Einangrunar- og gæsluvarðhaldsvistun

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:35:29 (3474)

1999-02-10 18:35:29# 123. lþ. 63.11 fundur 338. mál: #A einangrunar- og gæsluvarðhaldsvistun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:35]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég tók upp þetta einstaka mál var ekki sú að ég væri að krefja hæstv. ráðherra svara í því tilviki sérstaklega heldur bara að benda á að þess eru dæmi að einstaklingar hafa verið það lengi í einangrunarvistun að þeir hafa beðið varanlegt tjón af. Ég get svo sem bent á það líka að þrátt fyrir það að þessi tiltekni einstaklingur hafi setið í 40 daga einangrun vegna þess að svokallaðir rannsóknarhagsmunir kröfðust þess, þó að þau gögn sem beðið væri eftir kæmu ekki vikum saman, að miðað við úrskurð lögfræðings þessa einstaklings, þá taldi hann að þannig væri staðið að málum að ekki hefði verið ástæða til þess að halda honum þetta lengi inni.

Enn þann dag í dag er ekki farið að leggja fram ákæru í þessu tiltekna máli. Og maður hlýtur að velta fyrir sér, þó að vissulega séu dæmi þess og nauðsyn að hafa vistunarúrræði eins og einangrun og gæsluvarðhaldsvist, að þá er einangrun dauðans alvarlegur hlutur, þar sem einstaklingur er geymdur inni í algjörri einangrun í 23 tíma af hverjum 24, og getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sálarlíf þeirra einstaklinga sem hlut eiga að máli, eins og gerðist reyndar í þessu tilviki. Ég dreg í efa, eftir að hafa skoðað þær reglur sem gilda um einangrunarvistun hjá þeim þjóðum sem við berum okkur gjarnan saman við, að þær reglur sem við förum eftir hér brjóti ekki í bága við þá mannréttindasamninga og aðra samninga sem við erum aðilar að.

Ég vil ítreka það og beina því til hæstv. ráðherra að um þetta verði settar sérstakar reglur, sérstaklega hvað varðar einangrunarvistun, þannig að aldrei sé heilsu einstaklings sem úrskurðaður er í einangrun stefnt í voða, eins og þarna gerist og önnur dæmi eru um, svo maður rifji upp þau mál sem hafa verið töluvert í umræðunni eins og Guðmundar- og Geirfinnsmálin.