Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 12:41:35 (3497)

1999-02-11 12:41:35# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., RA
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[12:41]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta mál gerði ég ítarlega grein fyrir afstöðu minni til þess en ég ætla samt að bæta nokkru við og er það af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er um stórkostlega mikilvægt mál að ræða sem þó er meingallað. Í öðru lagi hafa verið gerðar breytingar á frv. með tillögum nefndarinnar sem hefur fjallað um það og ég tel að þær tillögur séu sannarlega þess virði að þær séu nefndar í umræðunni en á því hefur ekki mikið borið.

Sagt hefur verið að um málið sé þverpólitísk samstaða. Það hefur verið sagt að um tillögur kosningalaganefndarinnar, sem var að störfum á síðasta ári og skilaði af sér tillögum sínum í haust um stjórnarskrárfrv. og nýja kjördæmaskipan, sé almenn, víðtæk og breið samstaða. En staðreyndin er sú að það er líka fyrir hendi mikil andstaða gegn þessu frv. og ég vil segja að sú andstaða sé þverpólitísk líka og nái inn í alla flokka.

Ef við lítum á þau átta kjördæmi sem fyrir eru í landinu nú er óhætt að fullyrða að í fjórum þessara átta kjördæmi er óánægjan svo megn með þær tillögur sem hér er verið að leggja fram og hugsanlega samþykkja að varla er hægt að finna einn einasta mann sem mælir þeim bót í þessum kjördæmum. Þar á ég við Vesturlandskjördæmi, Vestfjarðakjördæmi, Norðurland vestra og Austfjarðakjördæmi. Það er nánast sama við hvern maður talar í þessum fjórum kjördæmum, alls staðar mætir manni mjög neikvæð afstaða gagnvart þessum tillögum og menn gagnrýna þær óspart. Þetta hygg ég að hafi komið mjög greinilega fram í þeim umsögnum sem sendar voru nefndinni. En ég tek eftir því að þegar gerð er grein fyrir málinu í þinginu og það er rætt af þeim sem um það fjölluðu í nefnd er ekki gerð nein tilraun til þess að rifja upp og benda á hverjir voru að gagnrýna frv. og með hvaða rökum það var gert. Það er kannski nefnt í einni eða tveimur setningum en að öðru leyti látið kyrrt liggja.

[12:45]

En staðreyndin er sú að hvort heldur við lítum á kjósendur þessara fjögurra kjördæma, sveitarfélögin í kjördæmunum, sveitarstjórnirnar eða landshlutasamtökin að þar er almennt að finna mjög megna og víðtæka andstöðu við þær tillögur sem hér er verið að fjalla um. Megingagnrýnin frá þeim sem láta í ljós óánægju sína með þá nýskipan, sem við erum að ræða hér um, er einfaldlega sú að kjördæmin verði allt of stór. Menn óttast að þegar komið er kjördæmi sem á að ná úr Hvalfjarðarbotni um Vesturland, Breiðafjörð, Vestfirði, Norðurland vestra alla leið til Siglufjarðar og síðan annað kjördæmi þaðan um Norðurland, Norðausturland, Austurland og alla leið á Skeiðarársand, sé þar um að ræða þess háttar einingar sem verði meira eða minna óviðráðanlegar fyrir þá þingmenn sem eiga að sinna þeim. Tengsl þingmanna við kjósendur í þessum kjördæmum munu slitna, verða allt önnur en þau eru í dag, og það verður illgerlegt ef ekki ógerlegt fyrir þingmenn þessara væntanlegu kjördæma að fylgjast með þeim vandamálum sem uppi eru þar á hverjum tíma.

Ég nefni það bara sem dæmi að við höfum á hverju hausti gefið þingmönnum kost á því með hléi í þinginu að ferðast um kjördæmi sín og hitta sveitarstjórnir að máli og þetta höfum við nefnt kjördæmaviku. Hún hefur verið notuð í þeim tilgangi að halda fundi á flestum þéttbýlisstöðum ásamt því að funda með héraðsnefndum og öðrum þeim sveitarfélögum sem sérstaklega hafa óskað eftir fundum með þingmannahópunum. Ég tel að það sé stórkostlega mikilvægt fyrir lýðræðið í landinu að þingmenn eyði nokkrum tíma, allir saman á hverjum stað, til að ræða vandamál viðkomandi byggða og vandamál fólksins sem þar býr. Mér er algjörlega ljóst að eftir að þessi stóru kjördæmi eru orðin til verður þetta óframkvæmanlegt og mun falla niður. Það verður a.m.k. ekki mögulegt að tengja þetta afgreiðslu fjárlaganna eins og við höfum gert. Við höfum farið í þessar ferðir eftir að fjárlagafrv. hefur verið lagt fram og við höfum rætt innihald fjárlagafrv. og væntanlegar brtt. fjárln. við frv. við kjósendur okkar og við sveitarstjórnarmenn í hverju kjördæmi og heyrt álit þeirra á væntanlegu fjárlagafrv. en að eiga að halda slíka fundi á öllu svæðinu, t.d. um Vesturland, Breiðafjörð, Vestfirði og Norðurland vestra, er auðvitað slíkt verkefni að það verður gjörsamlega óframkvæmanlegt og þess er ekki að vænta að því verði haldið uppi eftir að þessi breyting hefur átt sér stað.

En er þá öruggt að kjördæmaskipanin verði með þeim hætti sem hér er þó gerð tillaga um af hálfu kosningalaganefndarinnar sem starfaði á seinasta ári? Nú er það svo að við erum að fjalla um breytingu á stjórnarskránni og þar er ákveðið hver eigi að vera fjöldi þingmanna og hver eigi að vera fjöldi kjördæma, hver eigi að vera fjöldi kjördæmasæta í hverju kjördæmi, hvert eigi að vera það lágmarksfylgi sem flokkur þurfi að hafa til að fá jöfnunarsæti eða eiga rétt á jöfnunarsætum og loks hver eigi að vera fjöldi kjósenda bak við hvern þingmann í hverju kjördæmi fyrir sig. Þetta eru þær fimm meginreglur sem verið er að ákveða í stjórnarskrárfrv. sem við erum núna að fjalla um en kjördæmamörkin sjálf eru ekki í stjórnarskrárfrv. Þau verða ekki til umfjöllunar fyrr en á næsta þingi, á næsta kjörtímabili eftir að stjórnarskrárbreytingin hefur verið samþykkt. Þá verður lagt fyrir þingið frv. til kosningalaga og þar verða kjördæmamörkin ákveðin. Ég tel að það sé afar athyglisvert að í nefnd sem fjallaði um þetta mál í þinginu var ákveðið að gera tillögu um að fjöldi kjördæma gæti orðið sjö í stað sex sem áður hafði verið gerð tillaga um og að fjöldi kjördæmasæta yrði sex, lágmarksfjöldi kjördæmasæta yrði sex í stað fimm eins og áður hafði verið gerð tillaga um. Að öðru leyti er efni frv. að mestu óbreytt. Áfram er gert ráð fyrir að þingmenn séu 63, áfram er gert ráð fyrir að fjöldi kjósenda á þingmann í einu kjördæmi megi ekki vera meiri en tvöfalt meiri en hann er í því kjördæmi þar sem fjöldinn er minnstur á hvern þingmann. Áfram er gert ráð fyrir að flokkur þurfi 5% fylgi á landinu öllu til að eiga rétt á jöfnunarsætum. En sú breyting sem gerð er tillaga um, þ.e. að fjöldi kjördæmanna megi verða sjö í stað sex áður, opnar að sjálfsögðu fyrir þann möguleika að kjördæmaskiptingin verði með allt öðrum hætti en áður hafði verið gerð tillaga um þar sem gert var ráð fyrir að um yrði að ræða þrjú þéttbýliskjördæmi við Faxaflóann og þrjú kjördæmi úti á landi. Nú er sem sagt opnað fyrir það að kjördæmin geti verið einu fleiri og þegar það er haft í huga að því verður ekki slegið föstu fyrr en á næsta kjörtímabili hvort það verður eitt eða tvö kjördæmi í Reykjavík er möguleiki á því að kjördæmin utan Reykjavíkur og nágrannabyggða Reykjavíkur geti hugsanlega orðið fimm í staðinn fyrir þrjú áður.

Ég legg áherslu á það í máli mínu að nýtt Alþingi sem kemur saman eftir næstu kosningar er algerlega með óbundnar hendur hvað varðar skiptingu landsins í kjördæmi. Við fáum vafalaust mikinn fjölda nýrra þingmanna, við fáum nýja þingflokka, og þessir nýju þingmenn, nýju þingflokkar og reyndar þingheimur allur er algerlega óbundinn af því hvernig hann ákveður að skipta landinu í kjördæmi. Ég mun ekki sitja á þessu væntanlega þingi, það er ljóst. Ég mun ekki bjóða mig fram í næstu kosningum og ég mun ekki eiga kost á því að taka þátt í að ákveða hversu mörg kjördæmin verða og hvernig landinu verður skipt í kjördæmi en ég vil nota tækifærið til að mæla eindregið með því við þá sem sitja á komandi þingi á næsta kjörtímabili að huga vandlega að allt öðrum og skynsamlegri lausnum en áður hefur verið rætt um í sambandi við kjördæmaskiptinguna. Ég tel að Norðurland eigi að vera eitt kjördæmi, Norðurland vestra og Norðurland eystra eigi að vera eitt kjördæmi. Þetta svæði er mjög samstætt svæði og þótt þar búi mikill fjöldi fólks eru þar greiðar samgöngur og tiltölulega auðvelt fyrir þingmenn að sinna því öllu og líta á það sem eina heild og allt annað við að eiga en að sinna kjördæmi sem nær yfir Vesturland, Vestfirði og Norðurland vestra. Ég tel að eðlilegast sé, miðað við það sem hér liggur fyrir, að Vesturland og Vestfirðir verði eitt kjördæmi, að Norðurland verði annað kjördæmi og síðan verði þriðja og fjórða kjördæmið myndað úr núverandi Austurlandi, Suðurlandi og Reykjanesi. Hvernig sú skipting á að vera skal ég ekkert um segja. Þar kemur margt til greina. Ég vek athygli á því að það er enginn sjálfgefinn hlutur að Vestmannaeyjar eigi endilega að fylgja því landi sem næst liggur Vestmannaeyjum. Ekki eru margar hafnir á söndunum á Suðurlandi og vel má hugsa sér að samgöngur við Vestmannaeyjar séu nú meiri jafnvel frá öðrum stöðum en þeim sem næst liggja á Suðurlandssöndum þannig að Vestmannaeyjar gætu alveg eins verið hluti af kjördæmi sem tengdist Austfjörðum eða þá Reykjanesi, sem aftur á móti býður upp á marga möguleika á að skipta þessu svæði í kjördæmi. Ég þekki það hins vegar kannski minna en margir aðrir sem þar hafa verið búsettir og ætla því ekki að blanda mér nákvæmlega í það spursmál. Ég tel hins vegar kjördæmaskiptingu sem byggð væri upp eins og ég hef nú lýst, að Vesturland og Vestfirðir séu eitt kjördæmi, að Norðurland sé annað kjördæmi og síðan séu þriðja og fjórða kjördæmið byggð á núverandi Austurlandi, Suðurlandi og Reykjanesi, langskynsamlegustu niðurstöðuna og hvet því eindregið til að hún sé tekin til athugunar og ítreka það sem ég sagði við 1. umr. málsins. Ég tel að tillögurnar um að Vesturland, Vestfirðir og Norðurland vestra séu eitt kjördæmi og síðan Norðurland eystra og Austurland annað kjördæmi, séu tillögur um kjördæmaskipun sem er að mínu viti er hreinn óskapnaður og ekkert annað. Mikil mistök að slík tillaga skyldi verða ofan á en enn er tími til að leiðrétta þau mistök og ég vona svo sannarlega að það verði gert.

Ég gagnrýni einnig harðlega að menn skuli hafa látið sér detta í hug að setja inn í stjórnarskrárfrv. þennan 5% þröskuld sem hindrar flokka í að fá jöfnunarsæti ef þeir ná ekki 5% atkvæða. Ég tel að þetta sé afar ósanngjarnt skilyrði.

[13:00]

Hvað eru 5% margir kjósendur? Jú, kjósendur verða senn nærri 200 þús. og 5% eru því 10 þús. manns. Hér er sem sagt verið að gera tillögu um það að ef 10 þús. manns koma sér saman um að styðja ákveðið framboð eigi að svipta það þeim mannréttindum að eiga rétt á jöfnunarsætum eins og aðrir flokkar. Þetta er auðvitað slíkt himinhrópandi ranglæti að ég á eiginlega ekki orð yfir að hér komi svo hver maðurinn á fætur öðrum og segi að náðst hafi mjög víðtæk og breið samstaða, þverpólitísk samstaða um þessa tillögu þegar öllum ætti að vera ljóst að hér er um meingallaðar tillögur að ræða sem standast ekki neitt mál.

Hvernig er þessu hagað í öðrum löndum? Ég hef því miður ekki kynnt mér það svo nákvæmlega hvernig þetta er í öllum nálægum löndum en ég veit þó hitt að í mörgum nálægum löndum eru til þröskuldar af þessu tagi en þeir eru allir lægri. Í Danmörku er þessi þröskuldur 2%, í Svíþjóð er þessi þröskuldur 4% og ég hygg að svipað sé upp á teningnum í mörgum öðrum nálægum löndum. Auðvitað munar mjög mikið um hvert prósentustigið og tilfinning mín er sú að t.d. 3% hefðu þó verið miklu nær sanngjarnri niðurstöðu en að vera með 5%. Auðvitað verður að miða við eitthvert lágmark, það er óhjákvæmilegt að einhvers staðar sé þarna þröskuldur en lýðræðisins vegna má hann ekki vera svona hár. Ég tel að lýðræðið í Bretlandi sé stórlega gallað vegna þess að þar tíðkast að flokkar fá meiri hluta á þingi þótt þeir fái ekki nema 35 til 40% atkvæða. Ég vil ekki sjá á Íslandi þröskuld sem er svo hár að hann útiloki 10 þús. kjósendur frá því að ná rétti sínum.

Þriðji stórfelldi gallinn á þessum málatilbúnaði er auðvitað sá að nefndin sem undirbjó málið á seinasta ári hafði ekki fyrir því að reyna að ná tökum á þeim vanda sem búið er að ræða á Íslandi í fjöldamörg ár en það er að auka persónukjör í almennum kosningum. Menn hafa mjög gagnrýnt það og þá á ég við fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Það hefur gagnrýnt að sá sem er kominn ofarlega á framboðslista hjá stórum flokki er öruggur með sæti sitt og honum verður ekki haggað. Kjósendur eiga engan kost á að hafa áhrif á það í mjög mörgum tilvikum hvaða persónur eru kjörnar á þing. Flokkarnir ráða því. Að vísu hafa flokkarnir farið út í að leita liðsinnis kjósenda við að raða í flokka sína með svokölluðum prófkjörum en við vitum öll að þessi prófkjör eru meingölluð og eru auðvitað komin út í algjörar ógöngur á Íslandi.

Það er alkunnugt og þarf ekkert að fjölyrða um að það tíðkast í stórum stíl að fólk sem ætlar ekki að kjósa viðkomandi lista, lætur ekki hvarfla að sér að styðja viðkomandi flokk, tekur samt sem áður þátt í prófkjöri á vegum viðkomandi flokks og tekur þátt í að ákveða hverjir skuli vera frambjóðendur hans og ræður oft og tíðum úrslitum um hverjir eru valdir til framboðs. Þetta er fyrirkomulag sem ég veit að mörgum útlendingum finnst afar sérkennilegt og ég get upplýst að ég var í þingmannasendinefnd á vegum forsn. í danska þinginu ekki alls fyrir löngu og þá var oft og tíðum rætt um undirbúning að komandi kosningum hér á Íslandi og við þingmenn spurðir að því hvernig gengi að stilla upp á lista. Við sögðum frá hvað hér væri helst í gangi, þ.e. að hér væru í gangi þessi stóru prófkjör með mikilli þátttöku þar sem þátttakan væri í mörgum tilvikum miklu meiri en næmi kjósendafylgi eða kjörfylgi flokkanna á viðkomandi stöðum eða svæðum. Skemmst er frá að segja að þeir sem ég ræddi við og gerði tilraun til að útskýra hvernig þessum málum væri háttað á Íslandi gekk afar illa að skilja hvers vegna í ósköpunum við á Íslandi hefðum svo sérstætt fyrirkomulag. Þeir höfðu ekki heyrt um slíkt fyrirkomulag áður og töldu auðvitað að þetta væri mikil afskræming á eðlilegu lýðræði.

Það er stórkostlegt vandamál hjá okkur að við höfum neyðst til að fara út í þessi stóru prófkjör þar sem fólk er að taka þátt í að velja menn á lista hjá mörgum flokkum, gengur bara á röðina, kýs fyrst hjá Framsfl., svo hjá Sjálfstfl., svo hjá samfylkingunni og ræður kannski úrslitum í mörgum tilvikum hjá þeim öllum. Þetta er auðvitað þess háttar fyrirkomulag að við ættum að skammast okkar fyrir það og við ættum auðvitað að leita leiða til að gefa kjósendum kost á að hafa áhrif á það hverjir eru valdir af hverjum lista fyrir sig eftir öðrum leiðum en þessum.

Til eru margar leiðir, m.a. leiðir sem eru mjög þekktar í öðrum löndum. Þar má t.d. nefna danska kerfið sem er í því fólgið að hverju kjördæmi er skipt upp í kjördeildir og í hverri kjördeild er mönnum síðan stillt upp og kjósendur hafa ýmsa möguleika á að merkja við persónur á listum og síðan er talið saman eftir flóknum reglum og sá valinn sem mest persónufylgi hefur. Önnur leið er sú að vera með óraðaða lista þar sem kjósandinn raðar sjálfur í hvaða röð hann vill að menn gangi til þings af hverjum lista. Sem sagt, möguleikarnir eru fjöldamargir, ég ætla ekki að orðlengja þá hér, en ég tel að kosningalaganefndin sem undirbjó þetta mál hafi illilega brugðist þegar hún lét þennan vanda fara algerlega fram hjá sér og hefur ekki undirbúið neinar tillögur til úrbóta á þessu sviði.

Ég ítreka það sem ég hef þegar sagt að málið í heild er meingallað og hefði þurft að undirbúa það miklu betur en gert var.