Klám

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:24:44 (3571)

1999-02-15 15:24:44# 123. lþ. 65.1 fundur 248#B klám# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:24]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. dómsmrh. og spyr um málefni sem að margra mati er að þróast óheillavænlega á Íslandi.

Í fyrsta lagi. Eru af hálfu dómsmrn. einhverjar aðgerðir fyrirhugaðar gegn klámiðnaði á Íslandi?

Í öðru lagi. Hafa grunsemdir um vændi verið rannsakaðar?

Herra forseti. Ég bendi á að frá því hefur verið greint í fjölmiðlum að 60--90 erlendar nektardansmeyjar séu starfandi á veitingahúsum hérlendis. Einnig má nefna þann fjölda auglýsinga sem birtast daglega í DV um alls kyns þjónustu á þessu sviði.

Ég vil, herra forseti, fá leyfi til að láta þessa síðu liggja hér í ræðustólnum til upplýsingar fyrir hæstv. dómsmrh., ef hann hefur ekki horft á eða fylgst með því sem er að gerast í þessum málum. Ég vona að tími gefist fyrir hæstv. dómsmrh. til að gefa svör í þessu máli, sem er mjög alvarlegt og tengist eiturlyfjaneyslu sem er vaxandi og mikið vandamál í höfuðborginni og víðar á landinu.