Húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:40:34 (3457)

1999-02-10 15:40:34# 123. lþ. 63.92 fundur 239#B húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:40]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Listaháskóli Íslands er sameiginlegt markmið okkar sem viljum veg lista og menningar sem mestan hér á landi og teljum að það hve leikhúsáhugi t.d. er mikill hér á landi sé sérstakt aðalsmerki íslensku þjóðarinnar. Sérstakt tákn um hversu sterkar stoðir standa að íslenskri þjóðmenningu. Fyrir um tveimur árum hélt ég að hæstv. menntmrh. ætlaði að gera stofnun listaskóla á háskólastigi að markmiði sem hann vildi berjast fyrir þar og nú. En einhvern veginn hefur sú umræða sem þá var uppi runnið út í sandinn. Fyrir nokkrum dögum var svo komið fyrir okkar virta leiklistarskóla að henda átti honum út úr húsnæði því sem hann hefur haft undir nemendaleikhús svo að hægt væri að koma þar fyrir skjölum frá Hagstofunni. Nú hefur því máli verið bjargað fyrir horn korteri fyrir utandagskrárumræðu og hún var þá ekki til einskis. Mun leiklistarskólinn fá að halda aðstöðunni næstu þrjá mánuði þangað til honum verður komið fyrir til bráðabirgða í næsta kjallara.

Má ég nú biðja yfirvöld menntamála að taka aftur upp merki listaháskólans góða og halda því hátt á loft þar til sá draumur verður að veruleika. Fyrr er að mínu mati ekki komin sæmandi lausn í þessum málum.