Menningarhús á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:36:42 (3580)

1999-02-15 15:36:42# 123. lþ. 65.1 fundur 250#B menningarhús á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:36]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla að minnast á það stóra mál við hæstv. menntmrh. sem ríkisstjórnin hæstv. hefur ákveðið, en það gerðist eftir áramótin að ríkisstjórnin og borgarráð Reykjavíkur gerðu með sér samkomulag þar sem ákveðið er að ráðast í byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar hér í höfuðborginni sem mun kosta 3--4 milljarða og er mikið verk. Ég ætla ekkert að draga úr mikilvægi þess. En til viðbótar því stendur til að reisa 300 herbergja gæðahótel við hliðina á þessari tónlistarhöll.

Ég ætla að spyrja hæstv. menntmrh. hvort rætt hafi verið hvaða áhrif slík bygging hefði t.d. á önnur hótel sem hér eru rekin á markaðnum. Einnig um áhrif á hótelmarkaðinn á landsbyggðinni, bændagistinguna o.s.frv., hvort það geti ekki skapast alvarlegt ástand miðað við þessa miklu fjárfestingu. Hvort það hafi verið rætt hvernig samkeppnisaðilar kunna að fara út úr þessu máli.

Svo ætla ég að minnast á hitt málið. Ríkisstjórnin ákvað að reisa menningarhús á landsbyggðinni á nokkrum stöðum. Þar er sjálfsagt hið besta mál. Þar þótti mér vanta upp á, til þess að alls samræmis væri gætt, að nokkrir staðir eins og Selfoss, Borgarnes og Suðurnesin væru þar með ekkert síður en Ísafjörður, Sauðárkrókur, Akureyri og Egilsstaðir. Vestmannaeyjar eru þar af öðrum toga. Þar er mikið mannlíf og sérstakt en það þjónar þó ekki stærri stað en þar er.

Síðan er það nú svo, hæstv. menntmrh., að landsbyggðin á mikið af félagsheimilum og menningarhúsum og stundar mikla menningu. Kannski eru það ekki hús sem hana vantar. Auðvitað vantar hana peninga (Forseti hringir.) til að reka sína starfsemi fremur og kannski styrki. Hefur hæstv. menntmrh. hugsað um það hvernig styrkja megi menningarlíf með öðrum hætti á landsbyggðinni?