Símalínur og tengibúnaður Landssímans á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:19:27 (3567)

1999-02-15 15:19:27# 123. lþ. 65.1 fundur 247#B símalínur og tengibúnaður Landssímans á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:19]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég beini fsp. minni til hæstv. samgrh. Fjarvinnsla og tölvunotkun fer vaxandi um allt land. Tölvan telst nú til sjálfsagðra heimilistækja. Símalínur og flutningsleiðir fyrir tölvur og símtæki eru víða í ólestri í dreifbýli og anna ekki þeirri umferð sem um þær fer. Líkja má flutningaleiðum þessum við moldarvegi eða troðninga væri um nútímabifreiðaumferð að ræða.

Tölvueign landsmanna er mjög mikil. Á ferðamannastöðum, t.d. á Leirubakka í Landsveit, er oft erfiðleikum háð að nota myndsendi, jafnsjálfsagt tæki og það er, hvað þá internetið. Sömu sögu segir mér sveitarstjóri Holta- og Landsveitar, sem notar mjög mikið tölvu við vinnu sína, en oft á tíðum er afar erfitt að nýta internetið í þessu sambandi vegna þess að flutningaleiðin, flutningaæðin er svo gamaldags.

Fjarvinnsla er mjög vaxandi atvinnugrein og með því flutningakerfi sem nú er er það erfiðleikum háð að vinna með tölvu í dreifbýli, t.d. á Suðurlandi. Þetta skapar mikinn ójöfnuð í samkeppni milli dreifbýlis og þéttbýlis.

Spurning mín til hæstv. samgrh. er eftirfarandi:

Hver er stefna samgrh. og samgrn. í þessum efnum? Stendur til að Landssíminn endurnýi þessar flutningsæðar á næstunni þannig að þær megi verða nútímalegar og dreifbýlisbúar geti notið tækni tölvunnar eins og fólk í þéttbýli?