Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 10:32:49 (3480)

1999-02-11 10:32:49# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., Frsm. VS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[10:32]

Frsm. stjórnarskrárnefndar (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti stjórnarskrárnefndar um frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum, á þskj. 561 og brtt. á þskj. 560.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til fundar við sig þá Eirík Tómasson prófessor og Ólaf Þ. Harðarson dósent, en einnig voru þeir Kristján Andri Stefánsson og Helgi Bernódusson nefndinni til ráðgjafar. Nefndin leitaði álits hjá landshlutasamtökum sveitarfélaga, héraðsnefndum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, alls 26 aðilum. Umsagnir bárust frá níu aðilum auk erinda frá öðrum en þeim sem leitað var álits hjá.

Hinn 8. september 1997 skipaði forsrh. nefnd til að endurskoða kjördæmaskipan og tilhögun kosninga til Alþingis. Nefndin var skipuð samkvæmt tilnefningu allra þingflokka er þá voru á Alþingi og skilaði hún skýrslu 6. október sl. Skýrslan er prentuð á þskj. 141.

Þau meginmarkmið sem nefnd forsrh. hafði að leiðarljósi voru í fyrsta lagi að gera kosningakerfið í senn einfalt og auðskiljanlegt, í öðru lagi að draga úr misvægi atkvæða þannig að hlutfall kjósenda að baki hverju þingsæti, þar sem munurinn er mestur milli kjördæma, verði sem næst 1:1,5 til 1:1,8, í þriðja lagi að gera þingsætafjölda allra kjördæma sem jafnastan, í fjórða lagi að viðhalda jöfnuði á milli stjórnmálasamtaka á landsvísu þannig að fjöldi þingsæta hvers flokks verði í sem bestu hlutfalli við atkvæðafylgi flokkanna og í fimmta lagi að halda óbreyttri tölu þingmanna. Lagt var til grundvallar að beitt yrði svonefndri d'Hondt-reglu bæði við úthlutun kjördæmasæta og jöfnunarsæta enda verði fjöldi þingsæta allra kjördæma svipaður. Beiting þessarar reglu byggist á því að kjördæmasæti séu fimm eða fleiri en samkvæmt brtt. nefndarinnar á þskj. 560 er lagt til að kjördæmasæti verði a.m.k. sex.

Fumvarpið er grundvöllur nauðsynlegra breytinga á kosningalöggjöfinni svo að markmiðum verði náð. Þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á stjórnarskránni miða að því að gera nýtt kosningakerfi sveigjanlegra en verið hefur. Í því skyni er í frumvarpinu lagt til að stjórnarskráin geymi færri og almennari ákvæði um kjördæmaskiptingu landsins í megindráttum og tilhögun kosninga til Alþingis. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir því að almenna löggjafanum verði falið að útfæra nánar kjördæmaskipan og tilhögun kosninga í lögum með auknum meiri hluta atkvæða, þ.e. tveimur þriðju hlutum atkvæða á Alþingi. Gert er ráð fyrir því að stjórnarskráin geymi ákvæði um heildarfjölda þingsæta, lágmarksfjölda kjördæmasæta, lengd kjörtíma og fjölda kjördæma.

Þá er gert ráð fyrir því að stjórnarskráin kveði á um tilhögun kosninga í megindráttum, þ.e. að kosningar skuli vera leynilegar og hlutbundnar. Jafnframt er lagt til að horfið verði frá núgildandi reglu um úthlutun jöfnunarsæta. Eins og reglurnar eru í dag er grundvöllur fyrir jöfnunarsæti að stjórnmálasamtök hafi fengið kjördæmakjörinn mann. Þess í stað er lagt til að í stjórnarskrána verði sett ákvæði um að þau samtök ein sem hlotið hafa meira en 5% atkvæða á landsvísu geti fengið úthlutað jöfnunarsæti, jafnvel þó þau hafi ekki fengið þingsæti í kjördæmi. Kjördæmissæti verði því ekki lengur skilyrði fyrir því að fá jöfnunarsæti.

Að lokum er lagt til að stjórnarskráin geymi ákvæði um að ef misvægi á milli atkvæða kjósenda að baki hverju þingsæti í einstökum kjördæmum fer fram úr 1:2 að loknum alþingiskosningum skuli landskjörstjórn færa þingsæti á milli þeirra kjördæma þar sem munurinn er mestur til að draga úr misvæginu. Þetta ákvæði kemur ekki til framkvæmda fyrr en eftir alþingiskosningarnar árið 2003, samanber breytingu á þskj. 560 ef samþykkt verður.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að fela almenna löggjafanum að ákveða fjölda þingsæta í hverju kjördæmi, þó þannig að hvert kjördæmi hafi minnst fimm kjördæmasæti. Brtt. nefndarinnar á þskj. 560 gerir hins vegar ráð fyrir því að kjördæmasæti verði minnst sex.

Þá er lagt til að almenni löggjafinn setji nánari fyrirmæli um kjördæmaskipan og fyrirkomulag kosninga, þar á meðal um mörk kjördæma utan Reykjavíkur og nágrennis auk reglna um úthlutun þingsæta. Tilgangurinn með að eftirláta almenna löggjafanum að útfæra rammaákvæði stjórnarskrárinnar er einkum að auðveldara er að láta kjördæmaskipun fylgja búsetuþróun án þess að breyta þurfi stjórnarskránni. Til að breyta kjördæmamörkum og tilhögun við úthlutun þingsæta er áskilinn aukinn meiri hluti á Alþingi, þ.e. tveir þriðju hlutar atkvæða. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að samkvæmt bráðabirgðaákvæði í 2. mgr. 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því að einfaldur meiri hluti á Alþingi nægi til að gera breytingar á kosningalögum til samræmis við þessar breytingar á stjórnarskránni. Þegar kosningalögunum hefur verið breytt til samræmis við stjórnarskrárbreytingarnar fellur ákvæðið um einfaldan meiri hluta úr gildi.

Þær breytingar sem nefndin leggur til að verði gerðar á frv. eru:

1. Lagt er til að kjördæmi geti fæst verið sex en flest sjö. Á þennan hátt getur almenni lögjafinn breytt fjölda kjördæma innan ákveðinna marka sem stjórnarskráin leyfir. Með þessari breytingu eru ákvæði stjórnarskrárinnar um kjördæmaskipulag og kosningafyrirkomulag gerð sveigjanlegri. Til að fjölda kjördæma verði breytt innan þessara marka þarf tvo þriðju hluta atkvæða á Alþingi samkvæmt 6. efnismgr. 1. gr. frv., samanber einnig 2. efnismgr. 2. gr. sem er bráðabirgðaákvæði um einfaldan meiri hluta.

2. Lögð er til sú breyting að fjöldi kjördæmissæta í hverju kjördæmi verði ekki færri en sex.

3. Þá er lagt til að ákvæði til bráðabirgða í 1. efnismgr. 2. gr. frv. verði fellt brott, en þar er kveðið á um að ákvæði 5. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins, sem ætlað er að koma í veg fyrir að misvægi atkvæða fari fram úr 1:2 milli einstakra kjördæma, verði virkt um áramótin 2000--2001, en upp frá því reynir á það á mest fjögurra ára fresti. Gengið er út frá því að kosið verði eftir nýrri tilhögun við næstu kosningar eftir að stjórnarskipunarlögin öðlast gildi, sem verða í síðasta lagi árið 2003. Tilgangurinn með breytingunni er að ákvæði 5. efnismgr. 1. gr. komi ekki til framkvæmda í fyrstu kosningum eftir stjórnarskrárbreytinguna.

4. Loks leggur nefndin til að stjórnarskipunarlögin öðlast þegar gildi um leið og skilyrði eru til þess, en með gildistökuákvæðinu er tekið af tvímæli um hvenær lögin skuli taka gildi.

Undir nefndarálitið skrifa Friðrik Sophusson, Valgerður Sverrisdóttir, Svavar Gestsson, Sigríður Anna Þórðardóttir, Jón Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon, Sturla Böðvarsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Hjálmar Árnason, Árni Johnsen og Guðný Guðbjörnsdóttir. Rétt er að geta þess að Steingrímur J. Sigfússon skrifar undir álitið með fyrirvara.