Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 10:50:46 (3482)

1999-02-11 10:50:46# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[10:50]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hér er hafin umræða um stórt og mikið mál sem lengi hefur verið í umræðu en ekki komið fyrr en núna til kasta Alþingis í alvöru. Sá hv. þm. sem hér talaði talaði um stórpólitísk tíðindi og stórtíðindi á Alþingi og þverpólitíska sátt þar sem jöfnun atkvæðisréttar væri meginkjarni málsins. Sem sagt það að draga úr misvægi atkvæða, en að engin sátt væri um hið mikla misvægi atkvæða sem landsmenn hefðu þurft að búa við. Efnislega kom þetta fram í máli hans.

Nú vil ég vekja athygli á því að fyrir stuttu síðan voru viðhöfð prófkjör hjá svokallaðri samfylkingu í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi og ekki var annað að sjá en að allir samfylkingarmenn væru sáttir við það misvægi atkvæða sem þeir sköpuðu sjálfir með þeim reglum sem þeir settu fyrir sínu prófkjöri, en þær kölluðu fram um fimmfaldan mun á atkvæðum, á atkvæðavæginu. Þeir bjuggu til hólf þannig að misvægi atkvæða varð miklu meira en nokkurn tíma hefur átt sér stað í kosningum til Alþingis. Því vil ég gjarnan spyrja hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson hvort einhver munur sé á þessu, þ.e. að búa til misvægi atkvæða með þessum hætti og að menn geti unað við það, en ekki í kosningum til Alþingis.