Húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:49:58 (3462)

1999-02-10 15:49:58# 123. lþ. 63.92 fundur 239#B húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:49]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Eins og hér kom fram var ekki rætt við mig um þetta mál fyrr en í gær. Það leystist í gærkvöldi og samkomulag var undirritað í morgun. Ég held að á því hafi verið tekið um leið og við blasti hvernig í því lá. Þegar nemendur höfðu rætt við mig og við höfðum farið yfir málið var það leyst og ber að sjálfsögðu ekki að líta á málið sem virðingarleysi við listina eða listnám í landinu. Þetta er ákveðið úrlausnarefni sem við stóðum frammi fyrir og höfum nú fundið viðunandi lausn á með samkomulagi allra aðila. Ég hefði í sporum ýmissa þingmanna breytt ræðum mínum með hliðsjón af því sem hér kom fram í umræðunum, en það er annað mál. Það er þeirra mál en ekki mitt.

Varðandi það að þetta hafi staðið til lengi þá var það árið 1996 sem ríkissjóður eða fjmrn. keypti þetta húsnæði af Dagsbrún og Sjómannafélagi Reykjavíkur. Þá þegar lá ljóst fyrir að þarna yrði breyting á högum Nemendaleikhússins. Þingmenn hafa því haft mörg tækifæri til þess að ræða þetta mál ef þeir hefðu haft áhuga á því fyrr en nú eftir að nemendur vöktu þá af værum blundi.

Hvað kostar að innrétta hið nýja húsnæði? Það er talið að það muni kosta um 5 millj. kr. að innrétta húsnæðið við Sölvhólsgötu þannig að þar verði aðstaða sem hentar Nemendaleikhúsinu. Þeir sem farið hafa í leikhúsið við Lindargötu vita að aðstaðan þar er ekki til sérstakrar fyrirmyndar þó hún nýtist Nemendaleikhúsinu vel. Ég vona að aðstaðan að Sölvhólsgötu muni einnig nýtast vel þeim sem þar eiga eftir að starfa.

Listaháskóli Íslands hefur verið stofnaður. Rektor hans, Hjálmar H. Ragnarsson, hefur verið ráðinn og menntmrn. hefur gert samning við stjórn Listaháskólans og rektorinn um fjárstuðning á þessu ári til að vinna að undirbúningi skólans. Markvisst er unnið að því að skólinn geti hafið störf sem fyrst en það mál er í höndum rektorsins og stjórnar skólans. Ráðuneytið hefur ákveðið að veita fjármuni til þess að undirbúningurinn taki markvissa stefnu þannig að starfsemi hefjist eins fljótt og unnt er í Listaháskóla Íslands.