Náttúrugripasafn Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:15:03 (3448)

1999-02-10 15:15:03# 123. lþ. 63.5 fundur 429. mál: #A Náttúrugripasafn Íslands# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÁE
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:15]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Því miður get ég ekki gert mikið með svör hæstv. ráðherra. Segja má um þetta safn eins og stundum hefur verið haft á orði að þetta sé safnið sem gleymdist. Fjögur söfn voru í Safnahúsinu, þetta er eina safnið sem hefur verið á hrakhólum í áratugi. Verður það áfram?

Engin stefnumörkun kom fram af hálfu ráðherra. Ég hvet hann til þess, þar sem ráðherratímabili hans er nú að ljúka, að gera gangskör að þeim tillöguflutningi og tryggja fjármagn til að leysa vanda Náttúrugripasafnsins.

Vitaskuld á að vera hér náttúrugripasafn og fiskasafn þótt fiskasafn sé í Vestmannaeyjum og þarf ekki að hafa mörg orð um það. Margir ferðamenn koma einmitt til Íslands vegna náttúru landsins. Og að þeir geti ekki séð náttúrgripasafn, veglegt náttúrugripasafn með öllu því sem fylgir íslenskri náttúru er ekki einungis til vansa heldur erum við að hafa af því fjárhagslegt tjón.

Ég skildi svar hæstv. ráðherra þannig að hann vilji beita sér fyrir að gerð verði úttekt á áhrifum safnsins á ferðamálaþjónsutu. Ég fagna því að það verði gert. Ég vil líka benda á að hann sagði ekkert um að hann vildi breyta lagaumgjörðinni. Ég tel miður að ekki hafi náðst sú samstaða sem stefnt var að 1992 með háskólanum og Reykjavíkurborg sem ég vitnaði til áðan. Það þurfa e.t.v. fleiri aðilar að koma að málinu. En frumkvæðið og þorið verður vitaskuld að vera hjá hæstv. ráðherra.

Ég vænti þess og vona að þessi umræða geti orðið hvati að því að menn taki höndum saman og búi þessu safni, sem á svo merkilega sögu í samfélagi okkar, verðuga umgjörð og væri ekki úr vegi að miða við aldamótaárið og vera þá búin að leysa vandamál náttúrugripasafnsins til frambúðar.