Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 13:49:55 (3502)

1999-02-11 13:49:55# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[13:49]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vænti þess að framsögumaður nefndar þessa máls, sem hefur fjallað um málið, verði fljótlega viðstödd umræðuna.

Við ræðum frv. til stjórnarskipunarlaga sem felur í sér breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins okkar. Það er stórmál og er afar mikilsvert hvaða afgreiðslu það fær. Fá mál á Alþingi skipta jafnmiklu eins og breytingar á stjórnarskrá, þar á meðal þeir þættir stjórnarskrár okkar eða grundvallarlaga sem verið er að breyta með þessu frv.

Ég er í hópi þeirra alþingismanna sem hafa gagnrýnt þetta frv., gerði það við 1. umr. málsins, og mun fara yfir nokkra þætti þess til að koma sjónarmiðum mínum á framfæri. Ég tel mjög alvarlegt hvernig til hefur tekist við mótun tillagna um breytingu á stjórnarskránni, þeim atriðum sem hér er fjallað um. Verið er að gjörbreyta kjördæmaskipan í landinu með þessu frv. eða stefnt að því, og að setja grunn varðandi fjölda kjördæmanna sem leiðir af sér breytingar þó að um það efni í einstökum atriðum eigi að fjalla á næsta þingi. Verið er að festa aðra ákveðna þætti sem setja mönnum skorður í sambandi við það sem á eftir kemur og því eru þau ákvæði sem hér eru til umræðu afar afdrifarík og þýðingarmikil.

Frv. felur það í sér að verið er að festa fjölda kjördæma miðað við sex eða sjö kjördæmi og þó að hér hafi verið gerð sú breyting með tillögum frá nefndinni að skapa smávegis sveigjanleika í málið með því að kjördæmi skuli vera fæst sex en flest sjö eins og segir í brtt. er það ekki mikið svigrúm sem það veitir og bindingin felst einnig í öðru ákvæði málsins þar sem er fjöldi þingmanna, kjördæmissæta í hverju kjördæmi sem samkvæmt tillögu nefndarinnar skal vera sex. Það er hækkun um einn frá því sem var í frv. sjálfu sem kvað á um fimm kjördæmissæti hið minnsta.

Virðulegur forseti. Ég kalla eftir því hvort hv. frsm. nefndarinnar er ekki í þinginu þannig að ...

(Forseti (GÁS): Forseti hefur þegar gert ráðstafanir til þess að kalla eftir hv. þm.)

Ég vænti þess að þingmaðurinn og framsögumaður nefndarinnar hafi áhuga á að heyra sjónarmið og bregðast við þeim eftir atvikum.

Ég hef ekki farið dult með skoðun mína frá því að þetta mál fyrst kom til umræðu á mótunarstigi. Þá sat ég í þingflokki Alþb. og þar voru kynntar hugmyndir um þetta mál, og ég setti þá þegar fram gagnrýni á þær hugmyndir og ítrekaði þær áður en ég kvaddi þann þingflokk. Ég get því með mjög góðri samvisku gagnrýnt það sem hér liggur fyrir sem afurð frá nefndinni sem fjallaði um málið og þeim sem eru flutningsmenn málsins eða hafa átt þátt í að móta það með tengslum við þingflokka. Sá þingflokkur sem ég sit nú í, þingflokkur óháðra, átti ekki aðild að þeirri nefnd sem mótaði málið í upphafi og stóð ekki að flutningi frv. en kom að vissri yfirferð síðar að því er varðaði ákvæði sem snerta byggðaþátt málsins sem ég kem að síðar.

Ég hlýt að undrast, virðulegi forseti, að af jafnágætum hópi og þeim sem stendur fyrir flutningi frv. skuli koma þær tillögur sem við höfum fyrir framan okkur, sem eru svo meingallaðar í mörgum greinum að ekki er að undra þó að fólk víða um land sé steinhissa á því að á Alþingi skuli haldið á málum með þeim hætti sem um ræðir. Ég held að þeir sem mótuðu málið hafi snemma fallið í gildrur sem bundu hendur manna. Þótt látið sé að því liggja að farið hafi verið yfir málið opnum huga og ýmsir kostir athugaðir sýnist mér að tillögumenn hafi fljótlega fest sig í forsendum sem a.m.k. ég tel ótækar í máli sem þessu. Eins og hér hefur komið fram, m.a. hjá þeim sem síðast talaði í málinu, hv. þm. Ragnari Arnalds, er ein af þessum fráleitu forsendum, að mínu mati, í málinu sú að binda sig við að þingmannafjöldi í hverju kjördæmi verði sem jafnastur. Það er þessi viðmiðun sem öðru fremur hefur leitt til þeirrar niðurstöðu varðandi hugmyndir um stærð kjördæma og kjördæmamörk sem liggja fyrir í tillöguformi, þó að þau séu ekki beint til afgreiðslu, að fara að gera þetta sem einn af hornsteinum þessa máls.

Þetta leiðir til þess að menn eru komnir með hugmyndir um sex kjördæmi í landinu þó að opnað sé fyrir möguleika á endurskoðun þannig að þau yrðu sjö, sem eru eins ólík að landfræðilegri stærð og frekast má vera, sem leiðir menn út í þau ósköp að ætla að gera landfræðilegan helming Íslands að einu kjördæmi. Allur austurhelmingur landsins, ef við skiptum því niður eftir lengdarbaug, er gerður að einu kjördæmi, svæði frá Siglufirði austur um að Skeiðarársandi. Þó það væri ekki nema bara þessi staðreynd, sem blasir auðvitað við og ekki er hægt að stinga í felur, ætti það að vera nóg til þess að hverfa frá þeim grunni sem hér er fram borinn. Ég hef oft spurt mig í sambandi við þetta mál, virðulegur forseti, hvað geti leitt menn inn á svona brautir.

Nú er meðal tillögumanna frv., þeirra sem bera ábyrgð á frv., fólk sem ætti að gjörþekkja til en hitt er auðvitað ljóst að kannski skortir eitthvað á tilfinningu í þingmannanefndinni sem mótaði málið, einhverja tilfinningu fyrir hvernig Ísland er í laginu. (Gripið fram í.) Maður hneigist til að orða þetta svona í ljósi þess þegar tillögur af þessum toga koma hér fram. Þarna er það forsendan um þingmannafjöldann sem leiðir fólk á þessar villigötur, að við erum með tillögur sem hafa það að forsendu að búa til þrjú landsbyggðarkjördæmi þar sem þetta Norðausturkjördæmi, sem svo er kallað í vinnuheiti --- það eitt út af fyrir sig er alveg furðulegt heiti --- kjördæmi sem tekur til þess sem við höfum kennt við suðausturhluta landsins er í Norðausturkjördæmi, (Gripið fram í.) og mér finnst það styrkja, virðulegur forseti, mál mitt, og það segi ég vegna þessarar frammítöku í mál mitt, að það skorti eitthvað á tilfinningu fyrir landafræðinni að menn skuli leggja slíkt fram hér.

[14:00]

Og með þessari tillögu, sem hefur verið endurskoðuð, þ.e. baktillögunni varðandi kjördæmi og kjördæmamörk, sem er fylgiskjal með þessu máli og er auðvitað hægt að taka upp til skoðunar en innan þeirra ströngu marka sem verið er að draga og á að binda í stjórnarskrá. Afleiðingin verður þessi sem við blasir: Þrjú risastór landsbyggðarkjördæmi, Reykjavík, höfuðstað landsins skipt í tvö kjördæmi, sem er annar fáránleikinn frá í þessu máli, og kemur einnig til af sömu forsendunni, svipuðum þingmannafjölda í kjördæmi. Við heyrum reynda þingmenn Reykvíkinga tala í málinu til þess að lofa og prísa tillöguna vegna þess að það sé svo erfitt um vik að halda sambandi við fólk í kjördæminu þá sé það knýjandi nauðsyn að skipta höfuðstað landsins upp í tvennt sem kjördæmi. Það sé svo kostnaðarsamt að ná sambandi við fólk að ekki sé hægt annað en bregða á þetta ráð til að módelið gangi upp.

Ég er svo undrandi, virðulegur forseti, yfir því að menn skuli ekki hafa sett á eitthvert annað ráð við meðferð nefndarinnar á málinu og skilað málinu í eitthvað skárra formi inn í þingið að þessu leyti þegar það kemur til 2. umr.

Það er ekki aðeins að það skorti á tilfinningu fyrir hvernig Ísland er í laginu og íslenskri landafræði í þessum tillögum heldur eru menn líka að ganga gegn því sem ég tel að ætti að vera ákveðið grundvallarsjónarmið varðandi félagslegt kerfi í landinu. Það er nefnilega ekki hægt, virðulegur forseti, að skoða þetta mál eitt og óbundið og óháð því hvernig háttað er öðrum þáttum í félagslegri uppbyggingu í landinu á hinu stjórnsýslustiginu, þ.e. sveitarfélagsstiginu, og hvernig það hefur þróast. En þær dæmalausu tillögur sem liggja fyrir ganga þvert á það sem þar hefur verið að þróast á undanförnum áratugum. Og ekki bara á undanförnum áratugum heldur um langt skeið í sögu Íslands.

Frá því á 10. öld að fyrst er farið að skipta upp landinu í einingar í tengslum við stjórnsýslu, dóma og fleiri þætti hefur verið ákveðin afmörkun milli landshluta sem hafa gengið undir heitinu fjórðungar í gegnum aldir, Norðlendingafjórðungur og Austfirðingafjórðungur. Eins og kjördæmaskipanin hefur verið undanfarna áratugi hefur þrátt fyrir allt, þótt hún fylgi ekkert slíkri deilingu, verið tekið tillit til hennar með ákveðnum hætti þannig að kjördæmamörkin fylgdu að verulegu leyti fjórðungamörkum, þó að einstökum fjórðungum hafi verið skipt í tvö kjördæmi í a.m.k. tveimur tilvikum og reyndar fleiri.

Ég tel mjög alvarlegt, virðulegur forseti, að við séum að breyta nú kjördæmaskipan landsins sem leiðir af sér ákveðna riðlun á samstarfsgrundvelli sveitarfélaga í landinu eins og hann hefur verið að þróast á undanförnum áratugum. Nóg er nú um öryggisleysið á landsbyggðinni þó ekki sé verið að bæta við uppsetningu af þessum toga sem leiðir til þess að tengsl sem hafa þróast á milli þingmanna og sveitarstjórnarmanna víða um landið á grundvelli samstarfs sveitarfélaga innan kjördæma, að verið sé að ganga gegn þeim með þeim grófa hætti sem þessar tillögur endurspegla. Því það er ekkert tillit tekið til þessa þáttar í meðferð málsins og ekkert rætt af þeim sem bera tillögurnar fram hvaða áhrif þetta hafi.

Virðulegur forseti. Ég held að menn hefðu þurft að skoða þann þátt sem einn af grundvallarþáttum málsins, samhliða því að litið er á stöðu landsbyggðarinnar alveg sérstaklega, eins og eru orð fyrir að gert verði. En þá yrði jafnhliða horft á félagslega uppbyggingu, samstarf sveitarfélaganna í landinu.

Virðulegur forseti. Ég vil vegna þess að ég vék að fjórðungaskipan landsins og ætla að tengja það aðeins við í framhaldinu, að leyfa mér aðeins að vitna í ágætt rit sem dregur það mál aðeins fram því að ég tel fulla þörf á því að það komi fram í umræðunni. Þar vitna ég til samantektar í ritinu Íslandssaga eftir Einar Laxness, gefið út af Vöku-Helgafelli, sem alfræðibók. Þar segir, með leyfi forseta, um fjórðunga, --- ég tel að þetta sé góð samantekt, hnitmiðuð. Hún er stutt, með leyfi forseta:

,,Fjórðungur, nafn á fjórum hlutum, sem Ísland skiptist í til dómsagnar og framfærslu við fjórðungaskiptingu um 965, en þar komu landfræðileg mörk fyrst við sögu íslenskrar stjórnskipunar: Norðlendingafjórðungur (Eyfirðingafjórðungur) náði frá Hrútafjarðará að Helkunduheiði og Skoruvíkurbjargi á Langanesi, Austfirðingafjórðungur þaðan að Jökulsá á Sólheimasandi, Sunnlendingafjórðungur (Rangæingafjórðungur) þaðan að Hvítá í Borgarfirði, Vestfirðingafjórðungur (Breiðfirðingafjórðungur) þaðan að Hrútafjarðará.

Fjórðungamörkin um Hvítá fluttust til Botnsár í Hvalfirði á 13. öld; mörk Austfirðingafjórðungs og Sunnlendingafjórðungs virðast ekki hafa breyst fyrr en 1783 þegar Skaftafellssýslur voru látnar fylgja Suðuramti með Lónsheiði sem fjórðungamörk. Árið 1893 var ákveðið að Austur-Skaftafellssýsla fylgdi Austuramti; þar með myndaði Skeiðará mörk þau er síðan hafa verið milli Austfirðingafjórðungs og Sunnlendingafjórðungs

Á mörkum Norðlendinga- og Austfirðingafjórðungs, sem voru ógreinileg, var settur upp Þórshamar að fornu, samkvæmt kirknaskrá um 1200.

Mál skyldu upphaflega sótt á þingi næst vettvangi, en það gat reynst erfitt ef sækjendur voru úr öðru þingi svo að það ráð var tekið að skipta landinu í fjórðunga til dómsagnar. Fjórðungsþingum og fjórðungsdómum var komið á, en sakaraðilar skyldu ætíð vera samþinga, eiga sama sóknarþing, en væri hvor úr sínum fjórðungi skyldu mál sótt á Alþingi.

Í hverjum fjórðungi urðu þrjú vorþing nema fjögur í Norðlendingafjórðungi þar sem þeir urðu ekki á annað sáttir. Í hverju þingi voru þrír goðar. Var þeim bannað að eiga þingmenn utan fjórðunga nema með leyfi Lögréttu. Menn máttu þó færa sig yfir Hrútafjörð án þess skipt væri um þingfesti. Miðaði fjórðungaskipting m.a. að því að halda deilumálum innan héraða eins og unnt var.

Eftir 1271 var fjórðungur ekki lengur framfærslusvæði en hélst sem dómsagnarumdæmi; lögmenn voru skipaðir af konungi yfir hvern fjórðung, einn sunnan og austan og annar norðan og vestan, en síðar kosnir af fulltrúum fjórðunga á Alþingi. Jarðeigendum bar að hafa umboðsmenn í fjórðungum ættu þeir þar fasteignir en byggju þar ekki sjálfir.

Gagnvart konungsvaldinu komu fjórðungar stundum fram sem stjórnskipunarheildir, t.d. í deilum við norska konungsvaldið 1304--06, sbr. Skálholtssamþykkt (Árnesingaskrá) árið 1375. Hólabiskupsdæmi (stofnað 1106) tók yfir Norðlendingafjórðung, en Skálholtsbiskupsdæmi yfir alla hina þrjá. Fjórðungar urðu sérstök læknisumdæmi á síðari hluta 18. aldar. Á 20. öld hafa verið stofnuð sérstök landshlutasamtök kaupstaða, kauptúna og sveitarfélaga sem kenna sig við fjórðunga. Kjördæmi eru öðrum þræði miðuð við fjórðungaskiptingu (með lögum frá árinu 1959).``

Þetta er tilvitnun í Íslandssögu Einars Laxness. Ég held að gild ástæða sé til að rifja þetta upp hér.

Ég hefði, virðulegur forseti, lagt það til --- og nefndi það í 1. umræðu málsins --- að menn hefðu farið yfir þessi efni og m.a. skoðað hvort ekki væri réttmætt að halda fjórðungsmörkunum sem kjördæmamörkum. Stæði til að fækka kjördæmum að skoða þann möguleika að fjórðungarnir mynduðu í aðalatriðum grunninn í slíkum kjördæmum sem hér er talað um sem landsbyggðarkjördæmi. Þannig hefði verið tryggt í aðalatriðum að ekki væri gengið gegn þeim félagseiningum sem byggst hafa upp innan kjördæma en hægt væri sameina samtök eins og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi hefði verið á það ráð brugðið að miða kjördæmi við Norðlendingafjórðung svipað og þau mörk voru, hin gömlu fjórðungamörk Norðlendingafjórðungs.

Ég hefði líka skoðað, virðulegur forseti, að festa þessa skipan í sessi, þessa skipan sem í aðalatriðum byggði á þessum gömlu sögulegu mörkum sem eiga sér gild rök og festa það sem nýtt stjórnsýslustig í landinu, sem fylki, sem fastan vettvang í samskiptum m.a. ríkis og sveitarfélaga og byggja þar upp lýðræðislegt heimavald. Þá hefðu menn verið að skapa festu í staðinn fyrir þá sundrungu og upplausn sem verið er að bjóða upp á með þessu máli sem við ræðum hér og þeim tillögum sem því fylgja.

Ég hef gengið lengra í hugsun minni, virðulegur forseti. Á þessum grunni, hefðu menn komist að því að réttmætt væri að taka upp þriðja stjórnsýslustigið, þá hefði ég verið tilbúinn til að skoða þá hugmynd af alvöru að gera landið allt að einu kjördæmi til Alþingis. Þá hefðu menn haft fjórðungsþing eða fylkisþing sem lýðræðislega kjörinn vettvang en Alþingi sem færi með málefni landsins alls. Ég held að það hefði verið lánlegra en það óbermi sem við fjöllum um sem grunn að þessum tillögum. Ég hef orðið var við það í umræðu fólks, m.a. á Austurlandi en einnig víðar, að menn hefðu verið opnir fyrir tillögum af þessu tagi og átt mun betra með að skilja rökrænt samhengi í slíkum tillögum en í því sem hér liggur fyrir.

[14:15]

Rökleysan að baki forsendunum í þessu máli, í forsendum eins og þeim að það sé eitthvert markmið í sjálfu sér að þingmannafjöldi sé svipaður í öllum kjördæmunum. Röksemdafærslan er nánast engin, þetta er sett svona fram ,,af því bara``. Sagt er að það módel sem hér er fram lagt leiði til þess að jöfnunarsæti geti verið einhverju færri, ætli ekki svona fjórum færri en ella. Hvaða rök eru það í máli sem þessu? Það eru gervirök að mínu mati, virðulegur forseti. Í stað þess að búta Ísland niður í kjördæmi eins og hér er um að ræða hefðum við staðið með fastan grunn sem tryggði samstarfsgrundvöll fyrir sveitarfélögin, gæfi möguleika á að festa fylkjaskipan í landinu þó að ekki hefðu verið skilyrði og síðan hefðum við haft landið allt sem eitt kjördæmi og losnað við þetta eilífðarþras um vægi atkvæða að baki þingmanni sem er endalaus olía á eld umræðunnar, sjónarmið sem hafa að mínu mati ekki verið gild eins og málið hefur verið vaxið þó að ég sé stuðningsmaður þess að gæta hófs í misvægi í sambandi við vægi atkvæða til þess að koma til móts við sjónarmið sem eru gild á sinn hátt. Á þá forsendu endurskoðunarinnar gat ég fallist og hef tekið undir eða ekki hafnað að menn leituðust við að draga úr því misvægi sem þar hefur þróast í kjölfar búferlaflutninga í landinu.

Virðulegur forseti. Ég tel að þessi grundvallarviðhorf af minni hálfu eigi að vera komin til skila en ég vil draga það aðeins betur fram að það sem verið er að festa með þessari stjórnarskrárbreytingu er fjöldi kjördæmanna og það er lágmarksfjöldi kjördæmasæta, sem svo eru kölluð, miðað við sex og það er þessi binding sem bindur hendur Alþingis og dregur úr möguleika á sveigjanleika við endurskoðun kosningalaga á næsta þingi. Þess vegna er málið mjög afdrifaríkt hvað framhaldið snertir. Það verður greinilega á þessum grunni hvernig sem sjónarmið verða á næsta þingi, ef menn ætla að byggja á þeim stjórnarskrárákvæðum sem hér er stefnt að að lögfesta, þá eru menn bundnir af þessum forsendum. Þá geta menn ekki brugðið á það ráð, sem ég gæti trúað að ýmsir vildu sem halda á málum á næsta þingi, að miða kjördæmin við hóflegri landfræðilegar einingar en hér er um að ræða, t.d. að hafa Austurland ekki stærra en hinn forna Austfirðingafjórðung sem við vorum að rifja upp áðan að náði frá Helkunduheiði við Langanes og frá Langanesi að Jölulsá á Sólheimasandi, en það er útfærsla á núverandi Austurlandskjördæmi sem ég hef verið opinn fyrir og hef talið að gæti komið til greina. En það svæði gefur ekki sex þingmenn og mun ekki gera miðað við þær forsendur sem menn eru að setja um vægi atkvæða. Það gefur ekki sex þingmenn og þar með eru menn að útiloka slíka endurskoðun með því að binda þetta í stjórnarskrá. Ég hef ekki reiknað það nákvæmlega en mér sýnist að það mundi gefa fjóra og ég segi: Það er ekkert við það að athuga. Ég sé ekki nokkurn skapaða hlut við það að athuga að þingmenn á eystri hluta landsins, í Austfirðingafjórðungi, Austurlandskjördæmi, væru fjórir en ekki níu eða ellefu eða hvað það nú er sem þessi heilaga forsenda tekur mið af, jafna skiptingu. Ég andmælti þessum viðhorfum og benti á þessi rök í þingflokki Alþb. á sínum tíma en ekki var mikið á það hlustað. En ég var ekki einn um það að gagnrýna þessar forsendur. Það mátti heyra á máli síðasta ræðumanns sem situr enn í þingflokki Alþb. Hann gagnrýndi hliðstæð atriði og mörg önnur sem ég tek í raun undir og get gert að mínum í sambandi við persónukjör þar sem nefndin skilar alveg auðu í sambandi við það stóra mál og ætlar mönnum að búa við þau ósköp sem rædd hafa verið í umræðunni og menn hafa verið að upplifa á síðustu mánuðum einn ganginn enn í formi prófkjöra í alls konar útgáfum þar sem verið er að raða mönnum á garðann, ef svo má segja, eftir leikreglum sem ekki verða taldar hálýðræðislegar út frá þeim forsendum sem menn eru að ræða kjördæmamál að öðru leyti. Á þetta hefur verið réttilega minnt í umræðunni.

Annað atriði sem hefur verið gagnrýnt, alveg réttilega að mínu mati, er sá þröskuldur sem verið er að setja og sá réttur sem þar með er verið að taka af allt að 10 þúsund manns í landinu, eitthvað nálægt þeirri tölu, að eiga það sæmilega öruggt að geta eignast fulltrúa á Alþingi Íslendinga og skiptir þá engu hver í hlut á. Dæmin eru ljós úr fortíðinni hvað þarna er á ferðinni og hversu fráleitt er að ætla að setja inn svo háa þröskulda í sambandi við möguleika fólks til að eiga fulltrúa sinna sjónarmiða inni á Alþingi Íslendinga. Þetta mundi blasa skýrar við ef niðurstaðan hefði orðið sú að landið allt yrði eitt kjördæmi. Þá hefði þessi staðreynd blasað ljósar við og kannski verið erfiðara um vik að knýja fram ákvarðanir af þeim toga sem stefnt er að í þessum efnum.

Síðan er það, virðulegur forseti, sem eru tengslin við byggðamálin. Ég vil segja alveg hreint út að ég hef ekki verið meðmæltur þeirri hugsun að menn væru að ræða þetta stóra mál, um stjórnskipun landsins, með þann þátt málsins á bakinu eða sem tengdan við þetta mál. Þá er ég ekki að draga úr þörfinni á að taka á byggðamálum og þeim hrikalega vanda sem þar blasir við en er í rauninni allt of lítið í umræðu og hvað þá þegar litið er til aðgerða. Mér finnst ekki farsælt að vefja þann þátt málsins eða reyna að koma honum í einhvern búning og hengja aftan í þennan vagn sem er í rauninni allt annars eðlis þó að röksamhengið, þ.e. á milli fulltrúakjörsins úti á svæðunum og möguleikana til að hafa áhrif á stjórnsýsluna og stjórnarathafnir á höfuðborgarsvæðinu, það er hægt að hlusta á þau rök en mér finnst þau ekki mjög gild inn í þessa umræðu.

Ekki ætti að þurfa einhverja sérstaka meðgjöf eða tengsl af þessum toga til þess að tekið sé á byggðamálum af stjórnvöldum í landinu og Alþingi Íslendinga. Ég held að það viðfangsefni ætti að standa alveg fyrir sínu og sú brýna þörf sem þar er að taka á málum ekki að dyljast nokkrum manni í landinu. Ég er ekki þar með að hafna því að það verði gert ef ekki er annað í boði en að reyna að binda þessa þætti í einn pakka en mér sýnist að þau bönd ætli að verða harla ótraust eins og málið liggur fyrir. Hér eru engar tillögur sem hægt er að taka afstöðu til þegar málið verður afgreitt eftir 2. umr. Í raun er einnig skilað auðu í því máli. Þar er ástandið hins vegar þannig að Alþingi ætti ekki að vera af neinu meira upptekið þessa mánuðina en að fjalla um það skelfilega ástand sem blasir við víða á Íslandi í sambandi við aðstöðu fólks og viðbrögð fólks við þeirri gífurlegu mismunun sem fólkinu í landinu er búin af landsstjórninni og Alþingi Íslendinga með ákvörðunum sem það tekur.

Þetta er svo alvarlegt mál, virðulegur forseti, að við megum engan tíma missa til þess að bregðast við með þeim ráðum sem við höfum í höndum okkar á Alþingi og sem ríkisvaldið ræður yfir. Að bregðast við þeirri mismunun sem felst í grundvallaraðstöðu fólks til þess að lifa lífinu í landinu þannig að ekki blasi við ókjörin sem fólki víða um land eru búin varðandi grundvallarþætti í opinberri þjónustu, í tilkostnaði, við grunnþætti eins og upphitun híbýla sinna og annað af þeim toga sem hrópar í himininn. Þetta er orðið svo brothætt að það þolir enga bið að á þessu sé tekið.

Þessi vandi verður ekki leystur með patentráðum, með því að vísa á fólk úti í heimi og segja: Komið hingað og byggið upp álbræðslu eða eitthvað þess háttar eins og fært hefur verið í umræðuna í kjördæmi mínu og á allan vanda að leysa og allt hangir á bláþræði á sama tíma og menn sitja í ríkisstjórn og hafast lítið að til þess að leysa þann vanda sem nærtækur er, á sama tíma og hugmyndin um lausn á atvinnumálum utan úr heimi fjarlægist með hverjum deginum sem líður. Það á að líta á vanda byggðanna í landinu, vanda misvægisins í landinu og óréttlætisins í landinu út frá almennum forsendum en ekki út frá töfralausnum eða kraftaverkum sem við Íslendingar höfum í rauninni engin tök á að gera að veruleika. Von er að ýmsir í stjórnarliðinu fórni höndum yfir þeim tálsýnum sem þar er verið að byggja upp af stjórnvöldum. Hvað þegar tálsýnin hverfur, hver eru þá skilaboðin? Þau eru væntanlega þessi: Takið til fótanna, því það var þetta sem átti að leysa málið.

Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að nefna þessi atriði í tengslum við þennan þátt sem verið er að tengja inn í þetta mál stjórnskipunar á Íslandi, að mínu mati ekki með skýrum rökum. Þetta er í rauninni kvalastillingarlyf sem verið er að reiða fram. Það er verið að reyna að draga úr áhyggjum fólks yfir afkomu sinni og stöðu (HjálmJ: Ópíum fyrir Austfirðinga.) með slíkum inngjöfum. Ópíum fyrir Austfirðinga, segir geistlega lærður fulltrúi í þinginu úr stjórnarliði. Það má alveg kalla það það. En þetta ópíum hefur verið reitt fram víðar. Norðlendingar hafa fengið skammt af því og eru reynslunni ríkari. (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Við erum að ræða mjög alvarlegt mál sem er frv. til stjórnarskipunarlaga þar sem það er lagt í vald almenna löggjafans eins og segir í nál. að ákveða hlutina. Við erum víst þessi almenni löggjafi. Ég veit ekki hvar hinn löggjafinn er en kannski finnst hann. Ég tel að þetta mál sé ekki þroskað til ákvörðunar eins og hér er stefnt að. Ég tel að fæturnir undir þessu máli séu ekki traustir og ég hef orðið var við það á mörgum undanförnum mánuðum að fólk hefur þungar áhyggjur af þeim ákvörðunum sem eru í aðsigi á Alþingi Íslendinga. Ég hef eitt dæmi fyrir framan mig sem ég ætla að leyfa mér að vitna til, sem er ályktun frá bæjarstjórn Hornafjarðar, eftirfarandi bókun, samþykkt 5. nóv. 1998 með 11 samhljóða atkvæðum:

[14:30]

,,Bæjarstjórn Hornafjarðar hvetur Alþingi Íslendinga til að leita umsagnar sveitarfélaga og íbúa í landinu áður en breytt kjördæmaskipan er fest í sessi.``

Þetta er undirritað af þáv. bæjarstjóra Sturlaugi Þorsteinssyni sem kemur þessu sjónarmiði á framfæri við þingmenn, Alþingi allt og ríkisstjórn. Mér sýnist að það hefði verið og sé enn full þörf á því að hlusta á fólk utan þings í þessu máli. Ég sé ekki að sá meiri hluti sem virðist vera að baki þessu frv. hafi náð skynsamlegum áttum í þessu grundvallarmáli sem varðar stjórnarskrá lýðveldisins og félagslegar leikreglur í samfélaginu í sambandi við Alþingi og einnig í sambandi við samskiptin við fólkið og sveitarfélögin í landinu.

Því er það viðhorf mitt, virðulegur forseti, að ég get ekki stutt þær meginuppistöður sem hér er meiningin að lögfesta vegna þess að þær eru rangar. Þær eru ekki traustar til framtíðar og ekki til heilla og mitt ráð er það, virðulegur forseti, að Alþingi hrapi ekki að því að lögfesta þessar breytingar á stjórnarskrá sem binda hendur komandi þings og komandi kjörtímabils með þeim hætti sem hér er að stefnt.