Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 18:56:42 (3555)

1999-02-11 18:56:42# 123. lþ. 64.4 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[18:56]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er örstutt um þessi mál. Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara og það er fyrst og síðast vegna þess að ég hafði lýst þeim viðhorfum mínum við fyrri umræðu máls að það reiknilíkan sem Siglingastofnun hefur útbúið og byggt er á að verulegu leyti þykir mér þannig úr garði gert að óvarlegt sé að taka allt of mikið mið af því. Það er auðvitað í þróun enn þá og margt sem bendir til þess að það þurfi að vinnast og þróa miklu betur. Enda kemur á daginn við umfjöllun nefndarinnar að vikið hefur verið frá þessu reiknilíkani í nokkrum tilfellum eftir að samráð og samband hafði verið haft við heimamenn um forgangsröðun verkefna innan einstakra kjördæma. Það undirstrikar að þó menn finni upp hjólið eða einhverja aðferðafræði til þess að skipta fjármunum eins og menn þekkja af lengri reynslu í vegamálunum er það ekki alltaf upp á punkt og prik.

Í annan stað vek ég einnig athygli á því að fallið hefur verið frá því upphaflega markmiði að lækka kostnaðarhlutdeild ríkisins gagnvart höfnum sem veltu yfir meira en 100 millj. kr. ef ég man þá tölu rétt, það voru ein tvö hafnasambönd sem þar höfðu þá lent í skerðingu. Frá því hefur verið vikið. Um það má hafa ýmis sjónarmið uppi en ég ætla ekki að hafa langt mál um það. Ég vek aðeins athygli á því sérstaklega.

Í þriðja lagi vil ég nefna til sögunnar það sem vegur kannski hvað þyngst, að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og ég höfum flutt brtt. við þessa hafnaáætlun. Hún lýtur að þremur höfnum, en tvær þeirra eru satt að segja ekki með á blaði þegar hafnaáætlun er annars vegar. Þar er um að ræða höfnina í Kópavogi annars vegar og höfnina í Garðabæ hins vegar. Það er auðvitað fullkomlega óásættanlegt. Mér þykir mjög varhugavert og get ekki samþykkt það að þessar tvær hafnir séu teknar út úr með þeim hætti sem hér er gert og því borið við að þessar litlu hafnir séu í einhverri stórsamkeppni við höfuðborgarhöfnina, Reykjavík. Það er fjarri öllu lagi og ekki nokkur rökstuðningur í þessu máli. Þær eru eðlis\-ólíkar með öllu svo að ég tali ekki um stærðarmuninn. Við áðurnefndir þingmenn höfum því leyft okkur að leggja til breytingar við hafnaáætlun sem skýra sig fyllilega sjálfar.

Við höfum einnig lagt til að framlag til Hafnarfjarðarhafnar verði nær þeim veruleika sem heimamenn þar hafa óskað eftir og einnig lýtur það að hlutdeild ríkissjóðs í því framlagi. Sumpart gildir það sama um Hafnarfjarðarhöfn og ég gat um varðandi hinar tvær hafnirnar. Í fyrstu tillögu var ekki gert ráð fyrir því að Hafnarfjörður yrði með á blaði. Nú hefur hins vegar þingmeirihlutinn aðeins dregið úr og hefur a.m.k. skákað einhverjum fjármunum þangað en ekkert í neinu samhengi við þær óskir sem þaðan hafa komið. Þetta þykir mér ekki búandi við og hef því lagt þessa brtt. fram. Að vísu ber að vekja á því sérstaka athygli að við erum að ræða þessa hafnaáætlun við dálítið sérkennilegar aðstæður. Hún kom seint fram á síðasta hausti, svo seint að ekki náðist að ljúka afgreiðslu hennar fyrir jólaleyfi þingmanna sem hefði verið hinn eðlilegi framgangsmáti. Þess í stað er í gildi hafnaáætlun yfirstandandi árs sem byggir á samþykkt við afgreiðslu fjárlaga. Það er með öðrum orðum öfugt að verki staðið eins og allir sjá. Þetta er hins vegar liðin tíð og við þessu er ákaflega lítið að gera.

Ég tel að óhætt sé að fullyrða að þokkaleg sátt sé um þær tillögur sem er að finna í þessari hafnaáætlun. Ég gat þess að þingmannahóparnir komu að þessu verki vítt og breitt um landið og allt fékk þetta svona þegar almennt er talað viðunandi niðurstöðu. Það eru því fyrst og síðast þessi örfáu atriði sem ég hef nefnt til sögu sem gera það að verkum að fyrirvari minn stendur og einnig kemur til þess að þingheimur þarf að taka afstöðu til þeirra breytingartillagna sem hafa verið kynntar.

[19:00]