafn og það yrði sameign Náttúrufræðistofnunar, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. Lítið hefur bólað á efndum en ýmsir þingmenn hafa lagt mjög af mörkum til að knýja á um þetta mál og er ekki hallað á neinn þó að nafn hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sé sérstaklega dregið fram en hann hefur barist mjög fyrir þessu máli. Ég hef því leyft mér að bera fram þá fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort úrbóta sé að vænta, og þá hverra og hvenær, í húsnæðismálum Náttúrugripasafnsins en það hefur verið í bráðabirgðahúsnæði. Ég spyr einnig um hvort fyrirhugaðar séu breytingar á starfsemi safnsins, svo sem lagabreytingar, aukning umsvifa eða ráðning aðila til að bera ábyrgð á daglegum rekstri þess. Í þriðja lagi hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að reist verði myndarlegt náttúrugripa- og fiskasafn sem nýtist sem vísinda- og sýningarsafn. Og í fjórða lagi hvort ráðherra sé reiðubúinn að beita sér fyrir úttekt á áhrifum veglegs náttúrugripasafns sem hluta af ferðaþjónustu.

Allir þessir þættir eru mjög mikilvægir og ég tel brýnt að við reisum hið fyrsta myndarlegt náttúrugripasafn sem er samhliða sædýrasafni og áhrif þess bæði á ferðamannastraum og til vísinda og rannsókna eru hafin yfir allan vafa. Það hefur verið mjög slæmt hvernig þessum málum hefur verið fyrir komið og menn hafa ekki sinnt þeirri skyldu sinni gagnvart náttúruvísindum hérlendis að standa almennilega að safnamálum.