Einangrunar- og gæsluvarðhaldsvistun

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:37:59 (3475)

1999-02-10 18:37:59# 123. lþ. 63.11 fundur 338. mál: #A einangrunar- og gæsluvarðhaldsvistun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:37]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka það að ég tel að eðlilegra hefði verið að í þeirri fyrirspurn sem hér var borin fram, fyrst hún snerist í raun um mál tiltekins einstaklings, hefði það verið tekið fram í fyrirspurninni þannig að allar upplýsingar um málið í heild sinni hefðu getað legið fyrir og þingið tekið afstöðu til málsins í því ljósi. En fyrirspurnirnar voru bornar fram um þær almennu reglur sem gilda og þess vegna liggja ekki hér fyrir og ég hef ekki með mér neinar upplýsingar til að ræða það efni sem hv. fyrirspyrjandi var í raun og veru að ræða. Ég hefði talið það miklu eðlilegra í ljósi þess um hvað hv. fyrirspyrjandi var í raun að ræða að málið hefði verið lagt fyrir með öðrum hætti þannig að unnt hefði verið að ræða það eins og fyrirspyrjandi lagði fyrir í sinni framsöguræðu.

Að öðru leyti vil ég ítreka að hingað koma eftirlitsnefndir frá Evrópuráðinu reglulega sem fylgjast með hér eins og alls staðar annars staðar í aðildarríkjum Evrópuráðsins þeim reglum sem gilda um fangelsi og fangavist og framkvæmd þeirra. Við höfum fengið ágætan dóm, ekki síst eftir að við hófum endurbætur í fangelsismálum, frá þessum eftirlitsnefndum og hvergi verið gerðar athugasemdir við þær reglur og framkvæmd þeirra að þessu leyti af hálfu nefndarinnar.