Atvinnumál á Breiðdalsvík

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:29:17 (3575)

1999-02-15 15:29:17# 123. lþ. 65.1 fundur 249#B atvinnumál á Breiðdalsvík# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:29]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Á undaförnum áratugum hafa menn víða í sjávarplássum á landinu róið lífróður til að halda uppi atvinnu og tryggja hráefni til vinnslu. Það byggðarlag sem mæðir hvað mest á í þessum efnum nú er í mínu kjördæmi, þ.e. Breiðdalsvík, þar sem atvinnuástand er vægast sagt afar ótryggt og byggðarlagið hefur ekki yfir neinu hráefni að ráða. Það fyrirtæki sem nýlega hefur verið stofnað þar, Útgerðarfélag Breiðdælinga, hefur ekki getað tryggt sér kvóta en unnið er að því hörðum höndum að reyna að viðhalda atvinnu í plássinu.

Fyrir liggur úttekt frá Byggðastofnun frá 12. jan. 1998 þar sem staðan er dregin upp í þessum efnum. Í þéttbýlinu á Breiðdalsvík eru um 200 manns en ef fiskvinnsla leggst þar af þá er talið að um 60 störf leggist af í plássinu.

[15:30]

Ég held að öllum sé ljóst að lykill að því að tryggja þarna áframhaldandi byggð felst í því að komið verði fótum undir fiskvinnslu og að heimamenn hafi yfir hráefni að ráða.

Í nýlega samþykktum breytingum á lögum um stjórn fiskveiða er lögfest að 1.500 þorskígildislestir verði til ráðstöfunar á næsta fiskveiðiári og árunum þar á eftir til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Hvað líður undirbúningi að reglum um úthlutun á þessum veiðiheimildum? Er þess að vænta að ríkisstjórnin gefi svör innan tíðar hvers menn, við aðstæður eins og á Breiðdalsvík, megi vænta í sambandi við þetta mál?