Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 17:44:07 (3535)

1999-02-11 17:44:07# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[17:44]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þarna liggur einmitt meginágreiningurinn. Löggjafinn hefur mikil áhrif á þessa þróun, bæði löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið. Það er reynsla manna erlendis og það er líka reynsla manna hérlendis því allan þann tíma sem menn hafa verið að byggja upp íslenskt stjórnkerfi frá 1904 hafa menn byggt upp miðstýrt kerfi sem dregið hefur alla þætti til sín. Alþingi leikur lykilhlutverk í því að setja leikreglurnar í íslensku þjóðfélagi. Menn hafa skapað það þjóðfélag að meira að segja Hæstiréttur, sem á að vera hæstiréttur allra Íslendinga, leyfir sér að komast að þeirri niðurstöðu að það megi ekki flytja opinberar stofnanir út fyrir sveitarfélagið Reykjavík þó að engin lög séu til í Lagasafni Íslands sem Hæstiréttur getur stuðst við til að komast að þeirri niðurstöðu. Þessi dómur Hæstaréttar endurspeglar það viðhorf sem ríkir í embættismannageiranum og honum opinbera geira í Reykjavík og það er þetta sem við erum að glíma við. Þróunin er ekkert náttúrulögmál. Þetta er afleiðing af mannanna verkum.