Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 17:38:15 (3532)

1999-02-11 17:38:15# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[17:38]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf erfitt að bera saman kosningakerfið í hinum mismunandi löndum. Í Bandaríkjunum er fulltrúadeildinni skipt niður eftir fjölda, þ.e. þar fer fjöldi þingmanna kjördæmis eftir íbúatölu og breytist það mjög eftir því hvernig íbúaþróun er. Í öldungadeildinni er hins vegar hvert fylki með tvo fulltrúa og öldungadeildin hefur um margt annað hlutverk. Þetta eru auðvitað leifar af því kerfi sem var við lýði víða þar sem var eins konar landsþing, þ.e. þessi efri deildar hugsun þar sem þessi hluti þingsins átti að geta stöðvað eitt og annað. Við sjáum það einmitt núna þessa dagana hvaða hlutverk öldungadeildin leikur í Bandaríkjunum. Hún er eins konar hæstiréttur í Bandaríkjunum, þ.e. í ákveðnum málum. Þessi samanburður er því ákaflega erfiður.