Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 16:47:46 (3526)

1999-02-11 16:47:46# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[16:47]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er stórt og mikið mál til umræðu, mál sem varðar grundvöll lýðræðis okkar. Og það er ljóst að framvinda þessara mála mun hafa mikil áhrif á mjög mörgum sviðum til framtíðar litið.

Stjórnmálaflokkarnir sem og núverandi ríkisstjórn hafa stefnt að því að gera breytingar á kosningalöggjöfinni með það að markmiði að draga úr misvægi atkvæða milli dreifbýlli landsvæða og þéttbýlisins hér á suðvesturhorninu. Þær tillögur sem hér eru ræddar, þau frumvörp sem hér eru rædd, eru til komnar vegna þessa.

Sú nefnd sem hefur starfað að þessu máli og unnið þær tillögur sem hér liggja fyrir hefur unnið mikið starf og ég tel ástæðu til að þakka nefndinni fyrir það enda liggja fyrir ýmis gögn og upplýsingar úr starfi hennar sem eru um margt fróðlegar og upplýsandi. En það er ljóst að þegar gera á breytingar á þessum grundvallaratriðum verður seint mögulegt að ná fullri sátt meðal þjóðarinnar og stjórnmálamanna um þær. En hins vegar þarf að ná niðurstöðu í málinu og nú stefnir í að henni verði náð því að ljóst er að tekist hefur að ná breiðri samstöðu um þessa tillögu meðal þingmanna.

Ég hef verið sammála því að ráðist verði í beytingar á kosningalöggjöf þannig að draga megi úr því misvægi atkvæða sem nú hefur myndast miðað við það fyrirkomulag sem við höfum búið við, en til þess eru ýmsar leiðir eins og fram hefur komið.

Herra forseti. Þótt þetta mál sé það margþætt og mikilvægt að ástæða væri til að ræða einstaka þætti þess ítarlega ætla ég fyrst og fremst í máli mínu að ræða þær tillögur sem fjalla um breytingar á kjördæmaskipaninni vegna þess að ég hef kannski fyrst og fremst athugasemdir við þann þátt málsins.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir grundvallaruppstokkun á skipan kjördæma. Landsbyggðarkjördæmunum verður fækkað með því að slá þeim saman á einn eða annan veg. Með þessu er verið að mynda mjög stórar og víðfeðmar einingar sem ná yfir nánast hálft landið svo vísað sé til kjördæmisins sem myndað verður með sameiningu Norðurl. e. og Austurlandskjördæmis ásamt Siglufirði.

Ég geri ráð fyrir því að t.d. þingmenn Austurlandskjördæmis geti lýst því hvaða erfiðleikar felast í að komast yfir að sinna því kjördæmi eins og það er nú og halda nauðsynlegum tengslum við kjósendur þar. En nú er lagt til að stækka Austurlandskjördæmi enn frekar og ég væri ekki undrandi þótt þingmönnum Austurlands fallist hendur við tilhugsunina um að sinna því kjördæmi eins og þyrfti að vera allt frá Öræfum norður til Siglufjarðar.

En í þessum tillögum felst einnig að Vesturlandskjördæmi, Vestfjarðakjördæmi og Norðurl. v., að Siglufirði undanskildum, verði sameinuð í eitt kjördæmi. Af þeirri reynslu sem ég hef fengið á þessu kjörtímabili af því að vinna að fjölmörgum hagsmunamálum fólks og aðila í Vesturlandskjördæmi og að halda uppi tengslum við kjósendur þá hef ég ekki áttað mig á því hvernig slíkt á að vera mögulegt í hinu nýja sameinaða kjördæmi svo að vel sé. Það er ljóst í mínum huga að nauðsynleg tengsl þingmanna og kjósenda í slíku kjördæmi munu rofna að miklu leyti miðað við það sem nú er. Það er slæmt því að þingmenn eru jú fulltrúar fólksins í kjördæminu hér á Alþingi og því hlýtur að vera mikilvægt að þeir geti með sæmilegu móti haldið uppi tengslum við kjósendurna, en með nýrri skipan kjördæma tel ég að það verði mjög erfitt.

Núverandi kjördæmaskipan leggur grunn að skipulagi veigamikilla þátta stjórnsýslunnar og opinberrar starfsemi. Það sama á við um starfsemi og samstarf sveitarfélaganna í landinu og einnig má nefna að innan núverandi kjördæma hafa myndast félagslegar heildir í ýmsum skilningi. Með breyttri kjördæmaskipan má gera ráð fyrir að verulegar breytingar verði á þessum þáttum þegar fram í sækir. Um það hefur lítið sem ekkert verið fjallað og algjör óvissa ríkir um þessa þætti að mínu viti. Þetta hlýtur að skapa töluverða óvissu í hugum landsbyggðarfólks því víða skiptir opinber stjórnsýsla og opinber starfsemi miklu máli í atvinnulegu og byggðalegu tilliti. Ég tel þá óvissu sem skapast hefur vegna þessara breytinga ekki gott innlegg í þá umræðu sem uppi hefur verið varðandi málefni landsbyggðarinnar og þá búsetuþróun sem þar hefur verið.

Þá er það mín skoðun að ekki liggi landfræðileg rök að baki þessum tillögum. Einnig vil ég nefna að eins og samgöngum á landi er háttað þá hlýtur að þurfa að taka mikið á við að byggja upp vegasamgöngur innan nýrra kjördæma þannig að íbúarnir innan þeirra sem heildar geti ferðast um sæmilega vegi. Það er kannski rétt að nefna það sem reyndar hefur komið fram í þessari umræðu, að samhliða tillögum nefndarinnar sem lauk sínum störfum sl. haust, var lagt til að unnið yrði að tillögum um svokallaðar hliðarráðstafanir, þ.e. til hliðar við þetta mál. Þar er m.a. fjallað um vegamál þannig að ég vænti þess að fyrr en síðar komi fram tillögur um að tekið verði á í þessum efnum.

Fleira mætti nefna varðandi þær tillögur sem fyrir liggja um breytta kjördæmaskipan. Ég hef verið þeirrar skoðunar að núverandi kjördæmaskipan ætti að vera óbreytt. En til þess að ná fram markmiðunum um að draga úr misvægi atkvæða ætti frekar að fækka þingmönnunum í núverandi kjördæmum á landsbyggðinni, fyrir utan Norðurl. e., sem ég tel að ætti að vera óbreytt. Það ætti að fækka þingmönnunum um einn og færa þá til kjördæmanna í þéttbýlinu á suðvesturhorninu. Kjördæmin eins og þau eru nú tel ég mun eðlilegri og viðráðanlegri einingar að öllu leyti en þau kjördæmi sem tillögurnar gera ráð fyrir.

Herra forseti. Ég hef rætt þessi mál við fjölmarga aðila í Vesturlandskjördæmi og það hafa komið fram ályktanir úr kjördæminu um þessar tillögur. Ég hef ekki heyrt þær raddir sem sætta sig við þessa tillögur. Þvert á móti dreg ég þá einföldu ályktun að almenn andstaða sé meðal Vestlendinga gegn þessum tillögum um breytingar á kjördæmaskipan. En þessari umræðu og mótun afstöðunnar til þessara tillagna tengist auðvitað umræðan um byggðamál almennt og um hin mismunandi búsetuskilyrði sem fólkið í landinu býr við eftir landsvæðum.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að lesa ályktun sem hefur borist frá héraðsnefnd Snæfellinga frá því í nóvember sl. og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur héraðsnefndar Snæfellinga, haldinn í Stykkishólmi sunnudaginn 15. nóvember 1998, mótmælir fram komnum tillögum að breyttri kjördæmaskipan sem settar hafa verið fram af nefnd um endurskoðun kjördæmaskipunar og tilhögun kosninga til Alþingis. Aðalfundurinn telur að landsbyggðarkjördæmin verði of stórar einingar landfræðilega.

Aðalfundur héraðsnefndar Snæfellinga telur að mannréttindi felist í fleiri þáttum en jöfnun atkvæðisréttar. Aðalfundurinn lýsir undrun á þeirri einhæfu áherslu sem nú er lögð á jöfnun atkvæðisréttar og telur að ekki megi líta fram hjá öðrum aðstöðumun sem landsmenn búa við.

Aðalfundur telur að tillögur um jöfnun atkvæðisréttar og breytingu á kjördæmaskipun verði að skoða í ljósi annarra ráðstafana til að styðja og styrkja búsetu á landsbyggðinni. Aðalfundurinn skorar á stjórnvöld að jafna aðra þætti samhliða jöfnun atkvæðisréttar, svo sem aðgengi til náms, kostnað við framhaldsskóla- og háskólanám, samgöngur, húshitunarkostnað, aðgengi að opinberri og almennri þjónustu, flutningskostnað og fleira.

Aðalfundur héraðsnefndar Snæfellinga telur jöfnun á aðstöðumun landsmanna í þessum efnum skilyrði fyrir jöfnun atkvæðisréttar.``

Undir þessa ályktun skrifar formaður héraðsnefndar Snæfellinga, Ásbjörn Óttarsson.

Herra forseti. Ég taldi rétt að koma þessari skoðun Snæfellinga á framfæri í þessari umræðu því að hún endurspeglar kannski frekar en annað þær áhyggjur sem sveitarstjórnarmenn úti á landsbyggðinni hafa af byggðamálunum sem tengjast óneitanlega þessari umræðu.

Ég ætla líka, með leyfi forseta, að vitna í ályktun sem ég las í Morgunblaðinu í dag frá Félagi sjálfstæðismanna í Borgarfjarðarsýslu. Þó svo að ég ætti nú kannski ekki að taka að mér að koma því á framfæri þá ætla ég samt að leyfa mér að lesa kafla úr þessari ályktun sem varðar þetta mál. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Almennur félagsfundur í Félagi sjálfstæðismanna í Borgarfjarðarsýslu mótmælir harðlega fyrirhugaðri kjördæmabreytingu og skorar á þingmenn kjördæmisins að neyta allra leiða til að koma í veg fyrir það slys sem slík kjördæmabreyting er.``

Herra forseti. Þetta eru svona sýnishorn af þeim ályktunum og álitum sem fram hafa komið frá aðilum úti um landið og er auðvitað nauðsynlegt að hv. þingmenn komi á framfæri í þessari umræðu.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli landsbyggðarfólks sérstaklega á því að talsmenn krata og samfylkingar, t.d. formaður Alþfl. og aðrir forustumenn samfylkingar, hafa sagt að þessar tillögur sem hér liggja fyrir um fækkun kjördæma séu góðar að því leyti að verið sé að stíga skref að því að gera landið allt að einu kjördæmi. Mín skoðun er sú að ef sú krataleið verði farin þá muni alvarlega syrta í álinn fyrir landsbyggðina. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvernig hlutirnir mundu þróast við slíkar aðstæður því ljóst er að flestir þingmenn kæmu frá fjölmennustu svæðunum og hinar dreifðari byggðir mundu smám saman verða tengslalausar við fulltrúana á löggjafarsamkundunni. Í stuttu máli tel ég því að í þeirri tillögu felist mikil hætta fyrir landsbyggðarfólk að þessu leyti.

Skoðanir samfylkingarinnar um að tillögur um fækkun kjördæma séu skref í áttina að því að gera landið allt að einu kjördæmi gefa tilefni til þess að óttast að ef þessi öfl komast einhvern tíma til verulegra áhrifa verði málið tekið upp aftur og reynt að stíga skrefið til fulls.

Herra forseti. Af því sem ég hef hér sagt má marka að ég sé ekki yfir mig hrifinn af þeirri tillögu sem hér liggur fyrir um breytingar á kjördæmaskipan enda er það svo að ég tel að með þessu sé verið að stíga vont skref sem ekki sér fyrir endann á. Ég hefði viljað fara aðrar leiðir í þessu máli, nefnilega að verja núverandi kjördæmaskipan. En það er ljóst að uppi eru mjög mismunandi sjónarmið í málinu og mér virðast þau skiptast meira og minna eftir landsbyggðinni annars vegar og þéttbýlinu á suðvesturhorninu hins vegar.

Þótt svo að almennt sé sú skoðun uppi að draga beri úr misvægi atkvæða þá er ljóst að mjög skiptar skoðanir eru um það hvaða breytingar á að gera varðandi kjördæmaskipan og hvort nokkrar breytingar eigi að gera að því leyti. En mér er fullljóst að þær tillögur sem hér liggja fyrir njóta það mikils stuðnings í þinginu að þær munu að öllum líkindum verða samþykktar fyrir lok þessa þings. Og þeir tiltölulega fáu þingmenn sem hafa aðrar skoðanir mega sín lítils gagnvart því og fá því vart hnikað.

[17:00]

Í ljósi þess að málið mun ná fram að ganga liggur fyrir að leita verður allra leiða til þess að treysta sem best tengsl þingmanna og kjósenda í sameinuðum og stækkuðum kjördæmum. Það er mjög mikilvægt og ég tel það reyndar eitt af grundvallaratriðum málsins. Þegar þetta mál hefur náð fram að ganga, og ég geri ráð fyrir að það verði samþykkt, verður náttúrlega hlutverk þingmanna og stjórnmálaaflanna að laga hlutina að breyttum aðstæðum. Það verður mikilvægt verkefni sem ég veit að allir þeir sem hlut eiga að máli munu taka þátt í að leysa þjóðinni til hagsbóta.