Náttúrugripasafn Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:10:12 (3445)

1999-02-10 15:10:12# 123. lþ. 63.5 fundur 429. mál: #A Náttúrugripasafn Íslands# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:10]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn. Hún er sannarlega tímabær til að hreyfa enn og aftur við þessu máli. Hér var á sínum tíma, um vorið 1985, flutt tillaga af tíu þingmönnum úr öllum flokkum sem kom hreyfingu á þessi mál sem leiddi til þess að vönduðum undirbúningi undir náttúruhús í Reykjavík var lokið 1991--1992 með mikilli vinnu nefnda, fleiri en einnar. Ég var formaður í einni þessara nefnda sem skilaði af sér 1990. Víðtækt samkomulag hafði tekist milli Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands ásamt ríkinu að standa að slíku náttúruhúsi. Fé var komið inn á fjárlög ríkisstjórnarinnar 1991--1992, minnir mig, en þá gerðist sá hörmulegi atburður að einn hv. þm. sem sæti átti í fjárveitinganefnd, Gunnlaugur Stefánsson, þm. Alþfl., barðist um á hæl og hnakka þangað til þessi fjárveiting var tekin út og málið var kveðið niður og kom ekki aftur á dagskrá þeirrar ríkisstjórnar þrátt fyrir eftirrekstur.

Á umhverfisþingi 1996 var 9. nóvember samþykkt tillaga sem ég flutti um að taka þráðinn upp að nýju og hæstv. umhvrh. tók mjög undir það. Það er sannarlega rétt skelfilegt til að vita hvernig að þessum málum hefur verið staðið á undanförnum árum og hefur ekki enn rofað til, ef marka má svör hæstv. ráðherra.