Internetsamvinna skóla á Vestur-Norðurlöndum

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 16:04:22 (3590)

1999-02-15 16:04:22# 123. lþ. 65.5 fundur 195. mál: #A internetsamvinna skóla á Vestur-Norðurlöndum# þál., Flm. ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[16:04]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Norrænt samstarf hefur um árabil verið hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu. Allt frá lýðveldisstofnun hafa bönd landsins við Norðurlöndin verið sterk. Okkur er tamt að tala um íbúa Skandinavíu sem frændur okkar enda samskipti landanna ávallt verið mikil og fara vaxandi.

Á síðustu árum hefur samstarf Íslands við Færeyinga og Grænlendinga einnig aukist verulega, bæði efnahagslega, menningarlega og pólitískt. Það er bæði kærkomin og eðlileg viðbót við hið hefðbundna samstarf Norðurlandanna, enda standa þjóðir þessara landa okkur nær í mörgu tilliti. Lega landanna, stærð þjóðanna og menningarsérkenni valda því að Ísland, Færeyjar og Grænland standa að mörgu leyti frammi fyrir sömu vandamálum og eiga sömu sóknarfæri í hinu alþjóðlega samfélagi. Því má segja að á sama hátt og við ræðum um frændur okkar, Norðurlandabúa, þá séu íbúar Vestur-Norðurlanda náfrændur okkar og samskipti í þeim frændgarði ber að efla.

Vestnorræna ráðið, sem er samskiptavettvangur þjóð- og landsþinga Íslands, Færeyja og Grænlands, hefur að markmiði sínu að auka samskipti og samvinnu íbúa í löndunum þremur. Á ársfundi ráðsins, sem haldinn var í Ilulissat í Grænlandi í sumar samþykktu þingmenn ráðsins þrjár ályktanir sem nú eru lagðar fyrir Alþingi í formi þáltill.

Þessar tillögur miða að því að auka samstarf landanna í internetmálum skóla, í íþróttamálum og menningarmálum, og mun ég gera grein fyrir þeim í þessari röð.

Fyrst vil ég nefna 195. mál á þskj. 212 sem er þáltill. um eflingu internetsamvinnu skóla á Vestur-Norðurlöndum. Samkvæmt henni ályktar Alþingi að fela menntamálaráðherra Íslands í samvinnu við menntamálaráðherra Færeyja og Grænlands að hvetja til og beita sér fyrir aukinni samvinnu skóla í löndunum þremur er varða samskipti og samvinnu á internetinu.

Í grg. með tillögunni segir m.a.:

Miklar vegalengdir hafa hingað til sett samvinnu Vestur-Norðurlandanna þröngar skorður. Samgöngur á milli Íslands, Færeyja og Grænlands hafa bæði verið stopular og kostnaðarsamar, sem háð hefur efnahagslegu og menningarlegu samstarfi þjóðanna. Þetta kann að vera að breytast. Samskiptatækni hefur beinlínis fleygt fram síðustu ár og gert að engu vegalengdir á láði og legi sem áður torvelduðu samskipti. Þetta gildir sérstaklega um Vestur-Norðurlönd, sem hafa í miklum mæli tileinkað sér þessa nýju tækni. Ný samskiptatækni felur því í sér möguleika á að styrkja samstarf landanna og vestnorræna vitund, m.a. með því að efla samstarf skóla á Vestur-Norðurlöndum.

Ljóst er að internetið er samskipta- og fjölmiðill sem mun hafa varanleg áhrif á komandi árum og ber vestnorræni samvinnu að færa sér það í nyt. Rökin fyrir því að efla internetsamvinnu skóla á Vestur-Norðurlöndum eru fjölmörg. Með því að vinna sjálfstætt á internetinu læra nememdur að umgangast þessa nýju tækni og beita henni í leik og starfi. Á þann hátt vinnur skólinn gegn tölvufælni nemenda og ótta við tækninýjungar, og eykur færni þeirra í framtíðinni.

Hér er lagt til að vestnorræn skólasamvinna sé efld þannig að komið verði á sambandi þeirra skóla í löndunum sem óska eftir því að standa að samvinnuverkefni á internetinu um efni að eigin vali. Þannig mundi verkefnið geta aukið skilning og þekkingu nemenda á lífi og viðhorfum hvers annars, stuðlað að betri þekkingu á norrænum tungumálum og síðast en ekki síst leitt til þess að ungt fólk í löndunum hefði tækifæri til þess að kynnast og efla samskipti og vináttu sín á milli.

Því er lagt til að menntamálaráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands hvetji til og beiti sér fyrir aukinni internetsamvinnu skóla í löndunum þremur.