Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 12:39:10 (3496)

1999-02-11 12:39:10# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[12:39]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég virði að sjálfsögðu ólík sjónarmið í þessum efnum. En ég tel einfaldlega að gengið sé allt of langt í því að jafna vægi atkvæða og þess vegna get ég ekki fellt mig við þessa niðurstöðu. Flóknara er þetta mál ekki en það.

Ég ítreka eingöngu að það sem menn hafa verið að gera annars staðar, í öðrum löndum þar sem menn hafa verið að fara í þessa hluti, er að skoða ýmsa fleiri þætti. T.d. spurninguna um tengsl kjósenda og þingmanns, spurninguna um það hvernig við getum tryggt sem mestan stöðugleika í ríkisstjórnarmyndun o.s.frv. Ekkert af þessu er verið að horfa á hérna hjá okkur. Einungis er verið að horfa á spurninguna um vægi atkvæða og menn einblína á það.

Sem dæmi um þann hugsunarhátt sem ég hef verið afar ósáttur við í þessari vinnu er það, og ég vakti athygli á því bæði í meðförum málsins og eins við 1. umr., að gert er ráð fyrir því í þeim kosningalögum sem við munum síðan væntanlega taka afstöðu til í framhaldinu, og kannski raunar hér líka, að þegar til þess komi að vægi atkvæða fari yfir 1:2, leiði það til þess að kjördæmið þar sem þannig háttar til missi frá sér þingmann.

Ef svo ólíklega vildi nú til, sem ég veit þó að allur þingheimur vonar, að íbúaþróunin yrði öðruvísi og þetta kjördæmi kæmist í þá stöðu að vægið yrði ekki lengur 1:2, heldur 1:1,5 eða eitthvað svoleiðis, þá mundi þessi þingmaður ekki skila sér til baka. Það er einstefnuloki á þessu sem tryggir að þingmennirnir streyma út úr þeim kjördæmum þar sem íbúaþróunin er á verri veginn en kjördæmin hafa ekki þennan sama möguleika á því að endurheimta þingmannatölu sína að nýju þó svo að íbúaþróunin verði á annan veg. Ég tel, hv. þm., að þetta sé ekki tilraun til þess að koma til móts við sjónarmið okkar í dreifbýlinu né að taka tillit til sjónarmiða okkar. Þvert á móti finnst mér að þarna sé verið að troða ofan í kokið á okkur.