Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:15:38 (3564)

1999-02-15 15:15:38# 123. lþ. 65.1 fundur 246#B endurskoðun laga um stjórn fiskveiða# (óundirbúin fsp.), SighB
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:15]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þessi sjónarmið hæstv. sjútvrh. koma mér ekki á óvart, ég hef heyrt þau áður. En ég hélt satt að segja að búast mætti við að einhverjar breytingar væru í farvatninu. Það liggur fyrir í fyrsta lagi að verð á kvóta sem hægt er að fá núna á kvótamarkaði er svo hátt að það ræður enginn útgerðarmaður lengur við að afla sér heimilda með þeim hætti.

Í öðru lagi hefur komið fram í fréttum, í viðtali við formann sjútvn., að hann óskaði eftir því að þessir útgerðaraðilar kæmu til sín sem formanns nefndarinnar hugmyndum um breytingar og óskir og að nefndin mundi opna málið fyrir þinglok á ný. Ég átti því satt að segja von á að fá önnur svör frá hæstv. sjútvrh. en að ekkert hafi verið rætt við hann um málið.

Ég spyr hann því hvort hann muni ekki gera ráðstafanir til þess að ræða málið við formann sjútvn. svo að oddvitar ríkisstjórnarinnar í þessu máli, formaður nefndarinnar og hæstv. sjútvrh., séu ekki að tala annar í vestur og hinn í austur, annar að gefa vonir og væntingar sem hinn segir að séu falskar.