Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 16:33:26 (3523)

1999-02-11 16:33:26# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[16:33]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. ræddi um viðbrögð borgaryfirvalda í Reykjavík við þessum tillögum og þau viðbrögð eru þekkt. Mér fannst á máli hv. þm. að hún teldi eðlilegt að gefa fulltrúum borgarinnar tækifæri til að hitta nefndina og út af fyrir sig er það gott mál og eðlilegt. En ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. hvort hún sé tilbúin að fallast á það og jafnvel beita sér fyrir því að fulltrúar annarra sveitarfélaga á landinu, og jafnvel aðrir aðilar, fái að hitta nefndina til að fjalla um þessi mál því að eins og fram hefur komið er mjög mikil andstaða við þessa tillögu víða um land. Og eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði hefur ekki borið á jákvæðum röddum gagnvart þessum tillögum. Ég vil því af þessu tilefni spyrja hv. þm. hvort hún telji það eðlilegt og hvort hún sé ekki tilbúin að beita sér fyrir því að kalla fleiri aðila en fulltrúa Reykjavíkurborgar til að ræða þessi mál, fulltrúa sem hafa lýst verulegri andstöðu við tillöguna.