Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 16:25:34 (3519)

1999-02-11 16:25:34# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[16:25]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það var mjög athyglisvert að heyra sjónarmið þingmanns sem er nú einn af helstu forustumönnum hins nýja rísandi stjórnmálaafls. Það kom skýrt fram hjá hv. þm. að ekki væri um að ræða samkomulag til lengri tíma sem menn eru að reyna að gera um skipan þessara mála heldur lýsti þingmaðurinn því rækilega yfir að aðeins væri um að ræða áfanga til þess að draga enn frekar úr áhrifum landsbyggðarinnar á Alþingi og fagnaði því sérstaklega að nú yrði léttara að draga úr höndum landsbyggðarmanna áhrifin með þessu frv. því ekki þyrfti stjórnarskrárbreytingu hér eftir, heldur nægðu breytingar á lögum. Þetta er viðhorf sem er rétt að menn taki eftir að eru uppi af hálfu forustumanna hins nýja stjórnmálaafls, að samkomulagið er ekki samkomulag. Það er aðeins áfangi til að geta svo strax og búið er að fullnusta þetta og gera að lögum, hafið næstu lotu til að rýra enn frekar hlut landsbyggðarinnar. Það er rétt að mönnum sé þetta ljóst.

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þm. hvort hann styðji að Reykjavík verði tvö kjördæmi eða eitt kjördæmi. Ég áttaði mig ekki á því í ræðu þingmannsins hvora skoðunina þingmaðurinn hefur þótt hann eigi að heita einn af flm. nál. og tillögu um að samþykkja frv. Ef þingmaðurinn er þeirrar skoðunar að Reykjavík eigi að vera tvö kjördæmi er auðvitað fallin brott meginforsenda þess að breyta kjördæmamörkum að öðru leyti.