Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 15:32:33 (3515)

1999-02-11 15:32:33# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[15:32]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til stjórnarskipunarlaga ásamt nál. og brtt. sem fyrir liggja sem eru afrakstur þeirrar vinnu sem stjórnarskrárnefndin hefur innt af hendi. Nú þegar hafa farið fram nokkrar umræður um þetta mál eins og vænta mátti. Við 1. umr. gerði ég grein fyrir afstöðu minni til málsins en ég hef setið í þeirri nefnd sem hefur fjallað um málið á milli 1. og 2. umr., svokallaðri stjórnarskrárnefnd, þannig að ég hef haft tækifæri til að fara mjög vandlega og rækilega yfir alla þætti þess. Umræður um málið hafa að sjálfsögðu orðið mjög verulegar og sérstaklega hafa menn rætt um breytingarnar á stærð kjördæmanna, um mismunandi vægi atkvæða og deilt nokkuð um það. Í nágrannalöndum okkar er viðurkennt, eins og hefur verið hér og er samkvæmt þeim tillögum sem fyrir liggja og nál., að sami fjöldi þingmanna geti ekki verið í öllum kjördæmum. Þrátt fyrir mismunandi fjölda íbúa og mismunandi landsstærð kjördæmanna þá verði að líta til þeirra aðstæðna. Þess vegna verður nokkurt misvægi atkvæða. Þetta er viðurkennt og í þessu frv. er það gert.

Hins vegar er augljóst að breytingar á kjördæmaskipaninni hljóta að vera nátengdar því viðfangsefni að skipa málum stjórnsýslunnar þannig að hún gagnist landsmönnum öllum sem best, og að þingmenn kjördæmanna, hvar sem þeir eru, geti unnið að hagsmunamálum kjördæma sinna og þeim sé gert það sem léttast.

Við 1. umr. málsins lýsti ég verulegum efasemdum um þær tillögur sem nefndin sem vann að málinu hafði lagt fram og ég gerði margvíslegar athugasemdir við þær tillögur. Ég lýsti þeirri skoðun minni að ég teldi mjög vafasamt að hafa kjördæmin svo stór, með því væri starf þingmanna gert óeðlilega erfitt. Ég taldi og tel enn að of mikið hafi verið gert úr hinu svokallaða misvægi atkvæða. Ég hef í þessum umræðum öllum lagt á það megináherslu og geri það hér enn, herra forseti, að aðalatriði við skipan laga um kosningar og kjördæmaskipan er að á Alþingi endurspegli fjöldi þingmanna hvers flokks það fylgi sem hann hefur í kosningum. Allt gengur þetta jú út á það að hér á Alþingi sé málum fylgt fram á grundvelli hugmyndafræði, á grundvelli sjónarmiða sem flokkarnir og einstaklingar innan flokkanna endurspegla og forustumenn flokkanna eru höfuðtalsmenn fyrir. Þess vegna hef ég lagt mikla áherslu á það grundvallaratriði sem er það að á þinginu endurspegli fjöldi þingmanna hvers flokks það fylgi sem hann fær í kosningum.

Ég gerði mér strax grein fyrir því þegar málið var flutt hér í þinginu að mikill meiri hluti var fyrir því hér að þær breytingar yrðu gerðar sem eru til umfjöllunar á grundvelli frv. Forustumenn flokkanna fluttu frv. og það var ljóst frá upphafi að þeir höfðu til þess mikinn og öflugan stuðning. Þegar ég tók sæti í stjórnarskrárnefndinni gerði ég mér því grein fyrir að meginverkefni mitt í nefndinni yrði að gera þær breytingar sem ég taldi að væru mikilvægar. En ég gerði mér jafnframt grein fyrir því að mér mundi ekki takast að breyta frv. í neinum grundvallaratriðum þannig að ég hef gengið út frá því sem staðreynd að ekki væri um það að ræða að gerðar yrðu grundvallarbreytingar heldur væri mikilvægasta verkefni stjórnarskrárnefndarinnar að lagfæra frv. Sérnefndin fór mjög vandlega yfir frv. eins og það lá fyrir og gerð hefur verið grein fyrir þeim tillögum sem nefndin gerir í nál. og í ræðu framsögumanns fyrir nál.

Þær breytingar sem hér eru gerðar tel ég hins vegar mjög mikilvægar. Þær eru eins og hér hefur komið fram og gerð hefur verið grein fyrir í fyrsta lagi sú breyting að tillögu nefndarinnar að kjördæmin verði flest sjö, þ.e. að hægt sé að fjölga kjördæmum úr sex í sjö. Ég tel að þetta sé afar mikilvæg brtt. sem hér er lögð fram. Og hvers vegna er það? Jú, það er vegna þess að með því að hafa þessa opnun, að fjölga kjördæmum, getum við gert breytingu ef reynslan sýnir okkur að kjördæmin séu of stór, þau séu of umfangsmikil til að hægt sé með góðu móti að vinna fyrir þau og því tel ég að þessi breyting sé afar mikilvæg og sé opnun sem skapi möguleika. Ég óttast raunar að í ljós komi að breytingin verði ekki hagstæð hinum dreifðu byggðum. Hins vegar lít ég svo á að auðvitað þurfi að gera allt sem hægt er til að breytingin nái fram að ganga og það er ekki nein ávísun á andstöðu eða tilraunir af minni hálfu til að gera þetta skipulag verra en það er þó að ég leggi svo mikla áherslu á að þessi breyting nái fram að ganga.

Gerð er tillaga um að í hverju hinna sex kjördæma verði að lágmarki sex þingmenn kjörnir auk jöfnunarmanns í staðinn fyrir fimm eins og frv. og tillögurnar gerðu ráð fyrir. Þetta tel ég að sé mikilvæg breyting og fagna því að sátt skyldi hafa náðst um hana. Hún er mikilvæg og ég tel að það sé kannski merki um hversu langt menn hafa þrátt fyrir allt viljað seilast til samkomulags að þetta skuli hafa náð fram að ganga.

Einnig vil ég draga sérstaklega fram og það skiptir mjög miklu máli, þ.e. að bráðabirgðaákvæðið sem frv. gerði ráð fyrir er fellt brott þannig að kosið verður eftir óbreyttum reglum um fjölda þingmanna í kjördæmum þrátt fyrir að byggðaþróun yrði önnur en við skulum vona að verði. Árið 2003 verður því kosið eftir því kerfi sem við erum að fjalla hér um hvað varðar fjölda þingmanna í einstökum kjördæmum. Ég tel að þetta skipti líka mjög miklu máli því að þessar breytingar taka auðvitað tíma. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að nokkur ár þarf til að taka þessum breytingum og endurskipuleggja alla hluti í samræmi við þær. Ég tel því að þetta sé eðlileg breyting og fagna því einnig að samkomulag skuli hafa náðst um hana.

Í tillögum þeirrar nefndar sem vann þessar breytingar sem liggja til grundvallar frv. sem forustumenn flokkanna hafa flutt er gert ráð fyrir tilteknum hliðarráðstöfunum, þ.e. hliðarráðstöfunum sem ganga út á það að bæta stöðu byggðanna í félagslegu tilliti m.a. Ég tel að það sé út af fyrir sig mjög mikilsverð yfirlýsing sem felst í því en ég hef hins vegar sagt sem svo að við þurfum að ganga frá skipulagi kjördæmanna og koma á lögum um kosningar án þess að spyrða það algerlega saman við nauðsynlegar hliðarráðstafanir til að bregðast við þróun í byggð landsins. Við megum ekki spyrða það saman og gera að aðalatriði. Hins vegar tel ég að það sé mjög mikilvægt einmitt núna, samhliða þessum breytingum á kjördæmaskipaninni og kosningalögunum, að ganga fram á grundvelli þeirrar byggðaáætlunar sem hér liggur fyrir sem tillaga og við höfum auðvitað gert ráð fyrir að unnið yrði eftir, en einnig að ganga fram til þess að tryggja það að spá hinna svartsýnustu manna um þróun byggðar í landinu sem gæti leitt til þess að þingmönnum fækkaði í hinum einstöku kjördæmum á landinu, gangi ekki eftir, að snúið verði vörn í sókn. Ég tel að þær aðgerðir á sviði byggðamála sem forsrh. hefur undirbúið og lagt áherslu á eigi að geta orðið svo öflugar að þær dugi til þess að koma í veg fyrir að þessar breytingar á fjölda þingmanna vegna byggðaþróunar verði nokkurn tíma að veruleika. Á þetta vil ég leggja sérstaka áherslu.

[15:45]

Í þeim hliðarráðstöfunum sem rætt er um hefur verið talað um að starfsaðstæður þingmanna þurfi að batna. Út af fyrir sig er það rétt og ég get tekið undir það og ber að fagna því ef á því verður tekið. En ég legg áherslu á að þó að það sé mikilvægt og nauðsynlegt þá getur það aldrei orðið neitt aðalatriði eða ráðið neinum úrslitum um það hvort við breytum kjördæmaskipaninni eða ekki. Ég fagna hins vegar þeim hugmyndum sem þar eru uppi.

Herra forseti. Að lokum vil ég aðeins gera að umtalsefni það sem hefur komið fram bæði í bréfi til þingsins og einnig í fjölmiðlum. Það hafa komið mjög sterkar athugasemdir frá Reykjavíkurborg. Borgarstjórinn hefur skrifað bréf þar sem hún lýsir áhyggjum sínum og telur að brýnasta réttindamál þjóðarinnar um þessar mundir sé að draga úr misvægi atkvæða. Síðan hefur komið fram að fulltrúar Reykjavíkurborgar leggjast gegn því að skipta Reykjavíkurborg upp í tvö kjördæmi.

Út af fyrir sig eru þetta skiljanlegar athugasemdir en ég vil bara að það komi fram hér af minni hálfu að ef fallið verður frá því að Reykjavíkurborg, höfuðborgarsvæðið, verði tvö kjördæmi þá er auðvitað í grundvallaratriðum fallið frá þeim sjónarmiðum sem allt verkið hefur gengið út á, þ.e. að fjöldi þingmanna í kjördæmum verði sem jafnastur. Þær hugmyndir sem koma frá forustufólki Reykjavíkurborgar eru því tillögur um að breyta þessu í grundvallaratriðum og koma í veg fyrir þær breytingar sem frv. felur í sér. Ég hlýt að láta þetta koma fram og lýsa andstöðu við þær kröfur og þær tillögur sem hafa komið fram frá borginni um þetta efni.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir samstarf við fulltrúa í stjórnarskrárnefndinni og þakka fyrir að þær breytingar skuli hafa náðst fram sem ég gerði hér að umtalsefni. Þær bæta þetta mál en þær leysa ekki úr öllum göllum þess. Aðalatriðið hlýtur að vera að við vinnum þannig að við reynum að sjá til þess að þessi kerfisbreyting auðveldi okkur það erfiða og vandasama viðfangsefni sem er að vinna að hagsmunamálum landsmanna allra og ekki síst að vinna gegn óæskilegri þróun í byggðamálum.