Einangrunar- og gæsluvarðhaldsvistun

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:28:17 (3472)

1999-02-10 18:28:17# 123. lþ. 63.11 fundur 338. mál: #A einangrunar- og gæsluvarðhaldsvistun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:28]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt að taka það fram vegna ræðu hv. fyrirspyrjanda að ég hef ekki undir höndum nein gögn um það einstaka dæmi sem hv. fyrirspyrjandi kom hér með og get því alls ekki svarað því. En ég skal svara þeim almennu fyrirspurnum sem fram voru bornar á þskj.

Um það er að segja að um gæsluvarðhald gilda ákvæði laga um meðferð opinberra mál og samkvæmt 105. gr. þeirra laga er það dómari sem kveður upp úrskurð um gæsluvarðhaldsvist sakaðs manns hafi komið um það krafa frá rannsóknaraðila opinbers máls.

Í 2. mgr. þeirrar greinar segir, með leyfi forseta:

,,Gæsluvarðhaldi skal markaður ákveðinn tími. Sá sem krafist hefur gæsluvarðhalds skal láta sakborning lausan þegar ástæður til gæslu eru ekki lengur fyrir hendi. Gæsluvarðhald verður ekki framlengt nema til komi nýr dómsúrskurður.``

Í 108. gr. laganna segir:

,,Gæslufangar skulu því aðeins látnir vera í einrúmi að rannsóknarnauðsynjar krefji, en þó skulu þeir ekki gegn vilja sínum hafðir með öðrum föngum.``

Og í 30. gr. laga um fangelsi er fjallað um skilyrði þess að fanga megi einangra frá öðrum föngum. Ákvörðun um slíka einangrun er tekin af viðkomandi forstöðumanni fangelsis. Samþykki Fangelsismálastofnunar þarf til að halda fanga í einangrun samkvæmt þeirri grein lengur en í 30 daga.

[18:30]

Um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar er fjallað í 3. kafla reglugerðar um gæsluvarðhaldsvist. Þar segir að sá sem rannsókn stýri ákveði hvort gæsluvarðhaldsfangi skuli hafður í einangrun vegna rannsóknarhagsmuna. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar getur gæsluvarðhaldsfangi borið undir dómara ákvörðun um slíka einangrun. Í 17. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að forstöðumaður fangelsis geti í öðrum tilfellum en kveðið er á um í 16. gr. ákveðið að einangra gæsluvarðhaldsfanga. Skilyrði slíkrar ákvörðunar eru talin upp í stafliðum a--f í sömu grein. Eftir því sem fram kemur í 18.--23. gr. reglugerðarinnar skal kynna gæsluvarðhaldsfanga gögn málsins og gefa honum kost á að koma að sjónarmiðum sínum. Ákvörðun forstöðumanns skal vera skrifleg og hún rökstudd. Hana skal birta fanganum með sannanlegum hætti og honum skýrt frá því að heimilt sé að kæra ákvörðunina til dóms- og kirkjumrn. Endurskoða skal ákvörðun um einangrun vikulega og slík einangrun verður ekki framlengd umfram 30 daga nema að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar.

Meðal þeirra agaviðurlaga sem heimilt er beita gæsluvarðhaldsfanga samkvæmt reglugerðinni er einangrun í allt að 30 daga. Heimilt er að beita agaviðurlögum fyrir brot á reglugerðinni, reglum fangelsisins, brot á sérstökum reglum sem forstöðumaður hefur sett eða óhlýðni við fyrirmæli sem gefin eru samkvæmt þeim svo og vegna stroks og tilrauna til þess. Fyrir brot á reglum fangelsins má beita agaviðurlögum, m.a. einangrun, allt að 30 daga. Forstöðumaður skal áður en ákvörðun er tekin ganga úr skugga um hvernig broti var háttað með því að yfirheyra fanga og með annarri rannsókn eftir aðstæðum. Ákvörðun um agaviðurlög skal vera skrifleg, rökstudd og birt fanganum með sannanlegum hætti. Greina skal fanganum frá möguleika á því að kæra ákvörðun til dómsmrn. sem skal taka ákvörðun innan tveggja sólarhringa frá því að kæra berst ella fellur ákvörðunin úr gildi.

Sjaldgæft er að fangi sé einangraður vegna brota á reglum fangelsisins. Ef um slíka einangrun er að ræða varir hún almennt ekki lengur en í 4--7 daga.

Varðandi 3. fyrirspurnina er það að segja að í reglugerð um gæsluvarðhaldsvist er fjallað um læknisþjónustu og þar er kveðið á um að fangelsislæknir sinni almennri læknisþjónustu fyrir gæsluvarðhaldsfanga. Skal fangelsislæknir skoða gæsluvarðhaldsfanga sem fyrst eftir komu í fangelsið. Ef fangi er sjúkur við komu eða þarf að öðru leyti á læknishjálp að halda skal fangelsislæknir kallaður til án ástæðulauss dráttar. Þá getur gæsluvarðhaldsfangi óskað eftir því að heimilislæknir hans eða annar tiltekinn læknir sinni læknisþjónustu að því er hann varðar í gæsluvarðhaldi. Fjallað er um skilyrði til að verða við þeirri ósk í tilteknum greinum reglugerðarinnar.

Í framkvæmd er það þannig að fljótlega eftir að fangi kemur í gæsluvarðhald er hann skoðaður af heilsugæslulækni eða að jafnaði innan sólarhrings. Sjálfstætt mat á geðrænu ástandi fer ekki fram en ef tilefni gefst til vísar heilsugæslulæknir fanganum til geðlæknis. Einnig eru dæmi um að upplýsingar um heilsufar fylgi fanganum við upphaf gæsluvarðhalds. Að öðru leyti er ekki um að ræða reglubundið eftirlit. Starfsmenn fangelsa hafa samband við lækni, geðlækni eða sálfræðing ef tilefni gefst til.

Að því er 4. lið fsp. varðar er það að segja að að mínu mati samrýmast þau lög sem vitnað hefur verið til til þeirra alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að svo og evrópskum fangelsisreglum varðandi almennar lágmarksreglur um meðferð fanga.

Heildarendurskoðun á lögum um meðferð opinberra mála er fyrirhuguð. Við þá endurskoðun munu ákvæði laganna um þetta efni sem og önnur ákvæði þeirra verða tekin til ítarlegrar athugunar og skoðunar. Á þessu stigi er ekki unnt að segja til um hvort sú endurskoðun muni leiða til breytinga á reglum um gæsluvarðhald og/eða einangrun fanga.