Einangrunar- og gæsluvarðhaldsvistun

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:33:47 (3473)

1999-02-10 18:33:47# 123. lþ. 63.11 fundur 338. mál: #A einangrunar- og gæsluvarðhaldsvistun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:33]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, það á alls staðar við. Ég ætla ekki að skipta mér af rannsókn lögreglumála eða draga úr mikilvægi þess að ráðist sé af hörku gegn meintum innflutningi fíkniefna. Lögreglan er oft í erfiðri stöðu og nýtur ekki alltaf skilnings eða sannmælis og fangaverðir ekki heldur. En persónulega þekki ég það mál sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir gerði hér að umtalsefni og þekki þann unga mann sem hún ræddi um og hafður var lengi í einangrunarvist.

Mér er til efs að þeim reglum hafi verið fylgt hvað varðar læknisþjónustu sem hæstv. dómsmrh. var að lýsa hér áðan. Að vísu er það lagt í mat þeirra sem gæta fangans, ,,ef tilefni gefast til`` eða ,,ef ástæða þykir til`` segir þar, en mér er til efs að þar hafi nægileg aðgát verið höfð í nærveru sálar.

Þetta mál hefur nú verið til ákærumeðferðar í ótrúlega langan tíma án þess að nokkuð hafi komið út úr því og því er ástæða til að ítreka það að menn hafi fulla aðgát á. Hörmuleg dæmi eru vissulega til um það að ósveigjanleiki og harðræði hafi spillt fyrir rannsókn mála og það megum við ekki láta henda.