Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 18:09:11 (3540)

1999-02-11 18:09:11# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[18:09]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Sú umræða sem hefur átt sér stað í dag hefur að mörgu leyti verið býsna gagnleg en að öðru leyti dálítið sérkennileg eins og fram kom í ræðu hv. þm. Guðna Ágústssonar áðan. Ætla mætti af málflutningi hans að það væri samfylking jafnaðarmanna sem bæri þetta mál inn á hið háa Alþingi en ekki að fyrstu tveir flutningsmenn frv. væru annars vegar hæstv. forsrh. og hins vegar hæstv. utanrrh., sem hv. þm. styður til stjórnarsetu, og þingflokksformaður Framsfl. sem væri talsmaður þessa máls. Þetta segi ég bara til ábendingar.

Það er líka dálítið merkilegt að heyra þær athugasemdir og gagnrýnisraddir sem fram hafa komið í dag og þá sérstaklega af hálfu stjórnarþingmanna þar sem þeir hafa fundið þessu frv. ýmislegt til foráttu. Minna hefur farið fyrir því að fram kæmu hjá þeim uppbyggilegar ábendingar og tillögur um aðrar og skynsamlegri leiðir. Það er nákvæmlega það sem hefur vantað inn í umræðuna.

Ég sagði í morgun að vissulega væru þarna inni atriði sem gætu verið skiptar skoðanir um þvert á flokka og stjórnmálasamtök en hins vegar kallaði ég þá eftir öðrum skynsamlegri leiðum því að kjarni málsins er sá og það hygg ég að allir séu sammála um að við það misvægi atkvæða sem við búum núna verður ekki búið að óbreyttu. Hvort menn vilja kalla það mannréttindabrot eða eitthvað allt annað, þá er það bara veruleiki málsins.

Síðan hafa ýmsir stjórnarþingmenn eins og gripið guð í fótinn þegar þeir ræða um prófkjör samfylkingar og rætt þar mikið um hólfun og mismunun af hálfu frambjóðenda þar á bæ. Það kann vel að vera. Lengi má böl bæta með því að benda á annað verra en ég lýsi hins vegar þeirri skoðun minni að það er auðvitað ekki skynsamleg leið en hún er þó miklum mun skárri og eitthvað veigaþyngri þegar lýðræði er annars vegar en það að nokkrir framsóknarmenn á Selfossi hittist og skipi mönnum sínum í réttar raðir eins og gerðist í heimasveit hv. þm. Guðna Ágústssonar.