Tilraunaveiðar á túnfiski

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:40:05 (3476)

1999-02-10 18:40:05# 123. lþ. 63.12 fundur 305. mál: #A tilraunaveiðar á túnfiski# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:40]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Tilraunaveiðar á túnfiski hafa nú staðið í þrjú ár með þremur til fimm japönskum og tævönskum túnfiskveiðiskipum og hefur árangur verið góður. Hægt hefur gengið þó að fá íslenska útgerðarmenn til að fara út í túnfiskveiðar enda um dýr skip að ræða og dýran búnað svo að árangur eigi að vera góður og áhætta því mikil.

Þau gleðilegu tíðindi bárust sl. ár að ein útgerð hefur lagt í þá fjárfestingu að geta veitt og unnið túnfisk en þessi útgerð er Byr í Vestmannaeyjum. Vegna tafa við breytingar náðu þeir ekki síðustu túnfiskveiðivertíð hér við land en þeir fyrirhuga að senda skipið til Las Palmas og gera út á þær slóðir í vetur og fylgja síðan túnfisknum norður eftir að Íslandsströndum. Það má því segja að fyrsta íslenska túnfiskveiðiskipið sé komið af stað. Vitað er um tvo aðra útgerðarmenn sem hugsa sér til hreyfings með nýsmíði og mun það skýrast á næstu vikum.

Með þeim tilraunaveiðum sem við höfum stundað síðustu árin hefur verið sýnt fram á að þessar veiðar geta gengið vel hér við land ef útbúnaður er réttur. Ýmislegt þarf þó að gera svo slík útgerð verði fýsileg fyrir íslenska útgerðarmenn. Þar vil ég nefna að lengja veiðitímabilið með gagnkvæmum samningum um veiðar á túnfiski í lögsögu Færeyinga og Íslendinga. Það þarf einnig að auðvelda lánafyrirgreiðslu úr Nýsköpunarsjóði til þessara veiða. Ég veit að útgerð Byrs VE sótti um lán hjá Nýsköpunarsjóði og fékk aðeins brot af því sem beðið var um og það með 15% vöxtum. Maður getur skilið að Nýsköpunarsjóður þurfi sitt en er þetta ekki nokkuð langt gengið þegar um nýsköpun er að ræða eins og veiðar íslenskra skipa á túnfiski?

Ég tel, herra forseti, að nauðsynlegt sé að efla þessa útgerð og auka veiðar íslenskra skipa og þar þurfi ríkisvaldið að koma nærri. Ég vil því beina þeirri hugmynd til hæstv. sjútvrh. að sett verði á laggirnar nefnd til að marka stefnuna í þessum málum til framtíðar, t.d. með spurningum um áframhaldandi tilraunaveiðar á túnfiski, meiri en orðið er. Það er mikil vinna fram undan við að rannsaka t.d. öll þau sýni sem tekin hafa verið úr túnfiski sl. ár og eru enn órannsökuð. Það þarf að kanna möguleika okkar til útflutnings á ferskum jafnt sem frosnum túnfiski og einnig fjármögnunarleiðir vegna nýsköpunar á þessu sviði. Ég tel því eðlilegt, herra forseti, að slík nefnd yrði skipuð sem fyrst af sjútvrh. og að hún skili af sér á sumarmánuðum.

Þess vegna hef ég borið fram fsp. sem koma fram á þskj. 365.