Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 13:17:21 (3501)

1999-02-11 13:17:21# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[13:17]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Ekki er tími til að fara ítarlega inn í þetta mál. En ég held að nefndin hafi strax í upphafi ferils síns lent á villigötum með því að gefa sér á margan hátt rangar forsendur til að vinna út frá. Ein af þessum röngu forsendum, sem nefndin gaf sér, var að kjördæmi þyrftu endilega að vera með nákvæmlega jafnmarga þingmenn eða því sem næst jafnmarga þingmenn. Það voru villigötur og þaðan má rekja ýmsar ógöngur sem nefndin lenti síðan í.

Hvað varðar persónubundið kjör er gott að það hefur fengist upplýst að nefndin fékk í hendur þau miklu gögn sem gamla stjórnarskrárnefndin hafði viðað að sér um það mál. Það er þá kannski einungis hægt að segja það nú að æskilegt væri að menn flýttu sér ekki um of þegar kosningalögin verða síðan samin, litu ekki þannig á að málið sé fullfrágengið og það sé bara að flytja málið eins og það var undirbúið af hálfu kosningalaganefndarinnar heldur taki málið í heild upp að nýju. Það er það sem ég er að skora á komandi þing að gera með þessum orðum mínum, að taka málið upp að nýju, bæði kjördæmaskiptinguna og sérstaklega líka persónukjörið. Og flýta sér ekki um of heldur reyna að finna þar lausn sem er betur ásættanleg en það kerfi sem við búum nú við.