Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 11:03:24 (3487)

1999-02-11 11:03:24# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[11:03]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka það samstarf sem tókst um þetta mál í stjórnarskrárnefndinni upphaflegu, kosningalaganefndinni. Þó að það sé kannski skrýtið að flytja slíkar þakkir út fyrir þennan sal þá ætla ég samt að gera það og nefna nafn Friðriks Sophussonar, sem var formaður í þeirri nefnd, og það er ástæða til að nefna hann vegna þess að þetta er ekki einfalt mál. Ég hygg að enginn hefði spáð því fyrir tveimur árum að jafnvíðtæk samstaða tækist og fyrir liggur í máli af þessu tagi. Ég tel að það eitt út af fyrir sig sé ánægjuefni, að náðst skuli hafa jafnvíðtæk samstaða og raun ber vitni um með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem hér hafa átt þingmenn.

Ég vil einnig byrja á að rifja málið aðeins upp og geta þess að í upphafi kjörtímabilsins var það ákvæði sett inn í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að breyta ætti kosningalögunum. Ég fyrir mitt leyti var mjög gagnrýninn á það ákvæði í stjórnarsáttmála vegna þess að ég tel þetta ekki mál ríkisstjórnar, ég tel þetta mál flokka. Þannig hefur það alltaf verið og ég hafði áhyggjur af því að Framsfl. og Sjálfstfl. ætluðu að taka þetta mál til sín. Vegna þess að þeir hafa haft sjónarmið sem við í Alþb. höfum alltaf verið andvígir, þ.e. þau sjónarmið að breyta reglunum þannig að kjördæmamörkin yrðu óbreytt en fækkað yrði í litlu kjördæmunum úti á landi og fjölgað í þéttbýlinu, sem hefði getað haft það í för með sér að misjöfn fulltrúatala flokkanna eftir byggðarlögum yrði enn þá skýrari en hún er nú. Ég tel að það sé slæmt kerfi sem kallar á það að flokkar séu annaðhvort til í þéttbýli eða dreifbýli. Ég vil hafa kerfi sem er þannig að flokkarnir hafi svipaða aðstöðu til þess að koma málefnum sínum og áherslum á framfæri, burt séð frá því hvort það er í þéttbýli eða dreifbýli, enda hafi þeir til þess svipaðan fylgisstyrk.

Þannig er það ekki núna. Þeir flokkar sem hafa verið minni í fjögurra flokka kerfinu um áratuga skeið hafa að jafnaði átt síðri möguleika á því að fá þingmenn kjörna í litlu kjördæmunum úti á landi en stærri flokkarnir, og það er óheppilegt fyrirkomulag.

Þess vegna var það mikið ánægjuefni að mati okkar alþýðubandalagsmanna að ríkisstjórnarflokkarnir féllust á að stofna til samstarfs allra flokka um málið. Við höfðum talið, og ég lét það koma fram á sínum tíma sem mín sjónarmið, að eðlilegra væri að þessi ákvörðun væri á vegum Alþingis eins en að ekki væri skipuð nefnd úr Stjórnarráðinu til að sinna þessu verki. En það var ósk stjórnarflokkanna að fara svona í málið og fallist var á þetta til samkomulags undir athugasemdum, aðallega frá mér.

Það er tvennt sem Alþb. lagði áherslu á í upphafi þessarar vinnu sem sýnir flokkspólitíska afstöðu. Það var í fyrsta lagi það að áfram yrði tryggt, þrátt fyrir breytingar, ef gerðar yrðu, að jöfnuður væri á milli flokka, jöfnuður á milli pólitískra sjónarmiða. Og reynt yrði við slíkar breytingar að ná lengra en tekist hefur til að tryggja og stuðla að meira vægi persónanna, þ.e. persónukjör vægi þyngra en nú er, þar sem það vegur ekkert í raun og veru í sjálfum kosningunum.

Niðurstaðan er sú að jöfnuður á milli flokka næst í þessum tillögum sem hér liggja fyrir. Jöfnuður á milli pólitískra sjónarmiða næst í þessum tillögum. Vandinn er hins vegar sá að lítill árangur náðist að því er varðar persónukjör. Það er að mínu mati slæmt, en veruleikinn er sá að ýmsir hér í þessari stofnun hafa talið, m.a. í flokkssamþykktum sínum, að óheppilegt sé að færa átökin á milli einstaklinga inn í sjálfar alþingiskosningarnar, og það eru rök út af fyrir sig. Þess vegna gjalda þeir, og ég að nokkru leyti líka, varhug við þeim sjónarmiðum að færa t.d. prófkjörin inn í alþingiskosningarnar vegna þess að þá yrðu þau átök sem yrðu á milli einstaklinga færð inn í alþingiskosningarnar sem eiga auðvitað að snúast um málefni númer eitt, tvö og þrjú.

Við alþýðubandalagsmenn höfum aldrei verið þeirrar skoðunar, eða a.m.k. mjög fáir í okkar hópi, að núverandi kerfi væri mjög slæmt í sjálfu sér. Ég hef t.d. ekki tekið undir það að núverandi kerfi væri sérstaklega flókið. Ég hef átt mjög erfitt með að taka undir þann söng. Kannski er það vegna þess að ég átti dálítinn þátt í því að koma þessu kerfi á blöð, sem nú er notað, með breytingunum 1983. En það var alveg ljóst að gera varð breytingar á kerfinu. Af hverju? Af því að það var ekki pólitísk samstaða um að hafa það óbreytt og þess vegna hlaut það að verða hlutskipti okkar í málinu að reyna að ná sátt um kerfi sem væri eins gott og kostur væri eða eins lítið vont og kostur væri, eftir því frá hvaða sjónarmiði maður nálgast verkið. Það er auðvitað oft hlutskipti manna í stjórnmálum að þurfa að nálgast málin á þann hátt og það held ég að við höfum gert eða reynt að gera a.m.k.

Ég ætla ekki að bæta í sjálfu sér miklu við þær ræður sem hér hafa verið fluttar en það eru þó örfá atriði sem ég vil undirstrika. Það er í fyrsta lagi það að um leið og við í þingflokki Alþb. og óháðra, sem ég stýrði þá, samþykktum að taka þátt í þessu starfi --- en nú hafa menn talið að efni væru til þess að hafa þennan þingflokk í tveimur flokkum, eins og kunnugt er í þessari stofnun --- þá lögðum við áherslu sérstaklega á eitt atriði sem yrði að fylgja. Ég vænti þess engu að síður að menn séu sammála um þetta grundvallaratriði, og það er að jafnframt breytingunni yrðu teknar ákvarðanir sem snerta byggðaþróun í landinu og yrðu til þess að það væri eins auðvelt og mögulegt er að rækja þingstörfin þrátt fyrir miklu stærri kjördæmi.

Þessi áhersla og krafa náði góðum stuðningi í stjórnarskrárnefndinni og ég hygg að allt í lagi sé að segja frá því að við lögðum talsverða áherslu á að þetta yrði svona, og þeir sem í nefndinni störfuðu tóku ágætlega undir þessi sjónarmið.

Ég tel hins vegar að mikilvægt sé að niðurstaða byggðanefndar þingflokkanna liggi fyrir áður en þetta mál verður að lögum. Ég tel mjög mikilvægt að halda þannig á málinu. Það er úrslitamál í mínum huga að þannig verði að hlutunum staðið og ég veit ekki betur en að um það sé fullt samkomulag að þannig verði röðin á verkunum sem við erum hér að tala um.

Í þessum tillögum, herra forseti, er gert ráð fyrir margvíslegum breytingum á kosningakerfinu sem hafa verið raktar, en ég ætla að nefna nokkrar aðeins ítarlegar. Það eru fyrst þær breytingar sem gert er ráð fyrir að gera á jöfnunarkerfinu. Eitt af því allra flóknasta við að setja saman reglur af þessu tagi er að finna aðferðir til að tryggja þessa jöfnun á milli flokka. Ef kjördæmin eru mjög misjafnlega stór, ef eitt kjördæmið er t.d. fjögurra þingmanna og annað kjördæmi 25 manna, svo ég nefni dæmi, þá er mjög erfitt að ná þessu marki nema með mjög mörgum jöfnunarsætum. Og gallinn við jöfnunarsætin er sá að úthlutun þeirra gerir kosningakerfið ógagnsætt. Það verður erfiðara að átta sig á því hvar menn eiga að koma til skjalanna, hvar menn eiga að verða kosnir og hvar ekki.

Kosturinn við kerfið, eins og þessi tillaga fjallar um, er sá að kjördæmin eru svipað fjölmenn að þingmannafjölda sem gerir það að verkum að ekki þarf eins mörg jöfnunarsæti og ella væri. Hér er sem sagt gert ráð fyrir að skipta jöfnunarsætunum eftir landsfylgi flokkanna, þ.e. þegar kosningaúrslitin liggja fyrir þá er jöfnun í kjördæmunum, jöfnunarsætunum skipt á milli flokkanna miðað við heildaratkvæðatölu, en áður en útreikningurinn hefst koma til frádráttar þau sæti sem menn hafa fengið eða flokkarnir í hverju kjördæmi fyrir sig. Og talnalegar athuganir, sem nefndin lét gera, sýna að 9--10 jöfnunarsæti nægja til að tryggja sæmilega vel jöfnuð milli flokka á landsvísu þegar landinu er skipt í sex kjördæmi eins og hér er gert ráð fyrir, enda séu þau áþekk að stærð.

Í þessum tillögum er lagt til að jöfnunarsætunum verði úthlutað til þeirra frambjóðenda hvers flokks sem hafa hæst hlutfall atkvæða í sínu kjördæmi. Með því næst talsverð einföldun á því kerfi sem jöfnunarsætum er úthlutað eftir frá því sem er samkvæmt gildandi lögum og ég ætla aðeins að fara yfir hvernig þetta er gert. Það er gert þannig að þegar búið er að áætla hvað flokkur á að fá mörg þingsæti yfir landið þá kemur í ljós hversu mörg sæti vantar til að hann fái fulla þingmannatölu miðað við atkvæðastyrk sinn. Síðan er þessum sætum úthlutað til flokkanna. Og hvernig er þeim úthlutað? Þeim er úthlutað þannig að fyrsta jöfnunarsætið fer til þess flokks sem vantar flesta þingmenn upp á að fá fulla úthlutun, og það fer til þess manns sem hefur hæsta prósentutölu. (EgJ: Eins og gerist nú í dag.) Nei, það er öðruvísi vegna þess að nú er um það að ræða að miðað er við kjördæmatölu. Hún er reiknuð út og síðan er það stærsta leið sem ræður því hvar jöfnunarsætin koma inn. En þetta er mjög mikilvæg ábending vegna þess að þetta kerfi á að vera gagnsærra og einfaldara en nú er af því að þetta raðast bara upp eftir hlutföllum, eftir prósentum. Og menn muna það sem eru komnir á virðulegan aldur, eins og ég og hv. þm. Egill Jónsson, að fyrr á öldinni var þetta þannig að fyrst kom jöfnunarmaður á tölu og svo á prósentu og svo á tölu og svo á prósentu. En hér er gert ráð fyrir því að allir jöfnunarmenn fari úr á prósentum og það á að gera kerfið miklu einfaldara og gagnsærra en það er núna.

[11:15]

Auðvitað getur þetta þýtt að jaðartilvik komi upp og virki sérkennileg. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að reynt hefur verið að laga þetta frá því sem nú er.

Í öðru lagi vildi ég nefna persónukjörið, það var farið yfir það. Þar tókst okkur ekki mjög vel upp, ég viðurkenni það alveg. Í gögnum og skýrslum nefndarinnar er þó lagt til að það verði ekki útfært fyrr en í kosningalögunum sjálfum. Lagt er til að tekin verði upp regla sem gilti fram að breytingu á kosningalögunum 1959, þ.e. fram til þess að núgildandi kosningalög voru sett. Það er svokölluð Bordaregla. Til að mörkin verði þó ekki óeðlilega lág er lagt til að reglunni verði aðeins beitt á þá frambjóðendur á lista sem ná aðal- eða varamannssæti, þó aldrei færri en þrjá. Þykja með því móti mynduð hófleg mörk fyrir breytingar á framboðslistum. Fái listi sem dæmi 4.000 atkvæði og tvo menn kjörna eru fjórum efstu mönnum listans reiknuð atkvæði og ef engar breytingar hafa verið gerðar á kjörseðlum, með útstrikun eða umröðun, hefur fyrsti maður 4.000 atkvæði; annar maður þrjá fjórðu, eða 3.000 atkvæði; þriðji maður tvo fjórðu eða 2.000 atkvæði og fjórði maður einn fjórða, eða 1.000 atkvæði. Í þessu dæmi þyrfti meira en 800 útstrikanir hjá einum frambjóðanda, ef engar aðrar breytingar væru gerðar á kjörseðlum, til að hreyfa hann milli sæta.

Hér er í raun talið líklegra að áhrif náist með breytingum á seðlum en nú er, þar sem engar breytingar nást eins og menn sáu í síðustu sveitarstjórnarkosningum og menn í þessum sal muna vafalaust eftir.

Með frv. um breytingar á stjórnarskránni eru í fylgiskjali drög að frv. til laga um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis. Þar ætla ég að nefna nokkur atriði sem mér finnst að við þurfum að ræða af því að þau skipta máli.

Fyrsta atriðið er að lagt er til að landskjörstjórn verði heimilt að ákveða mörkin milli kjördæmanna tveggja í Reykjavík um hver áramót þannig að kjósendur að baki hverju þingsæti í hvoru þeirra um sig verði nokkurn veginn jafnmargir auk þess sem hvort kjördæmi verði sem samfelldust heild.

Hvaða rök eru fyrir því að skipta Reykjavík í tvö kjördæmi? Rökin eru í fyrsta lagi þau að betra sé fyrir þingmennina að sinna kjördæminu en nú er. Það er afar erfitt verk fyrir þingmennina að sinna jafnstóru kjördæmi og fjölmennu og Reykjavík. Ég hef verið þingmaður Reykvíkinga í 20 ár og veit hve erfitt það getur verið og að það er dýrt vegna þess að menn leysa oft það sem á eigin getu vantar með öðrum hætti, útgáfustarfsemi eða auglýsingum. Þess vegna tel ég það að hafa kjördæmið eins gríðarlega stórt og fjölmennt og það er núna afar erfitt.

Í öðru lagi, sem er kannski aðalatriðið í málinu, er betra fyrir kjósendur í Reykjavík að hafa þetta svona. Það er auðveldara að ná til þeirra og auðveldara fyrir þá að ná til þingmanna. Ég efast um að að Reykvíkingar, kjósendur í Reykjavík, geri sér ljóst hverjir þingmenn kjördæmisins eru. Ég tel það slæmt af því að við erum fulltrúar Reykvíkinga og landsmanna allra. En við, fulltrúar Reykvíkinga, eigum auðvitað að vinna sem þingmenn Reykjavíkur líka. Vissulega hefur það verið þannig með þingmenn Reykvíkinga, ekki síður en þingmenn annarra kjördæma, að þeir hafa reynt að horfa til landsins alls. Veruleikinn er hins vegar sá að þeir sem eru kosnir í Reykjavík eru kosnir af því fólki sem hér býr. Það er nauðsynlegt fyrir þingmenn að ná til kjósenda og fyrir fólkið að geta náð sambandi við þá.

Þriðji kosturinn við að skipta Reykjavík, raunar er það óhjákvæmilegt, er að það er forsenda þess að allt þetta kerfi gangi upp. Þá þarf færri jöfnunarsæti en ella væri, eins og þetta kerfi er sett upp. Með þessari niðurstöðu yrðu þingmannahóparnir hér inni jafnframt af svipaðri stærð. Ég tel það einnig kost að Reykvíkingarnir hafi ekki allt aðra stöðu en allir aðrir. Þeir ættu að ganga fram eins og aðrir kjördæmaþingmenn í þessari stofnun.

Þess vegna verð ég að segja, sem þingmaður Reykvíkinga til margra ára, að þetta er ekki slæmur kostur. Ég skil vel að menn skuli vilja ræða málið og auðvitað verða kjördæmamörkin í Reykjavík ekki ákveðin öðruvísi en borgarstjórn Reykjavíkur komi að því máli. Það segir sig sjálft. Þannig hlýtur það að vera og þannig er það t.d. í öðrum löndum þar sem kjördæmamörk eru færð til í þéttbýli á milli kosninga, eins og gert er t.d. í London og víðar.

Að lokum, herra forseti, vildi ég víkja að því að á frv. eru einnig gallar. Aðalgallinn er hve dreifbýliskjördæmin verða stór. Það verður erfiðara að sinna þeim. Það er ljóst en þá er að taka á því og gera allt sem hægt er til að auðvelda mönnum að gegna því starfi. Um það efni eru uppi tillögur, m.a. í byggðanefnd þingflokkanna þar sem fjallað er um hvernig komið verði til móts við þingmenn landsbyggðarinnar. Ég tel mjög mikilvægt að svo verði gert og það myndarlega, þannig að starfsmenn þingmannanna verði ekki allir hér við Austurvöll heldur einnig í öðrum byggðarlögum. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga í þessari umræðu.

Reyndar eru tvö atriði að lokum, herra forseti, sem ég gleymdi og finnst ég þurfa að nefna núna. Annað er breytingar á kjördæmamörkum. Með frv. verður gífurleg breyting, verði það að lögum og stjórnarskrá. Gert er ráð fyrir að hægt sé að breyta kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta. Það er hægt að breyta þessu með samþykkt á Alþingi án þess að þurfa að fara stjórnarskrárferilinn í gegnum tvennar kosningar. Ef íbúar Siglufjarðar vildu t.d. vera í öðru kjördæmi en hér er lagt til og óskuðu eftir því í atkvæðagreiðslu eða með undirskriftum, þá gæti Alþingi fallist á það, án þess að til kæmu tvennar kosningar. Mikilvægt er að hægt sé að bregðast við slíkum óskum ef þær koma upp og það er lýðræðislegt að mínu mati.

Í öðru lagi breytist úthlutun uppbótarsæta. Ég bendi á það sem segir í stjórnarskrárákvæðinu, með leyfi forseta:

,,Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.``

Þetta er breyting frá því sem nú er og þýðir, ef við skoðum þetta aftur í tímann, að ýmis þau samtök sem hér hafa haft fulltrúa hefðu ekki náð því. Það á t.d. við um Kvennalistann í síðustu kosningum. Um þetta mál voru skiptar skoðanir í nefndinni. Heilmikið var rætt um hvort hægt væri að finna aðra leið. En þetta er niðurstaðan og að henni stend ég en viðurkenni um leið að hún felur í sér í miklar breytingar frá því sem verið hefur að því er varðar möguleika flokkanna til að fá aðgang að jöfnunarsætunum.

Ég lýk þá máli mínu, herra forseti, og endurtek þakkir fyrir samstarfið til þeirra sem hlut áttu að máli í undirbúningsnefndinni og í sérnefndinni á þinginu.