Náttúrugripasafn Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:17:24 (3449)

1999-02-10 15:17:24# 123. lþ. 63.5 fundur 429. mál: #A Náttúrugripasafn Íslands# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:17]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil einnig þakka fyrir umræðuna og þær brýningar sem ég hef fengið í ræðustól frá hv. þm. Reyndar held ég að fleiri hefðu þurft að hlusta á þær brýningar því að þegar hv. fyrirspyrjandi segir að þetta sé safnið sem gleymdist get ég að hluta til tekið undir það en vil þó segja við hann að það er ekki gleymt í umhvrn., ég hef ekki gleymt þessu safni. Ég hef margsinnis verið með það til umfjöllunar á þeim vettvangi þar, eins og ég sagði reyndar í upphafi máls míns áðan, sem ég hef talið nauðsynlegt að reyna að koma því á framfæri og minna á það. En ég verð þá að játa á mig um leið að vera ekki nógu mikill baráttumaður til þess að það frumkvæði hafi leitt til nægjanlegs árangurs og það er auðvitað rétt.

Hins vegar vil ég aftur minna á að um er að ræða stórt verkefni, verkefni sem kostar kannski upp undir einn milljarð kr. og við erum auðvitað að glíma við ýmis stór verkefni þannig að það þarf að forgangsraða. Umhvrn. hefur á undanförnum árum tekið til sín sífellt meiri og meiri fjármuni, þó að ekki veitti af. Sumir hafa jafnvel sagt að það þyrfti að vera enn meira og auðvitað má segja það um ýmsa málaflokka. Þá verður líka að segja að sumum hefur vaxið í augum hve miklir fjármunir hafa smám saman verið að renna til þessa málaflokks. En auðvitað sjá menn að það er brýn þörf og hefði í mörgum tilvikum þurft að vera enn meira eða enn betra.

Ég vildi aðeins undirstrika enn frekar að ég mun halda áfram að glíma við þetta mál á þeim tíma sem ég á eftir í stóli umhvrh. Varðandi hugsanlega samninga við t.d. Reykjavíkurborg, sem spurt hefur verið um, er það rétt að á sínum tíma var komið þetta samkomulag við Reykjavíkurborg og háskólann. Það var hins vegar ekki svo naglfest að það væri orðin sameign þessara stofnana og þær væru áfram tilbúnar til þess að vinna að verkefninu. Eftir að slitnaði upp úr því á árinu 1992, eða hvenær það nú var, hefur ekki tekist að endurnýja það. Ég hef hins vegar átt í þessari glímu minni m.a. fundi með borgarstjóra, sem hefur sýnt málinu áhuga þannig að ég vona að hægt verði að koma þessu í einhvern farveg á næstu dögum eða vikum. En við vitum þó að við erum með nýlega afgreidd fjárlög sem gera ekki ráð fyrir fjárveitingu í þetta þannig að það er þá verkefni þeirra sem glíma við næstu fjárlög að reyna að koma þessu máli þar inn þannig að það sé varanlegt og til einhvers gagns.