Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 13:14:44 (3500)

1999-02-11 13:14:44# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., Frsm. VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[13:14]

Frsm. stjórnarskrárn. (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, nefndin fór yfir þessi gögn, að vísu ekki á mörgum fundum en hins vegar hver með sjálfum sér. Við fengum öll þessi gögn og við fórum líka yfir persónukjör eins og það er framkvæmt í ýmsum öðrum löndum og reyndum að átta okkur á því hvort eitthvað af því gæti hentað fyrir okkur á Íslandi. En það náðist ekki samstaða um að gera þetta á annan veg en raun ber vitni og kemur fram í því þingskjali sem er til umfjöllunar.

[13:15]

Hv. þm. talaði um að svipta mannréttindum. Mér varð dálítið illt við því ég vil helst ekki tala um þetta mál út frá mannréttindum. Eins hefur mér mislíkað þegar talað hefur verið um mismunandi vægi atkvæða eftir kjördæmum að tala í hinu orðinu um að það séu mannréttindi að jafna vægið. Ég lít ekki þannig á. Hins vegar féllst ég á að taka þennan áfanga núna að misvægið verði ekki meira en 1:2.

Hv. þm. talar um að kjördæmaskiptingin sé aldeilis fráleit, eins og ég skildi mál hans, og telur að landsbyggðarkjördæmin eigi helst að vera fjögur ef ekki fimm. Við fórum líka yfir það í nefndinni og ein af tillögum okkar eða hugmyndum sem sýnd er í skýrslunni, tafla 11, gengur út á það að það séu fjögur landsbyggðarkjördæmi. Þá hefur sú tillaga þann galla í för með sér að það þarf miklu fleiri jöfnunarmenn vegna þess að fjöldi kjósenda í kjördæmunum er svo mismunandi mikill. Þá þurfa jöfnunarþingmennirnir að vera 13 til þess að jöfnuður náist milli flokka, sem Alþb. lagði mikla áherslu á að yrði hér eftir sem hingað til. Formaður þingflokks Alþb. fór mjög nákvæmlega yfir þetta atriði í ræðu sinni áðan og skýrði það sem eitt aðalatriðið í málflutningi Alþb. að hafa fáa jöfnunarþingmenn. Hv. þm. talaði því algjörlega gegn þeim málflutningi.