Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 18:17:35 (3544)

1999-02-11 18:17:35# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., Frsm. VS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[18:17]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til þess að segja örfá orð í lok umræðunnar sem frsm. nál. og þakka þessa umræðu sem hefur verið málefnaleg. Ég hef alltaf gert mér góða grein fyrir því að þetta mál er ekki hafið yfir gagnrýni. Ég vil hins vegar vara menn svolítið við því að halda því fram að málið hefði litið einhvern veginn allt öðruvísi út en raun ber vitni ef aðrir hefðu setið í nefndinni. Ég vil a.m.k. fá að fullyrða það hérna að nefndarmenn lögðu sig mjög fram um að ná samkomulagi um tillögu sem ætti möguleika á að verða samþykkt á hv. Alþingi.

Þingflokkar fengu að fylgjast með málinu eins og mögulegt var og þess vegna átti engum að koma á óvart hver niðurstaðan varð. Það sem þingmönnum þykir erfiðast að sætta sig við, eða ég met umræðuna þannig, eru breytingarnar á kjördæmamörkunum og stækkun landsbyggðarkjördæmanna og jafnvel einnig það að Reykjavík verði tvö kjördæmi. Austurlandskjördæmið hefur ekki síst verið til umræðu hvað þetta varðar og hversu stórt það verður landfræðilega. En það er þó þannig að þingmenn nýja Norðausturkjördæmisins verða jafnmargir og þingmenn Norðurl. e. og Austurlands þannig að að því leyti til get ég ekki alveg fallist á það að eins mikil breyting verði og margir vilja vera láta. Ég segi fyrir mig, sem kem úr Norðurl. e., að ég bókstaflega hlakka til þess að fá að takast á við verkefni á Austurlandi líka, ef ég sit þá á Alþingi þegar þar að kemur.

Það hefur verið talað um að það þurfi að mæta aukinni ábyrgð og aukinni vinnu þingmanna í landsbyggðarkjördæmunum með aðstoð við þá og því er ég eindregið fylgjandi. Ég vil einnig minnast á það sem hefur verið nefnt hér af hv. þm., að hugsanleg breyting á þingskapalögum og betri skipulagning á störfum hér á hv. Alþingi ætti að geta hjálpað okkur hvað þetta varðar þannig að þingmenn hafi meiri tíma í sínum kjördæmum. Það held ég að sé algjört grundvallaratriði.

Umræður um breytingar sem urðu á kjördæmaskipan árið 1959 voru mjög miklar og það var mikil harka í þeim umræðum og fróðlegt er að lesa þær umræður, enda var sú breyting mjög róttæk þar sem breytt var úr 27 í átta kjördæmi. Ég vil taka undir það sem hefur komið hér fram að auðvitað eiga þingmenn að líta á sig sem þingmenn landsins alls. En það sem gerir það mikilvægt að mínu mati að halda áfram með kjördæmi en fara ekki yfir í það fyrirkomulag sem sumir hafa talað fyrir, að landið verði eitt kjördæmi, er að með því móti hafa þingmenn tækifæri til þess að þekkja betur til en ella væri. Og eins það að kjördæmin eru sjálfstæð hvað varðar t.d. uppstillingu á lista og þar er virkt lýðræði sem ræður því hvernig skipast á listana. Auðvitað má deila um það hvaða aðferðir eru bestar og það hefur komið hér mjög inn í umræðuna að ekki eru allir hrifnir af prófkjörum eins og þau hafa verið framkvæmd. Það er réttur hvers flokks fyrir sig og hvers kjördæmis fyrir sig að ákveða hvaða aðferð er viðhöfð við uppröðun.

En hvers vegna erum við svo að þessu öllu saman? Ástæðan hlýtur að vera sú m.a. að stjórnmálaflokkarnir hafa ályktað um að þeir vilji breyta kosningalögum og eru þær ályktanir í sjálfu sér svolítið mismunandi milli flokkanna. En almennt álykta flokkarnir í þá átt að vilja minnka þetta misvægi. Það varð kveikjan að því að farið var út í breytingarnar sem síðan leiddu það af sér að það að ná niður misvæginu, þýddi að okkar mati að ekki var önnur leið fær en að stækka kjördæmin, miðað við það að þingmenn væru það margir í landsbyggðarkjördæmunum að allir flokkar, við skulum segja u.þ.b. 15% flokkar, ættu möguleika á að fá þingmenn kjörna.

Byggðaþróun hefur mjög komið inn í þessa umræðu og ég get í sjálfu sér tekið undir það að ekki er hægt að fullyrða um það að ef kjördæmin væru öðruvísi, ef aldrei hefði átt sér stað þessi breyting árið 1959 o.s.frv., að þá hefði byggðaþróun orðið önnur en raun ber vitni. Enginn veit neitt um það. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hægt sé að hafa áhrif á byggðaþróun, einhver áhrif með fjármagni. Og það höfum við lagt okkur fram um í þessu ríkisstjórnarsamstarfi að auka fjármagn t.d. vegna námskostnaðar ungs fólks á landsbyggðinni og eins að hækka styrki vegna húshitunarkostnaðar. Þetta er viðleitni í þá átt að gera búsetu á landsbyggðinni betri og gera hana þannig að fólk flytji síður hingað á suðvesturhornið.

Mér finnst að við þurfum að vara okkur dálítið þegar við tölum um aðstæður á landsbyggðinni að mála ekki hlutina of sterkum litum. Mér finnst varhugavert að tala um þetta eins og allir hafi það afleitt á landsbyggðinni því að svo er alls ekki, þó að þar mætti margt betur fara. Mér finnst líka að við verðum að gæta þess að tala ekki þannig um landsbyggðina og landsbyggðarkjördæmin að þar séu fyrst og fremst vandamál að fást við. Það er margt sem gengur mjög vel og margir eru ákaflega hamingjusamir sem þar búa og geta alls ekki hugsað sér að flytja í fjölmenni.

Þess vegna vil ég hafa það mín síðustu orð að mér finnst það nokkuð mikil ábyrgð að tala þannig um landsbyggðina og aðstæður manna þar eins og þær séu mjög slæmar, því að það er alls ekki þannig. Mjög margt jákvætt hefur verið að gerast þar. Ég vil kannski sérstaklega nefna heilsugæsluna, hvernig hún hefur verið byggð myndarlega upp um allt land. Það var pólitísk ákvörðun á sínum tíma og skipti miklu máli. Síðan er það annað mál að það hefur ekki tekist nægilega vel að fá lækna. Ég ætla ekki að fara nánar út í það. Eins held ég að því megi halda því fram að skólakerfið almennt sé gott og það fari batnandi með hverjum áratug og hverju ári sem líður.

Ég þakka þessa ágætu umræðu og þakka þeim sem störfuðu með mér í nefndinni. Þó að við séum ekki að gera málið að lögum núna þá er mestu af vinnunni lokið og ég vil þakka kærlega fyrir ákaflega gott samstarf í nefndinni.