Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:17:05 (3565)

1999-02-15 15:17:05# 123. lþ. 65.1 fundur 246#B endurskoðun laga um stjórn fiskveiða# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:17]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef þegar gert grein fyrir þeirri afstöðu sem liggur fyrir af hálfu sjútvrn. og er í sjálfu sér ekki meira um það að segja. Einstakir þingmenn hafa auðvitað málfrelsi til að segja sínar skoðanir og það frelsi verður ekki af neinum tekið.

Það lá alveg ljóst fyrir að þær breytingar á löggjöf sem ákveðnar voru á síðasta þingi til að leysa deilur sjómanna og útvegsmanna mundu hafa afleiðingar í för með sér fyrir þau skip sem hafa haft litlar aflaheimildir og voru að leigja til sín. Löggjöfin miðaði að því að þrengja kosti þeirra og stöðu, þannig að það á ekki að þurfa að koma neinum á óvart að þessi staða sé uppi og að þær ráðstafanir sem þá voru gerðar til þess að koma til móts við sjónarmið sjómanna mundu hafa í för með sér hækkun á leiguverði á aflaheimildum.